Minnesota land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
MINNESOTA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál Minnesota er 225.182 ferkílómetrar (12. í stærðarröð fylkja BNA).  Sambandsstjórnin á 4,7% landsins.  Fylkið er nokkurn veginn ferhyrnt og vegalengdir frá norðri til suðurs eru mestar 660 km og frá austri til vesturs 560 km.  Hæsti punktur er 701 m yfir sjávarmáli á Arnarfelli í norðausturhorninu.  Lægsti punktur er 183 m á bökkum Superiors-vatns.  Meðahæðin yfir sjó er nálægt 366 m.  Strandlengjan við Superior-vatn er u.þ.b. 300 km löng.

Fylkinu er skipt í fjögur landfræðileg svæði:  Superior upplandið, sem er framhald Kanadaflekans, láglendið vestan Vatnanna miklu, jökulgarðaslétturnar og íslausa svæðið (Driftless Region).

Minnesotasvæðið er jökulnúið land, enda var allt landið nema smáblettur suðaustast hulið jökli á ísöld.  Berggrunnur upplandsins við Superior-vatnið er harðgrýti, sem veðraðist minna við hreyfingu jöklanna, þannig að þar er landslag hrjúfast í fylkinu.  Vítt og breitt eru jökulgrafnar lægðir, sem fylltust síðan af vatni, þegar ísaldarjökullinn hörfaði.

Láglendið vestan Vötnin miklu er víðast flatlent og nær yfir mestan hluta fylkisins utan upplandsins. Norðurhluti þess er þakinn fjölda stöðuvatna og mýra.  Meðfram vesturmörkum fylkisins eru breiðar og flatar sléttur, sem voru áður botn stórs jökullóns (Agassiz) og eru mjög frjósamar.  Sunnantil eru slétturnar betur ræstar og nýttar í hörgul til landbúnaðar.

Meðfram suðurlandamærunum eru tveir hlutar jökulgarðasléttnanna.  Í suðvesturhlutanum nær fornt kvartzberg upp úr jökulsetinu.  Í suðausturhorninu er íslausa svæðið.  Þverár Mississippi hafa veðrað yfirborð þess og gert það hrjúft og fagurt með snarbröttum hlíðum og djúpum dölum.

Helztu vatnsföllin eru Mississippi, Minnesota, Crow Wing, St Croix, Rauðá, Rainy, St Louis og Rock.  Fjöldi stöðuvatna er rúmlega 20.000 og þau þekja rúmlega 8% landsins.  Stærsta vatnið, sem er allt innan fylkismarkanna, er Rauðavatn (Efra- og Neðra).  Önnur stór vötn eru Skógavatn og Rigningarvatn, sem eru bæði á kanadísku landamærunum, og Winnibigoshish, mille Lacs, Leech og Vermilion.  Hluti Superiorvatns innan marka fylkisins er 5.700 ferkílómetrar.

Loftslagið.  Í Minnesota ríkir rakt meginlandsloftslag með miklum dægur- og árstíðabundnum hitasveiflum.  Sumrin eru hlý í suðurhlutanum og svöl í norðurhlutanum.  Vetur eru kaldir um allt land.  Meðalhiti júlímánaðar er 22,2°C.  Lægstu og hæstu skráðar hitamælingar eru -50,6°C (1903) og 45,6°C (1936).  Fellibyljir geisa stundum á vorin og sumrin.

Flóra og fána.  Skóglendi þekur u.þ.b. þriðjung fylkisins (greni, fura, ösp, birki, óðjurt, eik og hikkorí).  Stór skógasvæði norðurhlutans hafa verið rudd og þar spretta upp nýjar kynslóðir trjáa, runnagróður og lággróður (bláber og svartber).

Dádýr finnast víðast um fylkið en svartbirnir, elgir og úlfar aðeins í norðurskógunum.  Refir, moskrottur, bifrar, gaupur, minkur og þvottabirnir eru víða.  Meðal algengra fiska í vötnum og ám eru urriði, gedda og bassi.  Vaðfuglategundir eru margar.

Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Óvíða annars staðar í BNA eru meiri birgðir járngrýtis í jörðu.  Önnur mikilvæg jarðefni eru sandur, möl, gull, leir, hráefni í sement og granít og kvartz í suðvesturhlutanum.  Landbúnaðarafurðir standa undir 4% vergrar þjóðarframleiðslu.  Mest ber á framleiðslu mjólkur, nautakjöts og svínakjöts.  Mikið er ræktað af höfrum, vorhveiti, heyi og sólblómum.  Maís, sojabaunir, sykurrófur og bygg eru líka mikilvægar ræktunartegundir.

Skógrækt hefur lengi verið stunduð í fylkinu til að fylla í skörðin, sem nýtingin veldur, þannig að tekizt hefur að halda í horfinu.  Helztu nytjatrén eru fura, greni, lerki (tamarack), birki, álmur, hlynur, linditré, askur og eik.  Harðviður er meira nýttur en mjúkviður.  Fiskveiðar eru lítilvægar fyrir efnahaginn (síld, urriði, gedda, hvítfiskur, karfi o.fl.).

Iðnaðurinn byggist aðallega á framleiðslu véla til iðnaðar og málmvöru.  Matvælaframleiðslan byggist aðallega á mjólkurafurðum, niðursuðu, hveitimyllum og sykurvinnslu.  Einnig er talsvert um prentun og útgáfustarfsemi og framleiðslu elektrónískra tækja, nákvæmnistækja, pappírs, borðviðar og timburvöru, gúmmí- og plastvöru.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM