New Hampshire sagan Bandaríkin,


SAGAN
NÝJA-HAMPSHIRE

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Pennacooks-indíánar af algonquian-stofni voru meðal íbúa svæðisins fyrir landnám hvíta mannsins.  Fyrsti evrópski landkönnuðurinn var enski skipstjórinn Martin Pring, sem varpaði akkerum í Piscataqua-höfn árið 1603.  Tveimur arum síðar sigldi franski landkönnuðurinn Samuel de Champlain meðfram ströndinni og kom að Shoal-eyjum.  Árið 1614 heimsótti nýlendubúinn og hermaðurinn John Smith Piscataqua og einhver svæði innlandsins.  Árið 1620 fól James I, Englandskonungur, nýlenduráðinu í Nýja-Engladi stjórn svæðisins, sem hafði verið undir yfirráðum Plymouth-félagsins.  Árið 1622 fól nýlenduráðið Sir Ferdinando Gorges og John Mason yfirráðin á 97 km langri spildu milli ánna Merrimack og Kennebec.  Í þessum samningi var svæðið kallað Maine-hérað.  Árið 1623 var bærinn Little Harbour stofnaður, þar sem nú er Rye.  Hinn 7. nóvember 1629 var héraðinu skipt og Mason fékk hlutann á milli ánna Piscataqua og Merrimack og svæðið var skirt New-Hamshire.

Nokkrir verzlunarstaðir risu á þessu svæði, þ.á.m. Strawbery Bank, sem varð síðar Portsmouth.  Nýlenduráð Nýja-Englands var leyst upp at35 og brezka krúnan staðfesti yfirráð Masons og bætti 40.500 hektörum við vestan Kennebec-árinnar.  Árið 1638 kom brottrekinn prestur frá Massachusetts með fylgjendum sínum og stofnaði byggðina í Exeter.  Púrítanarnir í Massachusetts voru ekki ánægðir með búsetu konungssinna og fylgjendur ensku biskupakirkjunnar í New-Hampshire og gerðu tilkall til svæðisins.  Árið 1641 voru allar byggðirnar settar undir Massachusetts-flóanýlenduna nema Exeter, sem bættist við tveimur árum síðar.  Barnabarn Masons, Robert Mason, var einkaerfingi héraðsins 1655 og sótti um sjálfstæði þess til konungs.  Lagaflækjur töfðu afgreiðslu umsóknarinnar til 1677, þegar tilkynnt var, að Massachusetts réði svæðinu.  Árið 1679 var gefin út tilskipun um að New-Hampshire væri konunglegt hérað.  Á árabilinu 1686-89 var héraðið undir yfirstjórn Sir Edmund Andros, landstjóra Nýja-Englands.  Tilraunir íbúa New-Hampshire til að koma sér upp eigin héraðsstjórn mistókust en árið 1692 var konunglegri stjórn komið á fót.

Árið 1776 varð New-Hampshire fyrsta nýlendan til að fá eigin stjórnarskrá.  Í borgara/þrælastríðinu var meirihluti íbúanna þjóðernissinnaður.  Hersveitir frá Vermont og New-Hampshire gersigruðu Breta í Bennington í Vermont.  Hinn 21. júní 1788 varð New-Hampshire 9. fylki BNA.  Árið 1804 fékk Thomas Jefferson meirihlutafylgi íbúanna til forsetaembættisins en að öllu jöfnu hölluðust þeir á sveif með lýðveldissinnum til 1816, þegar demókrötum tókst að ná meirihluta heima fyrir og í Washington DC.  Þeir misstu völdin til þriðja flokksins, Know-Nothings, árið 1855.

Árin fyrir borgara/þrælastríðið boðaði endurbótafólk bindindi og afnám þrælahalds og naut vaxandi fylgis.  Eftir stríðið blómstraði iðnaður (vefnaður) og mikið var unnið að samgöngubótum.

Á síðari hluta 19. aldar streymdu franskir Kanadamenn til fylkisins og breyttu samfélagsmunstrinu verulega, því þar bjó aðallega fólk af enskum, skozkum og írskum uppruna.  Margir þessara innflytjenda störfuðu í ört vaxandi leðuriðnaði.  Bæir og borgir þöndust út og sveitasamfélagið varð að borgasamfélagi.  Um miðjan sjöunda áratug 20. aldar dró verulega úr skóframleiðslu og rafeindaiðnaður tók við.  Fylkisstjórnirnar lögðu áherzlu á aðlögun að breyttum aðstæðum og gerðu margt til að laða fyrirtæki að.  Á áttunda áratugnum var iðnaður aðalstoðin undir efnahagslífinu.

Ferðaþjónusta hefur verið mikilvæg frá aldamótunum 1900 og hefur vaxið og dafnað.  Vöxtur hennar varð mestur eftir 1970.  Fylkisstjórnir hafa eflt hana á ýmsan hátt, m.a. með lögum um mengunarvarnir.  Langar deilur um umhverfismál í tengslum við orkuvinnslu stóðu til 1990, þegar Seabrook kjarnorkuverið fékk starfsleyfi.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM