Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúar fylkisins
17.990.455 og hafði fjölgað um 2,5% næstiliðinn áratug. New
York var meðal fárra fylkja, sem varð fyrir íbúafækkun milli
1970 og 1990. Meðalfjöldi íbúa var 128 á hvern ferkílómetra.
Næstum helmingur þeirra bjó á Stór- New York-svæðinu.
Hvítir 74,4%, negrar 15,9% auk 12,2% af spænskum uppruna (margir
frá Puerto Rico), 284.144 kínverja, 140.985 asísk/indverskra,
95.648 Kóreumenn, 62.259 Filipseyinga, 60.855 indíána,
35.281 Japana og 15.555 Víetnama.
Menntun og menning. Árið 1784 lögleiddi þingið fræðsluráð
til að hafa yfirumsjón með menntun í fylkinu. Árið 1812
voru ríkisreknir barnaskólar lögleiddir og 1867 varð
skólagangan frí. Á sama áratugnum voru þegar komnir
allmargir fríir framhaldsskólar. Í kringum 1990 voru
grunnskólar 3.996 með 2,565.800 nemendur auk 428.600 í
einkaskólum.
Fyrsta æðri menntastofnunin var King’s framhaldsskólinn (nú
Columbia-háskóli) í New York, sem var stofnaður með
konungsbréfi 1754. Árið 1990 voru æðri menntastofnanir
orðnar 326 með 1.018.100 stúdenta. Meðal annarra mætra æðri
menntastofnana eru: New York-háskóli, Juilliard-skólinn,
Rockefeller-háskólinn, Yeshiva-háskólinn, Pratt-stofnunin
(1887), Fordham-háskóli, Wagner framhaldsskólinn (1883), St
John’s-háskólinn og Skóli fyrir félagsfræðilegar rannsóknir
(1919) í New York. Herakademían í West Point, Cornell-háskóli
og Ithaca (1892) í Ithaca, Rensselaer kennaraháskólinn
(1824) í Troy, Skidmore-háskóli (1911) í Saratoga Springs,
Vassar-háskóli í Poughkeepsie, Syracuse-háskóli í Syracuse,
Sarah Lawrence-háskóli í Bronxville og Rochester-háskóli í
Rochester. Fjöldi stúdenta sækir ríkisháskólann og
borgarháskólann í New York, sem eru báðir opinberir.
New York er aðalmenningarmiðstöð BNA. Þekktustu
menningarstofnanirnar eru Metropolitan listasafnið,
Nútímalistasafnið, Whitney listasafnið (amerísk list),
Solomon R. Guggenheim-safnið, Fricksafnið, Pierpont Morgan
bókasafnið, Gyðingasafnið, Þjóðminjasafn indíána (1922;
endurskipulagt 1993 sem George Gustav Heye miðstöðin í
Smithsonian þjóðminjasafn indíána), Ameríska
náttúrugripasafnið, Alþjóðlegi villidýragarðurinn (Bronx-dýragarðurinn),
Grasagarður New York, Brooklyn grasagarðurinn og Brooklyn-safnið.
Einnig má nefna Albright-Knox listasafnið í Buffalo,
Fylkissafnið (1836) í Albany, Alþjóðaljósmyndasafnið í
Rochester, Frægðarhöll hornaboltans í Cooperstown, Corning
glersafnið í Corning og Hudsonársafnið í Yonkers.
New York er mikilvæg miðstöð sviðslista. Meðal þekktra
staða á því sviði eru Lincoln Center for the Performing
Arts, klasi stórra bygginga, sem hýsir m.a. Metropolitan
óperuna, New York borgaróperuna, Fílharmoníusveit New York
og Ballett New York-borgar. Meðal annarra þekktra leikhúsa
í borginni eru Bandaríski ballettinn, Harlem-dansleikhúsið,
Fílharmóníuhljómsveit Brooklyn, Manhattan leikhúsklúbburinn,
Shakespear-hátíðin og Negro Ensemble Company.
Miðborgarhlutinn í Manhattan, í kringum Broadway, er frægur
fyrir fjölda leikhúsa. Buffalo- og Rochester
fílharmoníusveitirnar eru einnig velþekktar.
Fjöldi bóka- og sérbókasafna er mikill. Meðal vinsælla
rannsóknarbókasafna eru Almenningsbókasafnið í New York og
Columbia-háskólabókasafnið í New York og Cornell-háskólabókasöfnin
í Ithaka. Skjöl og pappírar Franklín D. Roosevelts eru hýst
í safni í Hyde Park.
Áhugaverðir staðir. New York fylki og borg státa af fjölda
fagurra og skoðunarverðra staða. Þeirra á meðal eru
Niagara-fossar, Þúsund eyjar St Lawrence-árinnar, gljúfur
Genesee-árinnar, Fingurvatnasvæðið, strendur Long Island og
fögur stöðuvötn Adirondack- og Catskill-fjalla.
Sögustaðir eru næstum óteljandi, s.s. Thomas Paine-húsið (rithöfundur)
í New Rochelle, Alexander Hamilton-húsið (stjórnfræðingur) í
New York, John Jay-húsið (yfirdómari) í Mount Kisco, Hús
Susan B. Anthony (kvenréttindakona) í Rochester, hús
Washington Irving (ritöfundar) í Tarrytown, hús fyrrverandi
forseta Martin Van Buren í Kinderhook, hús fyrrverandi
forseta Theodore Roosevelt í New York og Oyster Bay og hús
forsetahjónanna Franklin D. Roosevelt og konu hans Eleanor í
Hyde Park. Aðrir þekktir sögustaðir eru Fort Stanwix
þjóðarminnismerkið í nágrenni Rome og Saratoga
söguþjóðgarðurinn í nágrenni Stillwater, sem voru báðir
vettvangar sögulega sigra á Bretum í sjálfstæðisstríðinu
1777, Clinton-kastala þjóðarminnismerkið á suðurenda
Manhattan-eyjar, þar sem tekið var á móti u.þ.b. 8 miljónum
innflytjenda á árunum 1855 til 1892, og Frelsisstyttan (þjóðarminnismerki)
á Frelsiseyju í New York-höfn. Í stöpli hennar er Ameríska
innflytjendasafnið.
Íþróttir og afþreying. Fjöll, stöðuvötn, ár, strendur og
almenningsgarðar eru vinsæl útivistarsvæði (gönguferðir,
tjaldferðir, sund, bátsferðir, stangveiði, dýraveiðar og
vetraríþróttir). Meðal vinsælla skeiðvalla eru Aqueduct í
New York, Belmont Park í Elmont og Saratoga skeiðvöllurinn í
Saratoga Springs. Kappakstursbraut er í Watkins Glen. New
York Yankee hornaboltaklúbburinn, sem notar Yankee-völlinn í
Bronx í New York, er meðal þekktustu íþróttafélaga
atvinnumanna í heiminum. Madison Square-garðurinn í New
York er vettvangur margs konar íþróttaviðburða og skemmtana
auk ráðstefna. |