Norður Karólína sagan Bandaríkin,


SAGAN
NORÐUR-KARÓLÍNA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Hinn 4. júlí 1584 vörpuðu tveir enskir landkönnuðir á vegum Sir Walters Raleigh akkerum fyrir strönd þessa landsvæðis.  Skýrsla þeirra um þetta landsvæði var jákvæð, þrátt fyrir að það væri byggt indíánum, og nýlenduleiðangur var sendur á vettvang næsta ár.  Hinn 17. ágúst 1585 var stofnað til nýlendu á Roanoke-eyju en byggðin var yfirgefin ári síðar.  Annar hópur á vegum Raleigh lenti á eyjunni 22. júlí 1587.  Landnemarnir 121 voru undir forystu John White.  Barnabarn hans, Virginia Dare, fædd 18. ágúst 1587, var fyrsta barn enskra foreldra, sem fæddist í Ameríku.  White sigldi aftur til Englands til að ná í vistir.  Þegar hann kom til baka 1590, sáust engin merki um nýlenduna.  Árið 1629 gaf Karl I, Englandskonungur, Sir Robert Heath leyfisbréf fyrir landinu sunnan Virginíu, Carolina, og árið 1663 gaf Karl II út 8 leyfisbréf fyrir jafnmörgum hlutum þessa svæðis.  Eigendurnir skiptu svæðinu í Norður- og Suður-Karólínu og settu landshlutunum sérstök grundvallarlög og ríkisstjórn eftir hugmyndum enska heimsspekingsins John Locke.  Grundvallarlögin gerðu ráð fyrir fjögurra deilda þingi og þremur aðalsstéttum.  Þau komust aldrei alveg á koppinn og voru afnumin árið 1693.

Eignarhaldið á nýlendunni, sem stóð yfir frá 1663 til 1729, var óróasamt vegna sjálfstæðis landnemanna, sem áttu til að reka hvimleiða landstjóra.  Karólínusvæðin urðu eigendum sínum ekki féþúfa og árið 1728 seldu sjö þeirra krúnunni hluta sína.  Árið 1744 skipti áttundi eigandinn á sínum hlut og minni landræmu í Norður-Karólínu.  Nýlendubúarnir héldu áfram uppreisnum sínum gegn yfirvöldum, sem voru konunglegir landstjórar.  Á árunum 1765-71 var andspyrnuhópur (Regulators) virkur gegn konunglegu valdstjórninni og neitaði að greiða skatta.

Árin eftir sjálfstæðisstríðið.  Fyrsta bráðabirgðaþingið koma saman árið 1774 og sendi fulltrúa á fyrsta sambandsþingið.  Norður-Karólína varð fyrst til að fela fulltrúum sínum þar að greiða atkvæði með sjálfstæði 12. apríl 1776.  Fyrsta stjórnarskrá fylkisins var lögleidd 18. desember 1776.  Hermenn fylkisins tóku þátt í mörgum afgerandi orrustum í sjálfstæðisstríðinu og árin 1776 og 1781 réðust brezkar hersveitir inn í fylkið.  Fulltrúar voru sendir á stjórnlagaþingið 1787 en þeir neituðu að samþykkja uppkastið vegna þess að það gæfi sambandsstjórninni of mikil völd.  Fylkisbúar tóku ekki þátt í fyrstu forsetakosningunum.  Eftir samþykkt mannréttindalaganna staðfesti Norður-Karólína stjórnarskrá BNA (19. nóv. 1789).

Á tímabilinu frá staðfestingu stjórnarskrárinnar til borgara/þrælastríðsins ríkti mikil ólga milli austur- og vesturhlutanna vegna þingfulltrúa og hins mikla fjölda íbúanna, sem tóku sig upp og héldu vestur á bóginn til að nema ný landsvæði.  Í febrúar 1861 hafnaði fylkisþingið aðskilnaði frá BNA, en þegar Abraham Lincoln sendi út herkvaðningu, breyttist afstaðan.  Hinn 20. maí 1861 var aðskilnaður samþykktur.  Í borgara/þrælastríðinu börðust rúmlega 120.000 hermenn frá Norður-Karólínu með Suðurríkjahernum og fylkið varð fyrir meira mannfalli en nokkurt annað fylkja Suðurríkjanna.  Á síðasta ári stríðsins var Norður-Karólína matarforðabúr Suðurríkjahersins.  Árið 1867 réði Norðurríkjaherstjórn ríkjum á endurreisnartímanum.  Stjórnarskráin, sem var lögleidd 1886, veitti negrum kosningarétt og sama ár hóf Ku Klux Klan ógnaröldina í fylkinu.  Alríkisstjórnin kallaði her sinn heim frá fylkinu árið 1868.

20. öldin.  Fyrri helming aldarinnar einbeittu yfirvöld og íbúarnir sér að hefðbundinni framleiðslu tóbaks og vefnaðarvöru.  Síðari heimsstyrjöldin jók á fjölbreytni iðnaðarins og eftir stríðið efldist sú þróun enn meira.  Fylkið er enn þá mikill tóbaksframleiðandi en framtíð þessa iðnaðar verður æ óvissari og vefnaðariðnaðurinn berst í bökkum vegna ódýrari innflutnings.  Nálega helmingur íbúanna býr og starfar í þéttbýli, þannig að þörfin fyrir félagslega þjónustu vex stöðugt.  Ströng umhverfislög vernda einstæð strandsvæði fylkisins gegn iðnvæðingu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM