Samkvæmt manntalinu 1990 voru 638.800 íbúar í
fylkinu og hafði fækkað um 2,1% næstliðinn áratug. Þá var
meðalfjöldi íbúa 3,5 á hverjum ferkílómetra og flestir
bjuggu á aðalþéttbýlissvæðunum. Hvítir 94,6%, negrar 0,6%
auk 4.700 af spænskum uppruna, 25.870 indíána og 3.462
asískra eða frá Kyrrahafseyjum. Ojibwa og Sioux-indíánar
voru í meirihluta meðal indíána.
Menntun og menning. Trúboðar stofnuðu fyrsta skólann í
Norður-Dakota árið 1818 í Pembina. Ríkisstyrkt skólakerfi
var samþykkt á þingi árið 1862 og um það leyti, sem fylkið
varð hluti BNA (1889) voru ríkisskólar orðnir u.þ.b. 1.400.
Í kringum 1990 voru grunnskólar 679 með 118.800 nemendur auk
6.200 í einkaskólum. Samtímis voru æðri menntastofnanir 20
talsins með 40.350 stúdenta. Ríkisháskólinn (1883) er
stærstur og næstir koma Norður-Dakotaháskóli (1890) í Fargo,
Jamestown-háskóli (1883) í Jamestown og Minot ríkisháskólinn
(1913) í Monot.
Áhugaverðir staðir. Ríkisgarðurinn Fort Abraham Lincoln er
vinsæll ferðamannastaður auk margra sögustaða. Sumir þeirra
eru gömul virki frá 19. öld. Þar á meðal eru Fort
Abercrombie, Fort Buford, Fort Clark, Fort Dilts, Fort
Mandan, Fort Pembina, Fort Ransom, Fort Rice, Fort Seward,
Fort Totten og Fort Union. Aðrir sögustaðir eru m.a. gröf
Sitting Bull (sioux-höfðingjans), Writing Rock Historic Park
(klettur með indíánaristum) og Þjóðgarður Theodore
Roosevelt, sem nær yfir hluta Roosevelt Elkhorn búgarðsins.
Íþróttir og afþreying. Óvíða annars staðar í BNA er meira
um tækifæri til dýraveiða, einkum fuglaveiða (endur, orri,
fasanar og gæs). Í júní og júlí eru haldnar villireiðar
(rodeo) í mörgum borgum og bæjum. Á veturna er upplagt að
fara á skauta, skíði, og bruna um á snjósleðum. |