Concord, höfuðborg Nýja-Hampshire,
er miðstöð fjármálastarfsemi, viðskipta, flutninga í stóru landbúnaðarhéraði
og iðanaðar (prentað efni, rafeinda- og fjarskiptatæki og timburvörur).
Hið kunna, hvíta granít, sem var notað til byggingar bókasafns
þingsins, er numið í grenndinni og hefur verið notað til margra
annarra bygginga. Meðal áhugaverðra
staða í borginni eru Landstjórahúsið (1816-19) og fæðingarstaður
Mary Baker Eddy, stofnanda Kristilegu vísindasamtakanna.
Hvítir menn byggðu verzlunarstað á núverandi borgarstæði árið
1659, þar sem bjuggu áður indíánar af ættkvísl Algonquin.
Árið 1725 var stórbúgarðurinn Penacook byggður með leyfi
frá Massachusetts-flóanýlendunni og hann þróaðist í borgina
Rumford. Árið 1741
spruttu upp miklar deilur, þegar bæði Nýja-Hampshire og
Massachusetts gerðu kröfur til yfirráða í Rumford.
Deilurnar voru jafnaðar þannig, að fyrrnefnda fylkið fékk
yfirráðaréttinn, og árið 1765 fékk hún nafnið Concord vegna
eindrægni íbúa hennar á meðan deilurnar stóðu yfir.
Árið 1808 varð hún varanleg höfuðborg fylkisins.
Fyrstu stig efnahagsþróunar hennar byggðust á prentun og
eftir 1827 komu Lewis Downing eldri og J. Stephen Abbot upp stórri póstvagnaverksmiðju.
Þessir vagnar ásamt vagnaflota frá Wells Fargo léku stórt
hlutverk í opnun Vestursins. Samkvæmt
hefð er Nýja-Hampshire fyrsta fylkið til að útnefna frambjóðanda
til forsetakosninga og þar er líka kosið fyrst, þannig að þar
hefst kosningabarátta forsetaefna BNA ævinlega fyrst.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var 36 þúsund. |