Heildarflatarmál Montana er 380.850
ferkílómetrar (4. stærsta fylki BNA). Sambandsstjórnin á
29,4% landsins. Fylkið er nokkurn veginn rétthyrnt í laginu
og mestu vegalengdir frá norðri til suðurs eru 515 km og frá
austri til vesturs 885 km. Hæð yfir sjó er á bilinu 549 m
við Kootenai-ána við norðvesturmörk landsins til 3.901 m á
Graníttindi í suðurhlutanum í grennd við Yellowstone
þjóðgarðinn. Meðalhæð yfir sjó er u.þ.b. 1.036 m.
Landfræðilega má skipta landinu í tvo hluta: Klettafjöllin
(vesturþriðjungur fylkisins) og Slétturnar miklu í
austurhlutanum. Vatn og jöklar hafa mótað fjalllendið.
Sunnantil eru línur þess mjúkar en við kanadísku landamærin
er hrjúft Alpalandslag. Bitterrootfjöll við vesturmörkin
eru meðal hrikalegustu og óaðgengilegustu hluta BNA. Skammt
austan þessa fjallgarð er röð langra og tiltölulega breiðra
dala með norður-suður stefnu. Flathead-dalur er stærstur og
mikilvægastur. Víðast í Klettafjöllum er jarðvegur þunnur
og ófrjósamur. Slétturnar miklu liggja fremur hátt yfir sjó,
annaðhvort hæðóttar eða flatar, og sums staðar tróna fjöll
eins og Highwood og Little Belt í vesturhlutanum og
þurrkasvæði í suðausturhlutanum. Norðurþriðjungur þessa
svæðis var þakinn ísaldarjökli, sem skildi eftir sig urðir.
Helztu vatnsföll Montana eru báðum megin vatnaskila í
Klettafjöllum. Vestan þeirra eru Kootenai, Clark Fork og
Flathead. Austan þeirra er Missouriáin með fjölda þveráa (Marias,
Milk og Yellowstone), sem rennur til Mississippi. Stærsta
náttúrulega stöðuvatn fylkisins er Flathead í fjalllendinu
norðan Missoula. Fort Peck-lónið við Missouriána er stærra
en manngert.
Loftslagið. Klettafjöllin eru skörp skil milli temprað
úthafsloftslags Kyrrahafsins í mjórri ræmu fylkisins
vestanverðs og kalds meginlandsloftslags austurhlutans.
Meðalárshiti í fylkinu er 5,6°C. Árstíðasveiflur er mun
meiri í austan Klettafjalla. Flest stöðuvötn, lón og
vatnsföll eru ísilögð á veturna og stundum valda árnar skaða,
þegar þær ryðja sig á vorin. Lægsta skráð hitastig er
-56,7°C (1954) og hið hæsta 47,2°C (1937).
Flóra og fána. Skógar þekja u.þ.b. 23% landsins (gulfura,
doglasfura, greni, lerki og hvítfura). Dýralíf er
fjölbreytt (fjallageitur, antilópur, stórhyrnt sauðfé, elgir
(wapiti), sléttuúlfar, elgir (moose), múldýr, dádýr,
grábirnir og svartbirnir, fjallaljón, refir, lynghænur,
fasanar. Lax og urriði eru í fjallalækjum og ám.
Auðlindir, framleiðsla og iðnaður. Fylkið á miklar birgðir
af olíu, náttúrugasi, kopar og kolum í jörðu. Önnur
jarðefni, sem minna er af, eru gull, silfur, eðalsteinar,
maríugler, leir, vermikúlít, kalksteinn, antimony, fosföt,
gips, sandur og möl.
Landbúnaður stendur undir u.þ.b. 7% vergrar
þjóðarframleiðslu. Hann byggist aðallega á ræktun kvikfjár
(nautgripir; mjólkurvörur; svín og sauðfé), hveitis, byggs,
sykurrófna og heys.
Timburiðnaður er mikilvægur í norðurhlutanum, þar sem flest
skóglendi eru eign sambandsstjórnarinnar. Helztu
nytjatrjátegundir eru doglasfura, greni og sedrusviður.
Iðnframleiðslan nemur 8% vergrar þjóðarframleiðslu og
byggist aðallega á nýtingu hráefna skóganna, námanna og
landbúnaðarins. Helztu framleiðsluvörur eru timbur og
trjávörur, matvæli, prentað efni, olía, kol og efnavara. |