Heildarflatarmál fylkisins er 107.044 ferkílómetrar
(34. í stærðarröð BNA). Sambandsstjórnin á 1,3% landsins. Það er
nokkurn veginn ferhyrningslagað, 360 km frá austri til vesturs og 344
km frá norðri til suðurs. Hæð yfir sjó er á bilinu 139 m meðfram
Ohio-ánni í suðvesturhlutanum til 472 m á Campbell-hæð í
vesturmiðhlutanum. Meðalhæð yfir sjó er 259 m. Strandlengjan við
Erie-vatn er u.þ.b. 500 km.
Landfræðileg skipting: Láglendið við austanverð Vötnin miklu,
Leirslétturnar, Innlandshásléttan og Appalachia-hásléttan.
Mikluvatnaláglendið í norðri er tiltölulega flat með nokkrum
hlíðabröttum dölum. Jarðvegurinn er víðast kalksnauður og ræsingar er
þörf til ræktunar. Leirsléttan nær yfir mestan vesturhluta fylkisins.
Landslagið er mjúklega hæðóttur jökulruðningur. Innlandshásléttan nær
yfir smásvæði í suðurhlutanum. Hún er hæótt og þverhnípt meðfram ánum
og jarðvegur er bæði grábrúnn og rauðgulur. Næsturm allure
austurhlutinn er undir Appalachia-hásléttunni, sem er að mestu hæðótt
með hlíðabröttum og mjóum dalbotnum. Þarna er hrjúfasta landslag
fylkisins. Ísaldarjökullinn lá á hluta hennar og skildi eftir
sandkennda leirþekju.. Hann náði ekki til suðurhlutans, sem hefur
grófari drætti og þynnri og ófrjósamari jarðveg.
Helztu vatnsföll: Maumee, Sandusky, Vermilion, Cuyahoga, Great Miami,
Scioto, Hocking og Muskingum. Vatn rennur af smásvæði í
vesturhlutanum til Wabash-vatnakerfisins í Indíana. Stærstu
flóðavarnakerfin eru Miami Conservancy District við Stóru-Miami-ána og
Muskingum Conservancy District við Muskingum-ána. Auk Erie-vatns má
nefna hið stærsta hinna smærri, Grand Lake st Mary’s í vesturhlutanum,
en þau eru manngerð og eru langflest á Appalachia-hásléttunni.
Loftslagið. Landið skiptist í tvö meginloftslagssvæði. Í
suðurhlutanum er það rakt og jaðartrópískt. Þar eru frostlausir dagar
á bilinu 180-240 á ári. Meðalárshiti í Cincinnati er 12,8°C og
meðalársúrkoma 1.020 mm. Í Columbus er meðalárshitinn 10,8°C og
ársúrkoman 940 mm og í Cleveland 10°C og 889 mm. Lægsta skráða
hitastig er -39,4°C (1899 í Milligan) og hið hæsta 45°C (1897 í
Thurman og 1934 nærri Gallipolis). Fárviðri eru fátíð en þrumuveður
eru tíð og staðbundinna hvirfilvinda má vænta á hverju ári.
Flóra og fána. Skóglendi þekur u.þ.b. 25% landsins (hlynur, beyki,
eik og hikkorí). Landið er gróðri vaxið og margar plöntur alláberandi
(svarteygða súsan, sóleyjar, kamillur, fíflar, sólblóm o.fl.).
Dádýr, kalkúnar, bifrar, kanínur, íkornar, pokarottur, sléttuúlfar,
refir, þvottabirnir og þefdýr eru algengar tegundir. Gaupan og
ároturinn eru í útrýmingarhættu og sjást aðeins í suðausturhlutanum.
Endur, haukar, orrar, fasanar, uglur, kardinálar, kóngaveiðarar,
lævirkjar og spætur eru algengir fuglar. Hlöðuuglur og skallaörninn
eru í útrýmingarhættu. Helztu skriðdýr eru skjaldbökur, eðlur,
brúnsnákar, mjólkursnákar, koparhausar og trjáskröltormar. Í ám og
vötnum synda bassar, sólfiskar, karfar, urriði, gedda og karfi.
Auðlindir, framleiðsla, iðnaður. Námugröftur nær tæpu 1% af vergri
þjóðarframleiðslu (kalksteinn, kol, leir, olía og gas, gips, salt,
sandur og möl).
Verðmætustu landbúnaðarafurðirnar eru mjólkurvörur, svínakjöt, hey,
hveiti og nautakjöt. Mikið er ræktað af maís og sojabaunum en minna
af höfrum, tómötum, kartöflum, gúrkum, sykurrófum, tóbaki, eplum,
ferskjum og greipaldinum.
Þótt stór svæði í Suður- og Austur-Ohio séu skógi vaxin, er
timburvinnsla ekki mikil og u.þ.b. 90% hennar byggjast á harðviði.
Þriðjungur er nýttur til pappírsgerðar en meirhlutinn í borðvið.
Fiskveiðar eru smáar í sniðum, enda er Erie-vatn orðið svo mengað, að
lítið lífsmark er eftir.
Iðnaðurinn stóð undir 28% vergrar þjóðarframleiðslu í kringum 1990.
Helztu framleiðsluvörur voru: Vélbúnaður (landbúnaðartæki,
skrifstofuvélar o.þ.h.), samgöngutæki (bílar, bílahlutar og
geimflaugar), málmar, málm-, gúmmí- og plastvörur, rafeindatæki, gler,
efnavörur, byggingarefni, íþróttavörur, prentað efni, vefnaðarvörur,
sápa og snyrtivörur, olíuvörur og matvæli. |