Heildarflatarmál fylkisins er 4.002
ferkílómetrar (minnsta fylki BNA). Sambandsstjórnin á 0,7%
landsins. Fylkið er nokkurn veginn ferhyrnt í lögun, 64 km
frá austri til vesturs og 76 km frá norðri til suðurs. Hæð
yfir sjó nær frá sjávarmáli til 247 m á Jerimoth-hæð í
norðvesturhlutanum. Eyjar fylkisins eru u.þ.b. 35, flestar
í Narragansett-firði. Hinar stærstu þeirra eru Rhode Island
(Aquidneck), Conanicut-eyja, Prudence-eyja og Block-eyja
(New Shoreham). Strandlengjan er 64 km (618 km ef reiknað
er með öllum eyjum og skerjum við lágsævi).
Fylkinu er skipt í tvær landfræðilegar einingar:
Strandláglendið og Austur-Nýja-Englands upplandið. Bæði
svæðin teygjast inn í önnur fylki á Nýja-Englandssvæðinu og
jarðvegurinn er fremur ófrjósamur.
Strandlínan er nokkuð óbrotin sandströnd með lágar hæðir og
saltmýrar að baki. Hún er öll mynduð á ísöld með jökulöldum,
sem úthafsaldan hefur síðan mótað. Sendin svæði er einnig
víða að finna á eyjum í Narragansett-firði. Lengra frá hafi
er að mestu að finna flatlenda jökulaura. Stórar lægðir eða
ker í landslaginu eru merki um bráðnun stórra ísflykkja,
eftir að jöklar tóku að hörfa (Lonsdale og Hammond-tjarnir).
Berggrunnurinn, sem er setmyndun frá ísöld, liggur djúpt
undir jökulaurnum.
Austur-Nýja-England upplandið er hæðótt með nokkrum
smávötnum. Berggrunnurinn er myndbreyttur og úr graníti með
þunnu yfirborðslagi jökulleir og grettistökum. Sums staðar
hefur veðrun máð jökulsetið brott.
Helztu vatnasviðin eru Providence, Seekonk og Sakonnet, sem
renna til Narragansett-fjarðar. Aðalár þessara vatnasviða
eru Blackstone, hunt, Pawtuxet, Pettaquamscutt, Potowomut og
Woonasquatucket. Pawcatuck rennur í Block-eyjarsund.
Stærsta stöðuvatnið er Scituate-lónið, sem varð til handan
Kent-stíflunnar í Pawtuxet-ánni.
Loftslagið er mildara í Rhode Island en öðrum fylkjum
Nýja-Englands og hitasveiflur minni. Sjávarnándin dregur úr
miklum sumarhita en vetur eru tiltölulega kaldir. Í
Providence er meðalhitinn í janúar -2°C og í júlí 22°C. Á
Block-eyju er meðahitinn -1°C og 21°C. Lægsta skráða
hitastig er -30,6°C (1942 í Kingston) og hið hæsta 40°C
(1975 í Providence). Stundum geisa skaðvænlegir fellibyljir
á ströndinni.
Flóra og fána. Fjöldi trjátegunda í fylkinu er a.m.k. 60.
Hinar mest áberandi eru eik, askur, hikkorí, álmur, hlynur,
víðir, ösp, sedrusviður og sykurhlynur. Skóglendi þekur
u.þ.b. 58% landsins. Fyrir ströndinni er mikill þaragróður.
Blómplöntur eru margar og víða.
Meðal algengra, villtra dýrategunda eru dádýr bifrar, otrar,
kanínur, þvottabirnir, þefdýr og íkornar. Í sjónum er
talsvert af sverðfiski, bassa, makríl, lúðu, túnfiski,
marglyttu og kræklingi. Í vötnum og ám þrífast bassi, karfi,
gedda og urriði. Meðal algengra fuglategunda eru bláskjór,
ugla, rauðbrystingur, endur, fasani, lynghæna, mávar og kría.
Auðlindir, framleiðsla, iðnaður. Meðal nýtilegra jarðefna
eru kalk, granít, sandur, möl og eðalsteinar.
Landbúnaðurinn er fremur rýr og afurðirnar eru aðallega
ræktaðar í gróðurhúsum og mjólkurvörur, egg, kartöflur, hey,
epli, nautakjöt, svínakjöt og kjúklingar.
Skóganýting er ekki mikil en fiskveiðar eru mikilvægur
atvinnuvegur (lúða, humar, kræklingur, smokkfiskur,
hörpudiskur, túnfiskur, þorskur, ufsi, síld o.fl.).
Iðnaður stendur undir u.þ.b. 21% vergrar þjóðarframleiðslu.
Helztu framleiðsluvörur eru málmar, nákvæmnistæki, fatnaður,
vefnaðarvörur, prentað mál, plastvörur, vélbúnaður til
iðnaðar, rafeindatæki, flutningatæki, efnavörur og matvæli. |