Indíánarnir, sem bjuggu í vestur- og norðurhlutum
núverandi fylkis fyrir landnám Evrópumanna, skiptust í tvo aðalhópa:
Algonquian í Hudsondalnum og á Long Island og iroquois í
vesturhlutanum. Samfélag hinna síðarnefndu var stjórnmála- og
hernaðarlega háþróað. Uppruna þeirra má rekja til ættkvísla Momohawk,
oneida, onondaga, cayuga og seneca og tuscaroras-indíánar bættust í
hópinn á 18. öld.
Nýlendutíminn. Ítalski landkönnuðurinn Giovanni da Verrazano sigldi
inn á New York-flóa árið 1524 en landnám hófst ekki fyrr en enski
sæfarinn Henry Hudson sló eign sinni á svæðið fyrir hönd Hollendinga
árið 1609. Hollenzka Vestur-Indíafélagið kom sér fyrir í Fort Orange
(nærri núverandi Albany) árið 1624 og í Nýju-Amsterdam á suðurenda
Manhattan-eyju tveimur árum síðar. Árið 1629 voru samþykkt lög um
margs konar athafnafrelsi og undanþágur til að laða að landnema.
Fyrstu árin ríkti óreiða vegna stöðugra árása indíána og óstjórnar en
Peter Stuyvesant, sem var landstjóri á árunum 1647-64 kom á bærilegum
friði og efnahagslegum stöðugleika. Árið 1664 hrifsuðu Englendingar
völdin og endurskýrðu Nýju-Amsterdam: New York skyldi byggðin heita,
í höfuðið á James II, hertoga af York, bróður Karls II konungs. James
II gerði New Jersey, sem var áður hluti Nýja-Hollands, að sérnýlendu
og fékk austurhluta Long Island frá Connecticut. Eftir stutta
endurkomu Hollendinga (1673-74), fengu Englendingar yfirráðin á ný.
Þegar James varð konungur, stofnaði hann skammlífa nýlendu, sem hann
kallaði Nýja-England með því að sameina Nýja-England, New York og New
Jersey (1686). Um leið og fréttir bárust af því, að hann hefði verið
settur af, gerðu íbúar New York uppreisn og gerðu Jacob Leisler að
landstjóra. Ensk yfirvöld tryggðu sér aftur völdin og hengdu Jacob
fyrir landráð 1691. Þau létu þingið starfa áfram og hafa áhrif á
stjórn nýlendunnar. Landstjórarnir gerðu sitt bezta til að þjóna bæði
þinginu og konungi og þingið tryggði sér smám sama meiri áhrif í
fjármálum nýlendunnar.
Schenectady var lögð í eyði í árásum Frakka og indíána 1690 og New
York var vígvöllur næstu áratugi í þessu stríði. Í stríðinu 1754-63
komu Frakkar upp stórri herstöð í Fort Ticonderoga við Champlain-vatnið
og tókst að ryðjast alla leið suður að Georgevatni. New York varð
ekki öruggt svæði fyrr en Jeffrey Amherst, lávarði, tókst að reka
Frakka frá Ticonderoga og Crown Point árið 1759. Eftir
friðarsamningana 1763 hurfu Frakkar á braut og landnemar fóru að koma
sér fyrir á löndum indíána í Mohawk-dal og við Vötnin miklu.
Sjálfstæðisstríðið. Fulltrúar 9 nýlendna tóku þátt í
stimpillagaþinginu í New York 1765 til að mótmæla nýjum sköttum, sem
brezka þingið lagði á nýlendubúa. Þegar þingið í New York neitaði að
sjá brezka hernum fyrir húsnæði og birðgum árið 1767, leysti brezka
þingið það upp. Nýtt þing, sem var undirgefnara Bretum, var kosið.
Skömmu eftir 1770 myndaðist gjá milli róttækra, sem voru andsnúnir
brezkum yfirráðum, og viðskiptaaðalsins, sem var konungshollur. New
York sendi sjálfboðaliða til aðstoðar uppreisnarmönnum í Massachusetts
í apríl 1775. Í október sama ár flúði síðasti konunglegi landstjórinn,
William Tryon, um borð í brezkt herskip.
Hinn 9. júlí 1776 samþykkti nýtt þing sjálfstæðisyfirlýsinguna og
konunglega héraðið New York varð eitt fylkja BNA. Bretar hernámu New
York, Long Island og Neðra-Westchester-sýslu í október sama ár.
Borgin var aðalstjórnstöð brezka hersins til loka stríðsins. Bretum
tókst ekki eins vel upp við yfirráðin í öðrum hluta fylkisins.
Uppgjöf John Burgoynes við Saratoga 1777 var mikið áfall fyrir þá og
greiddi leið Frakka til stuðnings við Bandaríkjamenn.
Efri-Hudsondalur var á valdi þeirra allt stríðið og fallbyssum var
beint að umferðinni um ána frá West Point. Benedict Arnold reyndi að
koma upplýsingum um skipulag West Point til John Andrés majors Breta,
sem var handtekinn í Tarrytown árið 1780.
