Albany New York Bandaríkin,


ALBANY
NEW YORK

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Albany er höfuðborg New York-fylkis og íbúarnir byggja afkomu sína að verulegu leyti á starfsemi hins opinbera en einnig á flutningum, bankastarfsemi, heilsugæzlu og menntastofnunum.  Um borgina liggur talsverð umferð ferðamanna á leið til sumardvalarstaða í Catskill, Adirondack og Berkshire-fjöllum.  Meðal áhugaverðra staða í borginni eru heimili Philip schuyler (1762), sem var hershöfðingi í frelsisstríðinu, og þinghúsið (1867-98).  Borgin er setur Fylkisháskólans (1844).

Mahican-indíánar bjuggu á þessu svæði áður en hvítir menn fóru að setjast að.  Enski sæfarinn Henry Hudson kom þarna við árið 1609 í könnunarleiðangri sínum á ánni, sem fékk síðar nafn hans.  Evrópumenn settust fyrst að á þessum slóðum 1614, þegar Nassau-virkið var byggt og hollenzkur verzlunar staður reis.  Árið 1624 byggði hópur Vallóna Orange-virkið, sem varð að varanlegri byggð, Beverwyck.  Eftir að Bretar unnu Orange-virkið 1664 var nafninu breytt til heiðurs Hertoganum af York og Albany (síðar James II).

Albany er kölluð vagga sambandsríkisins vegna þingsins, sem var haldið þar 1754.  Þar var samþykkt tillage Benjamins Franklins um sambandsríkið, nokkurs konar fyrirrennari stjórnarskrár Bandaríkjanna.  Borgin var valin sem varanleg höfuðborg fylkisins 1797.  Champlain-skipaskurðurinn, sem var opnaður umferð 1822, Erie-skurðurinn 1825 og lagning Mohawk- og Hudson-járnbrautarinnar 1831 hleypti lífi í verzlun og viðskipti í borginnu.  Þarna var á ferðinni fyrsta gufuknúna lestin í sögu Bandaríkjanna.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var rúmlega 101 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM