Niagarafossar Bandaríkin Kanada,
Flag of United States

Flag of Canada


NIAGARAFOSSAR
.

.

Utanríkisrnt.

Niagarafossar eru í Niagaraánni á mörkum New York-fylkis í BNA og Suðaustur-Ontaríófylkis í Kanada.  Þeir eru taldir með áhrifamestu sjónarspilum náttúrunnar þar sem þeir steypast í tveimur hlutum fram af brúninni.  Hinn nyrðri er kallaður Kanada- eða Skeifufoss (51m).  Geitey er milli fossanna og tilheyrir New York-fylki.  Brún Skeifufossins er 790 m löng og syðri fossbrúnin, Bandaríkjamegin, er 305 m löng.  Meðalrennsli Skeifufoss er níu sinnum meira en hins syðri.  Smáhluti hins syðri, næst Geitey, er þekktur undir nafninu Brúðarslæðan.

Fossarnir mynduðust fyrir u.þ.b. 12.000 árum, þegar jöklar ísaldar hörfuðu til norðurs og opnuðu fyrir afrennsli frá Erie-vatni yfir Niagarabrúnina, sem nær frá Suður-Ontaríó til Rochester, New York.  Veðrunin, sem kom í kjölfarið, hefur fært fossbrúnirnar 11 km upp eftir ánni og myndað Niagaragljúfrið.  Brún Skeifufoss veðrast um 1½ m á ári en syðri fossbrúnin um 15 sm.  Ástæðan fyrir þessum mismun er aðallega meira vatnsmagn Skeifufoss.  Árið 1954 hrundi stór fylla úr syðri hlutanum og myndaði stóra grjóthrúgu undir fossinum.  Þá var byggð stífla frá bandaríska bakkanum út í Geitey árið 1969 til að beina vatninu í Skeifufoss í nokkra mánuði til að fjarlægja hluta þessarar hrúgu.

Niagarafossarnir laða að gífurlegan fjölda ferðamanna ár hvert.  Útsýni til þeirra er gott frá útsýnisturnum í skemmtigörðum beggja vegna fljótsins, frá bátum, frá Geitey og frá Regnbogabrúnni, sem er aðeins neðan fossanna.  Margir fara líka í bátsferð inn í Helli vindanna á bak við syðri fossinn.

Franski landkönnuðurinn Samuel de Champlain kom líklega að fossunum árið 1613.  Séra Louis Hennepin, flæmskur munkur, sá fossana árið 1678 og skrifaði síðar lýsingu á þeim.

Meðalstreymi vatns Niagarafljótsins er 456 rúmmetrar á sekúndu.  Daniel Chabert Joncaire varð líklega fyrstur til að nýta hluta fallorkunnar fyrir sögunarmylluna, sem hann byggði við fossana ári 1757.  Árið 1853 hófst gröftur skurðar fyrir aðrennslisvatn að fyrirhuguðu orkuveri neðan fossana.  Árið 1875 tengdist fyrsta hveitimyllan þessu vatnsrennsli og árið 1881 var fyrsta rafalnum komið fyrir við ána.  Edward Dean Adams-orkuverið var tekið í notkun Bandaríkjamegin árið 1896.

Árið 1950 sömdu BNA og Kanadamenn um vatnsmagnið, sem mætti leiða frá fossunum til orkuframleiðslu og skömmu síðar voru tvö stór orkuver byggð.  Kanadamenn byggðu Sir Adam Beck-Niagaraverið (182 mW; 1958) við Queenston í Ontaríó.  Bandaríkjamenn byggðu Robert Moses-Niagaraverið (240 mW; 1963) í grennd við Lewiston, New York.  Bæði orkuverin eru u.þ.b. 6 km neðan fossanna.  Raforkan er að mestu nýtt í iðnaði í nærliggjandi borgum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM