Tveir hópar indíana, algonquian- og iroquoian, bjuggu í
Pennsylvaníu. Helztu ættkvíslir hinna fyrrnefndu voru leni-lenape
(Delaware) og shawnee á Strandsléttunni og hinna síðarnefndu,
susquehannock, við samnefnda á og í vesturhlutanum voru erie og seneca.
Henry Hudson kannaði Delaware-flóa árið 1609 og brátt hóf Hollenzka
Vestur-Indíafélagið landnám þar. Í kjölfarið kom fólk á vegum
Nýja-Sænskafélagsins. Landnám þess varð eign Hollendinga 1655. Um
svipað leyti höfðu Englendingar komið sér upp skinnaverzlunarstöðum
við Delaware-flóa og árið 1665 lögðu Englendingar undir sig öll svæði
Hollendinga (Nýja-Holland).
Enskir kvekarar settust að á New Jersey eftir 1670 og árið 1681fékk
einn leiðtogi þeirra, William Penn, leyfisbréf fyrir svæðinu milli New
Jersey og Maryland, sem hann kallaði Pennsylvania (Pennskóga). Hann
samdi nokkurs konar stjórnarskrársaming, sem hann kynnti landnemum.
Penn stofnaði Fíladelfíu árið 1682 og gerði friðarsaming við indíána.
Enska krúnan afturkallaði leyfisbréfið árið 1692 en sjö árum síðar var
það endurnýjað. Penn endurskoðaði og breytti fyrri samingi við íbúana
1701 og kynnti svokölluð forréttindalög, sem voru stjórnarskrá
svæðisins til 1776.
Íbúum Pennsylvaníu fjölgaði hratt á 18. öldinni, þegar nýir landemar
streymdu að frá Englandi, Skotlandi, Írlandi og Þýzkalandi. Margir
hinna þýzkumælandi voru fylgjendur trúarbragða mennoníta, móravía og
annarra sértrúarhópa, sem líktust ensku kvekurunum. Fíladelfía óx og
varð mikilvægasta hafnarborgin á brezka yfirráðasvæðinu.
Deilur milli Breta og Frakka um yfirráðin í Vestur-Pennsylvaníu leiddu
til Franska-indíánastríðsins (1754-63; Frakkar og indíánar gegn Bretum).
Úrslitin urðu alger yfirráð Breta á svæðinu.
Sjálfstæðisstríð BNA. Eftir Franska-indíánastríðið (Sjö ára stríðið)
beittu Bretar strangari stjórnarháttum í nýlendunum. Þessi stefna
olli mikilli óánægju, sem gerði æ fleiri sjálfstæðissinnaðri og ekki
bættu auknar skattaálögur Breta upp úr 1770 úr skák. Bilið milli
andbrezka flokksins undir stjórn Benjamin Franklin og John Dickinson
og sambrezka flokksins undir stjórn Joseph Galloway breikkaði stöðugt.
Árið 1774 bauðst Galloway til að halda sameiginlega ráðstefnu til að
bæta samband nýlendnanna og Englands (Fyrsta meginlandsráðstefnan).
Niðurstaða hennar var þvert á vonir Galloways, því fulltrúarnir
höfnuðu tillögum hans um sambandið algerlega en samþykkti Suffolk-tillöguna,
sem hafnaði stefnu Breta og löndunarbann á brezkar vörur. Önnur
ráðstefnan var haldin í Fíladelfíu næsta ár. Rétt áður en fundur var
settur brutust út átök milli nýlendubúa og brezkra hersveita í
Massachusetts. Þetta var upphafa Sjálfstæðisstríðsins.
Fíladelfía, höfuðborg hins nýja sambandsríkis BNA, var hersetin frá
september 1777 til maí 1778. Á þessu tímabili kom þingið saman í
York. Fjárskortur varð til þess, að þingið samþykkti stofnun
Norðurameríkubanka í Fíladelfíu árið 1781. Þetta var fyrsti
viðskiptabanki heimssögunnar.
Árið 1787 varð ljóst, að sterkari sambandsstjórnar var þörf en
sambandslögin gerðu ráð fyrir (1781). Bankar og viðskiptajörfrar
greiddu leiðina fyrir stjórnarskrárþinginu í Fíladelfíu. Pennsylvanía
varð annað ríkið til að samþykkja stjórnarskrána, sem þingið lagði
fyrir fylkin.
Vesturhluti fylkisins þróaðist hratt, einkum svæði, sem áttu greiðan
aðgang að Pittsburgh. Við blasti mikil samkeppni við Baltimore, sem
lá betur við flutningum um Ohio-dalinn og gröftur Erie-skurðarins í
New York-fylki. Stjórn Pennsylvaníu afréð að hleypa af stokkunum
framkvæmdum til vegabóta og gerð skipaskurða snemma á 19. öld. Þessar
framkvæmdir tryggðu stöðu fylkisins sem mesta framleiðanda timburs,
kola og járns á heimsmarkaðnum. Þessu næst voru lagðar járnbrautir
milli allra hluta fylkisins
Fíladelfía óx sem miðstöð iðnaðar. Borgin varð mesti framleiðandi
lyfja um miðja 19. öldina og verksmiðjur hennar framleiddu einnig
vélbúnað, verkfæri, vefnaðarvöru, rúðugler, húsgögn, vagna og skip og
útgáfustarfsemi var mikil. Efnahagslífið í Ameríku tók miklum
breytingum eftir fund olíu í Titusville árið 1859. Olían var fyrst
notuð til lyfjagerðar og lýsingar. Olíuhreinsunarstöðvar risu og
stórfyrirtæki urðu til. Olían, kolin og góðar samgöngur gerðu
Pennsylvaníu að forystufylki iðnaðar í BNA.
Fyrir borgara/þrælastríðið var Pennsylvanía demókratafylki en
langvarandi andstaða gegn þrælahaldi færði íbúana nær
lýðveldisflokknum í kringum 1860. Í stríðinu urðu nokkrir staðir í
suðurhlutanum fyrir árásum og stórinnrás Suðurríkjamanna 1863 lauk með
stórsirgri sambandshersins í Gettysburg.
Eftir borgara/þrælastríðið héldu lýðveldissinnar velli í 50 ár. Meðal
áberandi stjórnmálamanna þess tíma voru Simon Cameron, Mattew S. Quay,
Bois Penrose o.fl. Þeir lögðu mikið af mörkum til stuðnings og
verndar vaxandi iðnvæðingu fylkisins.
Þessi blómstrandi iðnaður krafðist æ fleira verkafólks, sem streymdi
að sem innflytjendur, aðallega frá Írlandi, Frakklandi, Þýzkalandi,
Englandi og Skandinavíu. Stórir hópar komu einnig frá Ítalíu,
Póllandi, Austur-Ungverjalandi og Rússlandi. Síðla á þriðja áratugi
20. aldar fóru negrar frá Suðurríkjunum að flykkjast til Pennsylvaníu.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina hefur fjölgun íbúa verið lítil, þótt
iðnaðurinn héldi velli. Mesta breytingin á sviði iðnaðar hefur legið
í dreifingu framleiðslunnar milli smærri eininga utan aðalborganna,
ekki sízt vegna möguleika almennings til að kaupa og nýta bíla. Í lok
20. aldar bjuggu ekki miklu fleiri í þéttbýli en árið 1920 og umhverfi
íbúanna er svipað því, sem fyrstu landnemarnir bjuggu við. |