Cleveland Ohio Bandaríkin,


CLEVELAND
OHIO

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Clevelandborg í Ohio er miðleiðis milli Chicago og New York og hráefni og markaðir eru innan seilingar.  Borgin liggur á 23 km löngu svæði meðfram Erie-vatni og er mikil miðstöð viðskipta, iðnaðar og menningar á iðnaðarsvæðum Miðvesturríkjanna.  Hún er miðja stórborgarbyggðar Ohio-fylkis og mesta hafnarborg við siglingaleiðir um Vötnin miklu og St Lawrence-leiðina.  Helztu framleiðsluvörur borgarinnar eru stál- og stálvörur, vélbúnaður og verkfæri, bílar og bílahlutar, tölvur, vörubílar, rafeindatæki og húsbúnaður.  Útgáfustarfsemi er mikil.  Flutningar byggjast aðallega á járngrýti, kolum, korni og kvikfé auk framleiðsluvöru borgarinnar.

Á Almenningstorginu er fjöldi minnisvarða milli hæstu bygginga borgarinnar (Society Center, 228m).  Meðal atvinnuliða í íþróttum má nefna Indians (hafnarbolti) og Cleveland Browns (ruðningur).  Borgin er setur Case Western Reserve-háskólans (1826), John Carroll-háskólans (1886), Notre Dame-háskólans (1922), Listastofnun Cleveland (1882), Fylkisháskólans (1964) og Tónlistaskóla borgarinnar (1920).

Á 18. öld komu Frakkar og indíánar upp verzlunarstöðum í neðri hluta Cuyahoga-dalsins.  Árið 1796 kannaði og mældi Moses Cleaveland þennan landshluta fyrir Connecticut Land Company og byggðin, sem myndaðist í kjölfarið var nefnd eftir honum (a var sleppt úr nafninu til að það passaði inn í heiti dagblaðs).  Eftir opnun Ohio-skipaskurðarins 1832 varð bærinn tengiliður í viðskiptum milli Ohio-dals og markaðanna í austri um Erie-skipaskurðinn.

Grundvöllur iðnþróunar var lagður eftir 1850 með auðveldari aðgangi að járngrýti og kolum.  Járngrýtið kom um skipaskurð frá Miklavatnssvæðinu (Lake Superior) og kolin komu með lestum frá Kentucky og Vestur-Virginíu.  Í þrælastríðinu var fjöldi iðnfyrirtækja stofnaður í borginni, þ.á.m. olíuhreinsunarstöðvar (John D. Rockefeller eldri 1862), stálver og fataverksmiðjur.  Iðnvæðingunni fylgdi mikil íbúafjölgun á árunum 1850-1910 (17.034-560.663).

Í báðum heimstyrjöldunum fjölgaði negrum mikið (46,6% íbúanna 1990).  Óeirðir og átök blossuðu upp vegna óstöðugrar atvinnu, kynþáttafordóma og bágs húsnæðis (einkum í Hough) árið 1966.  Næsta ár var Carl B. Stokes kjörinn borgarstjóri, fyrsti negrinn, sem fékk það embætti í stórborg í BNA.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var 506 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM