Dayton Ohio Bandaríkin,


DAYTON
OHIO

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Dayton er kjarni stórborgarsvæðis, miðstöð viðskipta, flutninga, menningar og iðnaðar (bílahlutar, útgáfustarfsemi, gúmmívörur, skrifstofutæki og matvæli).  Hún er líka miðstöð hátækniþróunar og búnaðar til geimferða.  Þarna bjuggu bræðurnir Wilbur og Orville Wright, sem urðu fyrstir til að smíða viðurkennda flugvél.  Flughetjuhöllin er í Dayton.  Paul Laurence, sem fæddist í Dayton, var meðal fyrstu negrarithöfundanna til að fá heimsviðurkenningu og Dunbar-húsið, sem nú er safn, var bústaður hans frá 1903 til 1906, þegar hann dó.  Meðal æðri menntastofnana borgarinnar eru Tækniskóli flughersins (1919), Dayton-háskóli (1850) og Wright-ríkisháskólinn (1964).  Meðal stærstu vinnuveitenda er Wright-Patterson herstöðin.  Rétt suðvestan Dayton er Miamisburg-hóllinn, sem er meðal stærstu grafhauga indíána í austurhluta Norður-Ameríku.

George Rogers Clark, herforingi í frelsisstríðinu, vann sigur á Shawnee-indíánum við Dayton árið 1782.  Hvítir menn settust þar síðan að árið 1796 og nefndu byggðina eftir Jonathan Dayton, hershöfðingja, sem var meðal stofnenda hennar.  Hún dafnaði vel sem miðstöð iðnaðar eftir opnun Miami-Erie-skipaskurðarins árið 1829.  Margar bugðóttar ár streymdu um þetta svæði og ollu oft flóðum (mest 1913) þar til lokið var við mikilvirkar flóðavarnir árið 1922.  Árin 1966-67 var Dayton vettvangur mikilla mótmæla gegn kynþáttamisrétti.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var 182 þúsund.

Mynd:  Heimili Wright-bræðra.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM