Chinook-, Yakima-, Cayuse-, Modoc- og Shoshone-indíánar
voru meðal fyrstu íbúa núverandi landsvæðis Oregon. Árin 1542-43
sigldi spænski sæfarinn Bartolomé Ferrelo frá Mexíkó til staðar í
Suður-Oregon. Annar slíkur, Sebasián Vizcaino, var á ferðinni
1602-03. Árið 1579 sigldi Sir Francis Drake meðfram
Kyrrahafsströndinni, líklega alla leið til Oregon. Árið 1778 sá James
Cook skipstjóri Oregonströndina nærri ósum Alsea-árinnar. Næstu
áratugi voru mörg brezk og bandarísk skip á ferðum um þessar slóðir en
það var ekki fyrr en 1788 að hvítir menn stigu á land í Oregon. Þar
var á ferðinni menn úr áhöfn Lady Washington undir stjórn Robert Gray
skipstjóra. Í næstu ferð sinni 1792 sigldi hann upp stóru ána, sem
hann nefndi Columbia eftir skipi sínu. Bandaríkin gerðu síðar kröfu
til alls svæðisins, sem Columbia-áin og vatnasvið hennar nær yfir.
Skinnaverzlunin í Oregon. Kyrrahafsskinnafélagið (John Jacob Astor)
kom upp skinnaverzlun, Astoria, við Columbia-ána árið 1811. Eftir
stríðsyfirlýsinguna milli Breta og Bandaríkjanna árið 1812 seldi John
Brezka norðvesturfélaginu skinnaverzlunina, sem fékk þá nafnið Fort
George.
Árið 1818 leiddu samningaviðræður milli Breta og BNA til skiptingar
yfirráðasvæða um 49°N alla leið vestur í Klettafjöll. Ekki tókst að
ná samkomulagi um mörkin vestan Klettafjalla og norðan 42°N, svo að
báðir aðilar féllust á sameiginleg yfirráð þar næsta áratuginn.
Spánverjar höfðu einnig gert kröfu til Oregon-svæðisins en létu af
henni norðan 42°N árið 1819. Bretar og Bandaríkjamenn sömdu við Rússa
á árunum 1824-25 um eftirgjöf krafna þeirra sunnan 54°40’N. Síðan
hittust fulltrúar Breta og BNA á ráðstefnu um þessi mál árið 1827.
Brezka Hudsonflóafélagið stjórnaði hinni arðbæru skinnaverzlun í
Oregon eftir yfirtöku Norðvesturfélagsins. Á fimmta áratugi 19. aldar
hófst skipulagt landnám Bandaríkjamanna á Oregon-svæðinu og spurningin
um yfirráðin kom afur upp á yfirborðið.
Árið 1843 kröfðust BNA, að Bretar létu af yfirráðum sunnan 54°40’N.
Frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum 1844 beitti fyrir sig
slagorðinu “54-40 eða stríð” til að tryggja sér leið að embættinu með
góðum árangri. Eftir langvarandi samningaviðræður tókst að semja um
49°N sem mörkin vestan Klettafjalla og línu um miðskurðinn milli
Vancouver-eyju og meginlandsins að Kyrrahafi.
Oregonhérað var stofnað 1848 og náði milli 42°N og 49°N frá
Klettafjöllum til Kyrrahafs. Það náði yfir núverandi Washington-fylki
og hluta af Idaho, Montana og Wyoming. Margir landnemar stöldruðu
stutt áður en þeir héldu áfram til Kaliforníu vegna gullfundanna
1849. Þessi landflótti vannst fljótlega upp eftir að sambandsþingið
samþykkti lög um fría úthlutun lands í Oregon árið 1850. Fjölgun
íbúanna og aukin hagsæld leiddu til umsóknar um stofnun fylkis árið
1857. Heimildin var gefin tveimur árum síðar. Uppreisnir indíána
urðu æ heiftugari eftir borgara/þrælastríðið (1864-73). Shoshone-stríðið
(1866-68) var mjög blóðugt og olli miklum eignaspjöllum. Margar
orrustur voru háðar við indíána á áttunda áratugnum, þegar var farið
að beita nauðungarflutningum þeirra inn á verndarsvæðin.
Stöðugur hagvöxtur. Á árabilinu 1869, þegar lokið var við Union
Pacific-járnbrautina, til aldamóta fjórfaldaðist íbúatalan og rúmlega
það. Landbúnaður og skóganýting voru undirstöður efnahagslífsins.
Áveitur, stíflur og vatnorkuver hafa létt störfin í þessum
atvinnugreinum síðan á fjórða áratugi 20. aldar. Hergagnaframleiðslan
í síðari heimsstyrjöldinni bætti hag fylkisbúa verulega og markaði
upphaf fjölbreytilegri iðnaðar. Árið 1956 leiddi uppgötvun
náttúrugass til enn frekari iðnrekstrar og fjölgunar íbúa.
Miklar breytingar hafa orðið í timburiðnaðnum síðan á sjöunda
áratugnum og nýjar leiðir verið markaðar til hagkvæmari nýtingar. Þær
hafa ekki dugað til að róa verndarsinna, sem berjast fyrir varðveizlu
upprunalegra skógasvæða. |