Heildarflatarmál fylkisins er 314.939 ferkílómetrar (5.
í stærðarröð BNA). Sambandsstjórnin á 33,1% landsins. Það er nokkurn
veginn ferhyrnt í laginu, 630 km frá norðri til suðurs og 565 km frá
austri til vesturs. Hæðarmunur er frá 866 m til 4.011 m á toppi
Wheeler-tinds í norðurhlutanum. Meðalhæð yfir sjó er nálægt 1.737
metrum.
Landslag er mjög fjölbreytilegt, allt frá eyðimerkurlægðum til hárra,
snævi þakinna tinda. Austurþriðjungur fylkisins er hluti Sléttanna
miklu. Hluti þeirra sunnan Kanadaárinnar er þekktur undir nafninu
Háslétturnar (Llano Estacado) og í norðurhlutanum eru veðrað landslag
(mesas og buttes). Fjallshryggir Klettafjalla teygjast inn í
miðnorðurhlutann. Rio Grande-gljúfrið liggur frá norðri til suðurs og
klýfur þetta fjallendi. Austan þess eru Sangre de Cristo-fjöllin og
vestan þess eru Nacimiento-fjöllin.
Í mið- og suðvesturhlutum fylkisins eru fjallgarðar og dalir og
eyðimerkurlægðir. Kolóradósléttan teygist inn í norðvesturhornið.
Þar eru víðir dalir og sléttur með djúpum gljófrum. San Juan-lægðin í
norðausturhorninu er tiltölulega flatlend.
Helztu vatnsföll landsins eru Rio Grandi, Pecos (þverá), Kanadaáin,
Chaco, San Juan, Gila og San Francisco. Stöðuvötn eru fá og flest í
fjallgörðum miðnorðurhlutans. Meðal stórra manngerðra lóna eru
Elephant Butte-lónið, Conchas, Caballo, Navajo og Sumner.
Loftslagið. Þurrt og hálfþurrt meginlandsloftslag ríkir í landinu.
Úrkoma og hiti fer mikið eftir landslagi en í heildina tekið er
rakastig lágt og sólskin mikið. Dagfarssveiflur hita eru miklar.
Meðalárshiti er á bilinu 4,4°C í fjalllendinu í miðnorðurhlutanum til
17,8°C í suðurhlutanum. Lægsta skráð hitastig er -45,6°C (1951) og
hið hæsta 46,7°C (1934). Mestur hluti úrkomunnar fylgir þrumuveðrum.
Flóra og fána. Rúmlega 6000 tegundir plantna hafa fundizt í landinu (grös,
runnar, kaktus, baunatré, artemisiarunnar, baðmullartré,
eyðimerkurvíðir, kreósótrunnar, einir, fura, ponderosa, eik, hlynur,
ösp, greni og birki).
Tegundir villtra dýra eru margar vegna fjölbreytilegs landslags (svartbjörn,
antilópur, fjallaljón, gaupa, múldýr, dádýr, sléttuúlfur, barbarafé,
kanína, greifingi, sléttuhundur, minkur og bifur). Helztu veiðifuglar
eru sléttuhænsn, lynghænur, orrar, fasanar og villikalkúnar.
Skröltormar eru víða og tarantúla í suðvesturhlutanum. Í ferskvatni
þrífast urriði, bassi, krappi og karfi.
Auðlindir, framleiðsla, iðnaður. Námugröftur stendur undir 10% af
vergri þjóðarframleiðslu. Miklar birgðir af kolum, olíu og
náttúrugasi eru í jörðu. Hvergi er meira unnið af pottösku og kopar í
BNA. Einnig eru talsverðar birgðir af gulli, silfri, járni, blýi,
mangan, molybdenum og sínki. Landbúnaður og kvikfjárrækt (2%
þjóðarframl.). Mest áherzla er lögð á heyskap og ræktun baðmullar og
grænmetis.
Iðnframleiðslan stendur undir 7% vergrar þjóðarframleiðslu.
Aðalframleiðsluvörur eru rafeindatæki, nákvæmnistæki, samgöngutæki,
prentað mál, vélabúnaður, matvæli, vörur úr steini, leir og gleri og
timbur og trjávörur. Handverksiðnaðurinn er mikilvægur fyrir flest
indíánasamfélög. Ferðaþjónustan er geysimikilvæg. |