Las Cruces er borg í
áveitudalnum Mesilla nærri Grande-ánni í Nýja-Mexíkófylki.
Umhverfis borgina eru mikilvæg tilraunastöð hersins með
eldflaugar (White Sands Missile Range) og nokkrir fagrir fjallgarðar.
Verksmiðjur borgarinnar framleiða m.a. prjónales og unnar
landbúnaðarvörur (baðmull, pekanbaunir, laukur o.fl.).
Borgin er setur Fylkisháskólans (1888).
Nafn borgarinnar er dregið af krossunum á gröfum u.þ.b. 40
ferðamanna, sem Apache-indíánar drápu árið 1830.
Áætlaður íbúafjöldi 1990 var rúmlega 62 þúsund. |