Kansas City er meðal mikilvægustu markaðs- og
dreifingarmiðstöðva BNA, nokkurn veginn í miðju hinna samliggjandi
fylkja á meginlandinu. Þar
er geysigóð aðstaða til flutninga og geymslu korns og annarra afurða. Iðnaðurinn byggist helzt á framleiðslu matvæla, málma,
farartækja, flutningatækja, vélbúnaðar til iðnaðar, málmvöru,
efnavöru, glervöru og prentun kveðjukorta.
Meðal æðri menntastofnana borgarinnar eru Missouri-háskóli
(1929),
Avila-háskóli (1916), Rockhurst-háskóli (1910), Calvary-biblíuháskólinn
(1932) og Listaháskóli borgarinnar (1885).
Markverð söfn eru m.a. Nelson-Atkins-listasafnið (austurlenzk
list; svartlist frá Mið-Ameríku).
Aðstaða til íþrótta og afþreyingar er góð, s.s. H.R.
Bartle sýningarhöllin og Dýragarðurinn og Starlight-leikhúsið.
Royal-leikvangurinn er heimavöllur Kansas City Royals
hafnarboltaliðsins og Arrowhead-leikvangurinn, heimavöllur Kansas City
Chiefs ruðningsboltaliðsins. Þessir
leikvangar eru hlið við hlið og mynda saman Harry S. Truman íþróttamiðstöðina.
Árlega er haldin hátíð, sem heitir American Royal Livestock
með hestasýningu og ótemjureiðum.
Árið 1821 höfðu fyrstu
hvítu landnemarnir komið sér fyrir á þessu svæði. Þar var á ferð hópur skinnakaupmanna undir forystu
franska landkönnuðarina Francois Chouteau.
Þessi byggð, sem gekk undir nafninu Westport Landing, óx sem
hafnarbær við ána og krossgötur á Santa Fe- og Oregon-leiðunum.
Árið 1850 fékk hún kaupstaðarréttindi sem Kansasbær og var
síðar (1889) skírð Kansas City.
Byggðin blómstraði sem birgðastöð fyrir gullgrafara og
landnema á vesturleið. Fyrsta
járnbrautin, sem tengdi Kansasbæ og St Louis, var komin á laggirnar
árið 1865. Eftir aldamótin
þróaðist margs konar atvinnustarfsemi í borginni og laðaði að sér
marga innflytjendur. Milli
1910 og 1960 fjölgaði íbúunum úr 248.381 í 475.539.
Árið 1951 kom afturkippur í vöxt borgarinnar, þegar Kansasáin
flæddi yfir bakka sína og hluti verksmiðjanna og réttanna fyrir
kvikfé í borginni eyðilagðist.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var rúmlega 435 þúsund. |