Að stríðinu loknu snéru íbúarnir sér að landbúnaði og eflingu
viðskiptalífsins. Áætlanir um stækkun hafnarsvæðis New York og
nýtingu skipaleiða um Hudsonána leiddu til árekstra við New Jersey,
sem átti í landadeilum við Vermont þar til það varð að fylki árið
1790.
Andstaða við breytingar á stjórnarskrá sambandsstjórnarinnar jókst í
New York en þær voru samt samþykktar í júlí 1788. New York-borg fékk
eigin borgarstjórn og varð að höfuðborg BNA. Þar sór George
Washington embættiseið sinn sem forseti árið 1789. Fyrstu
embættismennirnir, sem Washington skipaði voru þekktir borgarbúar,
Alexander Hamilton og John Jay. Jay var fylkisstjóri New York á
árunum 1795-1801. Aaron Burr frá New York-fylki varð varaforseti
Thomas Jeffersons.
Stríð brauzt út milli Frakka og Breta, sem hafði alvarleg áhrif á
skipaferðir til og frá New York. Íbúar vesturhluta fylkisins mótmæltu
þessu stríði harðlega en komust ekki hjá afleiðingum þess meðfram
landamærunum að Kanada.
Að þessum átökum loknum (1812) varð landstjóranum, De Witt Clinton,
ljóst, að samgönguhlekk vantaði við Efri-Ohio-dalinn og barðist fyrir
gerð skurðar frá ármótum Hudson- og Mohawk-ánna til Erie-vatns.
Þingið leyfði gröft þessa skurðar árið 1817 og gerð hans lauk 1825.
Hann sannaði strax gildi sitt og hraðaði landnámi og þróun
vesturhlutans. Þangað flykktist fólk frá fyrrum Nýja-Englandi og
Evrópu.
Opnun ferðaleiða lengra og lengra vestur á bóginn í Norður-Ameríku,
aukin viðskipti yfir hafið og hröð iðnþróun gerðu New York að
aðalhafnarborg BNA. Á árunum milli opnunar skurðarins og
sjálfstæðisstríðsins óx vefnaðariðnaðnum fiskur um hrygg. New York
varð aðalmarkaður fyrir baðmull og fatnaðar og miðstöð fjármála,
innflutnings, tryggingamála, kauphallarviðskipta. Efnahagsgrózkan
ýtti undir fólksflutninga frá Írlandi, Þýzkalandi og Kanada. Þegar
nær dró borgara/þrælastríðinu, fækkaði innflytjendum samtímis vaxandi
viðskiptatækifærum. Vegna náinna tengsla borgarinnar við
baðmullarmarkaðinn voru íbúar fylkisins almennt mótfallnir stríði við
Suðurríkjamenn. Þeir tóku engu að síður þátt í öllum meginorrustum
stríðsins en herkvaðningin leiddi til óeirða víða um land (júlí 1863;
New York herkvaðningaruppreisnin).
Eftirtaldir forsetar BNA, Martin Van Buren, Chester A. Arthur, Grover
Cleveland, Millard Fillmore, Theodore Roosevelt og Franklin D.
Roosevelt, voru allir íbúar NY. Aðrir sögufrægir íbúar fylkisins voru
m.a. landstjórarnir Alfred E. Smith, Herbert H. Lehman, Thomas E
Dewey, Nelson Rockefeller og Mario Cuomo auk borgarstjórans Fiorello
La Guardia og öldunganna Robert F. Wagner, Jacob Javits og Daniel
Patrick Moynihan.
Allt fram á sjöunda áratug 20. aldar var NY mannflesta fylkið. Næstu
tvo áratugina ríkti efnahagskreppa með vaxandi atvinnuleysi,
fjármálavandræðum, hrörnandi borgarhverfum og fækkandi íbúum. New
York-borg hélt engu að síður velli sem miðstöð kauphallarviðskipta,
fjármála- og almennra viðskipta, þar sem mörg stærstu innlend og
erlend fyrirtæki áttu aðalstöðvar sínar. Útgáfustarfsemin, skemmtana-
og afþreyingargeirinn og listalíf héldu velli. Vöxtur og útþensla
þéttbýlis hefur ekki enn þá komið í veg fyrir mikilvægi landbúnaðar í
fylkinu. Allt fram á síðasta hluta 19. aldar var fylkið í fararbroddi
í ræktun og framleiðslu kornvöru og smjörs. Núna snýst landbúnaðurinn
aðallega um mjólkur- og nautakjötsframleiðslu, ræktun epla, lauks,
rófna, kartaflna, vínberja og vinnslu hlynsíróps, New York er ekki
lengur þéttýlasta fylkið og borgin er ekki lengur aðalhafnarborg BNA.
Engu að síður heldur fylkið velli sem Empire State í hugum
Bandaríkjamanna. |