Heildarflatarmál Nebraska er 200.358
ferkílómetrar (16. í stærðarröð BNA). Sambandsstjórnin á
1,1% landsins. Fylkið er nokkurn veginn ferkantað í laginu,
330 km frá norðri til suðurs og 675 km frá austri til
vesturs. Landhalli er jafn og aflíðandi frá austri til
vesturs og hæð yfir sjó er frá 256 m við Missouriána í
suðausturhorninu til 1.654 m í grennd við landamærin að
Wyoming og Colorado. Meðalhæð yfir sjó er 792 m.
Nebraska skiptist í þjrár landfræðilegar einingar: Skornu
ræktunarslétturnar, Slétturnar miklu og setslétturnar.
Landið er fjalllaust en margbreytilegt landslag kemur engu
að síður fram á sléttunum. Ísaldarjökullinn huldi
austurhlutann og skildi eftir urðarblandaðan leir og síðar
bættist áfok ofan á. Þá tók vatnsveðrun við og ár og lækir
grófu sig niður í setlögin. Dökkur og frjósamur jarðvegur
þessa svæðis er undirstaða mikils landbúnaðar. Slétturnar
miklu teygjast inn í Nebraska og þekja u.þ.b. 80%
vesturhlutans. Yfirborð þessa landshluta myndaðist að mestu
við framburð ánna (sandur, möl, set og leir). Í
miðsuðurhlutanum eru frjósamar áfokssléttur. Norðan árinna
Platte eru lágar sandhæðir, fornar sandöldur. Í
vesturanganum hefur veðrun myndað stakar, turnlaga hæðir og
norðvestast í landinu hefur veðrunin einnig myndað mjög
sérkennilegt landslag á þurrkasvæðinu.
Vatnasvið Missouriárinnar nær yfir allt fylkið og
aðalvatnsfallið er Platte neðan ármóta Norður- og Suður-Platte,
sem eiga upptök sín í Klettafjöllum. Aðrar meginárnar eru
Niobrara, Elkhorn, Loup, Republican og Big Blue. Sandy
Hills-svæðið er þakið hundruðum tjarna og smávatna. Stærstu
vötn fylkisins eru manngerð lón (Lewis & Clark-vatnið, C.W.
McConaughy-vatnið og Harlan County-vatn).
Loftslagið. Meginlandsloftslag ríkir í Nebraska. Sumur eru
heit og vetur harðir. Meðalárshitinn er 10,6°C og lítt
breytilegur milli landshluta. Lægsta skráða hitastig er
-43,9°C (1899) og hið hæsta 47,9°C (1936). Á sumir streyma
heitir og rakir loftmassar að frá Mexíkóflóa og valda tíðum
þrumuveðrum og stundum hagli eða hvirfilvindum. Stundum
geisa stórhríðar, sem loka vegum og valda dauða búsmala.
Þurrkar eru fremur tíðir í öllum landshlutum.
Flóra og fána. Vegna þess, hve loftslagið er tiltölulega
þurrt, er víðast graslendi og aðeins u.þ.b. 2% skóglendi (eik,
hikkorí, álmur, víðir, og ponderosafura).
Meðal villtra dýra eru sléttuúlfar, antilópur, dádýr, refir,
greifingjar og sléttuhundar. Fyrir rúmri öld reikuðu
miljónahjarðir af vísundum um slétturnar en finnast nú
aðeins á einangruðum verndarsvæðum. Fasanar og lynghænur er
algengar og við og á vötnum og tjörnum nokkrar tegundir
vaðfugla og máva. Fiskar í ám og vötnum eru aðallega bassi,
krappi, sólfiskur og gedda.
Auðlindir, framleiðsla og iðnaður. Olía er verðmætasta
auðlindin, þótt henni fylgi lítilsháttar náttúrugas. Önnur
jarðefni eru aðallega byggingarefni, sandur, möl og grjót (einkum
kalksteinn), leir og eðalsteinar.
Landbúnaðurinn stendur undir 11% af vergri þjóðarframleiðslu.
Rúmlega 95% landsins eru nýtt til hans. Kvikfjárræktin
nemur u.þ.b. tveimur þriðjungum tekna hans. Nebraska telst
til þriggja mestu nautgriparætarfylkja BNA en einnig er
talsvert um svína-, sauðfjár- og kjúklingarækt. Akuryrkjan
nær til maís, sorghum, sojabauna, heys, byggs, rugs, hafra,
hirsis, sykurrófna, bauna og kartaflna.
Iðnaðurinn nemur 13% vergrar þjóðarframleiðslu. Helztu
framleiðsluvörur eru unnin matvæli, vélar til iðnaðar og
elektrónísk tæki. Skóganýting og fiskveiðar eru í lágmarki. |