Pittsburgh er næststærsta
borgin í Pennsylvaníu. Hún
er miðstöð fjármála og flutninga við annasömustu höfn landsins.
Til hennar liggja margar járnbrautir, siglingaleiðir fjölda
áætlanaskipa, aðalþjóðvegir og skammt utan borgar er
millilandaflugvöllur. Fjöldi
stórfyrirtækja hefur aðalstöðvar í borginni.
Í kjölfar hruns stáliðnaðarins í borginni tókst að efla
efnahagslífið á ný með öðrum greinum, s.s. hátækniframleiðslu
og heilbrigðisþjónustu. Pittsburgh
er fremst í heiminum í líffæraígræðslum og þar er fjöldi rannsókna-
og tilraunastofnana. Helztu
framleiðsluvörur borgarinnar eru tæknibúnaður til sjálfvirkni í iðnaði,
hugbúnaður og líftækni. Í
borginni eru rúmlega 700 brýr og borgin oft nefnd Brúaborgin.
Meðal æðri
menntastofnana borgarinnar eru Borgarháskólinn, Carnegie Mellon-háskólinn,
Duquesne-háskólinn (1878), Carlow-háskólinn (1929), Tækniháskólinn
(1794) og Öldunga-guðfræðiháskólinn (1810).
Meðal áhugaverðra staða eru Frick-listasafnið, Listasafni
borgarinnar, Sarah-Mellon Scaife-listasafnið, Vísindamiðstöðin og Náttúrugripasafnið.
Carnegie-stofnunin rekur öll þessi framangreindu söfn.
Þá má nefna Vísindastofnun almennings, Phipps-tónlistarhöllina
og Allegheny-höllina. Meðal
leikvanga borgarinnar er Three Rivers Stadium, sem er notaður fyrir
leiki úrvarlsliða í ruðnings- og hafnarbolta.
Í borginni starfar symfóníuhljómsveit, ballet, ópera og
Borgarópera.
Bretar og Frakkar gerðu kröfu til lands við ármót Allegheny- og
Monongahela-ánna. Samkvæmt
ráðum George Washington, sem hafði heimsótt þetta landsvæði árið
1753, var send hersveit frá Virginíu til að leggja svæðið undir
sig næsta ár og hefja smíði virkis.
Innan þriggja mánaða réðust Frakkar og indíánar á Virginíumennina,
sem urðu að hörfa. Frakkar
luku smíði virkisins og kölluðu það Fort Duquesne.
Síðla árs 1758 réðist herleiðangur Breta undir stjórn John
Forbes, hershöfðingja, á virkið. Hann náði því undir sig eftir að Frakkar höfðu lagt það
í rúst sjálfir áður en þeir flýðu af hólmi.
Nýja virkið, sem Bretar reistu, var kallað Pitt-virkið til
heiðurs brezka forsætisráðherranum William Pitt, fyrsta jarlinum af
Chatham.
Í kjölfar frelsisstríðsins óx Pittsburgh sem birgðastöð
landnemanna á vesturleið. Í
kringum 1792 byggði George Anshutz bræðsluofn á staðnum. Það var fyrsta skrefið í þróun járn- og stálvinnslunnar,
sem fór fyrst að vaxa verulega eftir 1850. Árið 1797 reis fyrsta glerverksmiðja borgarinnar og árið
1804 var fyrsta vefnaðarverksmiðjan byggð. Árið 1834 var Pennsylvanía-skipaskurðurinn opnaður og
Portage járnbrautin einnig. Báðar
þessar samgönguleiðir tengdu borgina við Fíladelfíu og færðu
borgarbúum aukin viðskipti. Mikil
endurskipulagning atvinnuvega hefur farið fram í borginni síðan á
sjötta áratugi 20. aldar. Í
tengslum við þær hefur verið hugað vel að mengunarvörnum, flóðavörnum
og afrennslismálum. Áætlaður
íbúafjöldi 1990 var tæplega 370 þúsund. |