Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúar fylkisins
1.515.069 og hafði fjölgað um 16,3% næstliðinn áratug.
Meðalfjöldi íbúa á hvern ferkílómetra var 5. Hvítir 75,6%,
negrar 2% auk 134.100 indíána (9%; pueblo, navajo, apache
o.fl.; margir á verndarsvæðum). Alls voru 579.200 (38%) af
spænskum uppruna. Margir íbúanna eru tvítyngdir (enska +
spænska).
Menntun og menning. Strjálbýli og tvö tungumál gerðu
íbúunum erfitt fyrir á ýmsa vegu, s.s. við uppbyggingu
menntakerfisins. Konunstilskipun frá 1721 kvað á um stofnun
og þróun þess en allt fram á sjöunda áratug 19. aldar varð
ekkert úr framkvæmdum. Þá var fyrsti ríkisskólinn stofnaður
og ekki er hægt að tala um skipulagt menntakerfi fyrr en
árið 1891. Í kringum 1990 voru grunnskólar 658 með 296.100
nemendur auk 16.900 í einkaskólum. Þá voru æðri
menntastofnanir 26 með 81.350 stúdenta. Helztar þeirra voru
Ríkisháskólinn (1888) í Las Cruces, Highland-háskóli
Nýja-Mexíkó (1893) í Las Vegas, Vestur-Nýja-Mexíkóháskóli
(1893) í Silver City og Nýja-Mexíkóháskóli (1889) í
Albuquerque.
Helztu söfn landsins eru Þjóðminjasafnið og
indíánalistasafnið í Santa Fe og Listasafn ríkisháskólans,
Maxwell mannfræðisafnið og National Atomic-safnið í
Albuquerque. Einnig eru áhugaverð söfn í Roswell (Listamiðstöð)
og í Alamogordo (Geimfrægðarsafnið).
Áhugaverðir staðir. Margir sögustaðir eru helgaði
menningararfi indíána og spænskra landnema. Acoma Pueblo er
líklega elzta byggðin með stöðuga búsetu í BNA.
Landstjórahöllin, sem Spánverjar byggðu í Santa Fe, er elzta
opinbera byggingin í BNA og í trúboðsstöðinni San Miguel í
Santa Fe er einhver elzta varðveitta kirkja í landinu.
Meðal annarra búsvæða indíána eru Taos Pueblo,
Aztekaþjóðarminnismerkið, Chaco menningar- og sögugarðurinn
og Gila-þjóðarminnismerkið með kletta- eða hellabústöðum.
Carlsbad-hellaþjóðgarðurinn í grennd við Carlsbad er meðal
náttúruundra landsins og El Morro þjóðarminnismerkið með
klettaristum í nágrenni Grants. Þá er Bandelier
þjóðarminnismerkið í grennd við Santa Fe.
Íþróttir og afþreying. Stórir þjóðarskógar og fjöll,
fallegir árdalir og stöðuvötn gera fylkið eftirsótt til
dýraveiða, stangveiði, bátsferða, gönguferða og útilegu.
Mörg skíðasvæði eru einnig vinsæl. |