Samkvæmt manntalinu 1990 var íbúafjöldinn
2.842.321 og hafði fjölgað um 7,9% næstliðinn áratug.
Meðalfjöldi íbúa á hvern ferkílómetra var 11. Hvítir 92,8%,
negrar 1,6% auk 37.443 indíána, 13.652 kínverja, 11.796
Japana, 9.088 Víetnama, 8.668 Kóreumanna, 7.411 Filipseyinga
og 3.508 asísk/indverskra. Spænskættaðir íbúar voru
112.700. Indíánar voru m.a. af ættum klamath, wasco, walla
walla, paiute, umatilla og cayuse.
Menntun og menning. Árið 1849 var Oregon viðurkennt sem
hérað og Nathan Dane-lögin gerðu íbúunum kleift að koma sér
upp skólakerfi. Fyrsti skólinn var opnaður 1851. Í kringum
1990 voru grunnskólar 1.190 með 472.400 nemendur auk 32.600
í einkaskólum. Þá voru 46 æðri menntastofnanir með 161.800
stúdenta. Þeirra á meðal eru Willamette-háskóli (1842) í
Salem, Lewis og Clark-háskóli (1867), Reed-háskóli (1909),
Portland ríkisháskóli (1946), Portlandháskóli (1901) og
Norðvestur-Kyrrahafsháskóli (1909) í Portland,
Linfield-háskóli (1849) í McMinnville, Oregon-háskóli (1876)
í Eugene, Oregon ríkisháskóli (1868) í Corvallis og
Kyrrahafsháskóli (1849) í Forest Grove.
Portland listasanfið, Sögufélagssafnið og Vísinda- og
iðnaðarsafn Oregon eru í Portland. Önnur kunn söfn eru
Listasafn Oregon-háskóla í Eugene og Favell lista- og
minjasafnið í Laamath Falls.
Áhugaverðir staðir. Fjölsóttasta ferðamannasvæði fylkisins
er Crater Lake National Park. Sögustaðir eru fjölmargir,
s.s. Astoria Column og Fort Clatsop þjóðarminnismerkið í
Astoria, McLoughlin-húsið (1846) og heimili John C.
Ainsworth (1850) í Oregon City, Bush-húsið (1877) í Salem og
Bybee Howell-húsið (1856) í Portland.
Íþróttir og afþreying. Þjóðarskógarnir, sem þekja mestan
hluta fylkisins, auk fagurrar strandlengju, fjalla,
vatnsfalla og stöðuvatna skapa aðstæður til margs konar
útivistarafþreyingar. Golf og útreiðar eru vinsælar
íþróttir. Stór skíðasvæði eru umhverfis Hood-fjall,
Bachelor-fjall og Ashland-fjall. |