Mississippifljótið Bandaríkin,
Flag of United States


MISSISSIPPIFLJÓTIÐ
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Mississippifljótið (úr máli Algoquia: Misi sipi = Stórá) er í miðjum BNA og ein lengsta á Norður-Ameríku.  Vatnakerfi fljótsins er að mestu innan BNA.  Missour-áin. ein upptakakvíslanna og aðalþverá fljótsins, teygist inn í Kanada.  Missouri- og Mackenzie-árnar eru lengri en Mississippi-fljótið en vatnsmagn þess er meira en í nokkurri annarri á meginlandi Norður-Ameríku.  Vatnasvið þess nær yfir mestan hluta landsins milli Klettafjalla og Allegheny-fjalla, u.þ.b. 3.256.000 km² og skipgeng vegalengd er samtals 25.900 km.   Mississippifljótið kemur upp á svæðinu við Itasca-vatn í norðvesturhluta Minnesota í 512 m hæð yfir sjó.  Útfall Itasca-vatnsins er 3,7 m breitt og hálfur metri á dýpt.  Það rennur til norðausturs og sveigir síðan til suðurs við Grand Rapids.  Við Minneapolis, þar sem það fellur um 20 m háa Foss hl. Antons, er áin rúmlega 305 m breið og lengra er áin ekki skipgeng.  Eftir að Minnesota- og St Croix-árnar hafa sameinast henni verður áin að landamærum milli fylkjanna Minnesota, Iowa, Missouri, Arkansas og Liuisiana að vestanverðu og Visconsin, Illinois, Kentucy, Tennessee og Mississippi að austanverðu.  Við landamærin að Wisconsin breikkar áin í Pepin-vatn og síðanrennur hún 1,6 km breið milli 61 og 91 m hárra kletta.  Áin var gerð skipgeng fram hjá Klettaeyju (Rock Island) í Illinois, Keokuk í Iowa og norðan St Louis í Missouri með stíflum og slaufum.

Frá mynni Ohio-árinnar er Mississippifljótið 1370 m breitt, en þegar það nálgast Rauðá, þrengist það í 910 m og við New Orleans í Louisiana er það 760 m breitt.  Dýpt árinnar sunnan Ohio-ár er milli 15 og 30 m.  Kerfi geyma meðfram fljótinu og kerfi stíflna til rennslisjöfnunar meðfram ánni og þveránum heldur rennslinu yfirleitt nokkuð jöfnu.

Allt frá Missouri-ánni að Mexíkóflóa, bugðast Mississippifljótið og kvíslast um stórt svæði, sem er 64-113 km breitt.  Þetta landsvæði hefur ekki verið brotið til landbúnaðar vegna flóðahættu, þrátt fyrir að það sé mjög frjósamt.  Leysingar á efri svæðum vatnakerfisins magna vatnsrennslið á neðri svæðunum frá marz til júní.  Varnargarðar meðfram þveránum og fljótinu sjálfu eru nú tæplega 2600 km langir.  Alríkisstjórnin hefur kostað byggingu fjölda þeirra eftir flóðið árið 1927, sem var hið mesta fram að þeim tíma.  Þá hækkaði um 17,2 m í ánni við Cairo í Illinois.  Skaðræðisflóð ofan Cape Girardeau í Missouri allt norður í Visconsin eiga sér stað á hverjum áratug (1937, 1965, 1973, 1983 og 1993).  Þau flæða yfir bæi og borgir, eyðileggja þúsundir ferkílómetra ræktaðs lands og stöðva siglingar.  Árið 1993 ollu flóðin 8000-9000 miljarða tjóni.

Neðan Rauðár rennur Mississippifljótið í ótal kvíslum út í Mexíkóflóa.  Aðalkvíslin rennur til suðausturs og skiptist  í nokkrar kvíslar í óshólmunum.  Meðalrennsli fljótsins út í flóann er nálægt 19.000 m³/sek.  Ársetið er áætlað 300 miljónir rúmmetra á ári.  Til að koma í veg fyrir of mikla setmyndun var hafin bygging varnargarða 1875, sem hefur sannað gildi sitt.  Flóðs og fjöru gætir ekki í ósum fljótsins.


Helztu borgirnar við Mississippifljótið eru Minneapolis, St Paul, La Crosse, Dubuque, Davenport, Keokuk, Quincy, Hannibal, St Louis, Memphis, Vicksburg, Baton Rouge og New Orleans.  Stórar brýr liggja yfir fljótið við nokkrar þessara borga.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM