Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúar fylkisins
4.375.099 og hafði fjölgað um 7,3% næstliðinn áratug.
Meðalfjöldi íbúa á hverjum ferkílómetra var 19. Hvítir
94,4%, negrar 2,2% auk 53.900 af spænskum uppruna, 49.392
indíána, 11.576 Kóreumanna, 9.387 Víetnama, 8.980 kínverja
og 8.234 asísk/indverskra. Siouxindíánar voru fjölmennastir
í frumbyggjahópnum. Margir íbúanna eru af evrópsku bergi
brotnir, s.s. frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og öðrum löndum
Norður-Evrópu. Í dreifbýlinu hafa margir þessara hópa búið
í sérsamfélögum.
Menntun og menning. Fyrsti skólinn í Minnesota var
stofnaður í kringum 1820. Ríkisskólakerfið var lögleitt
árið 1849 og smám saman voru héraðsskólar byggðir.
Skólaskylda var lögleidd árið 1885.
Árið 1990 voru 1564 grunnskólar í fylkinu með 749.500
nemendur og 72.600 í einkaskólum. Þá voru æðri
menntastofnanir 81 með 253.100 stúdenta. Stærst þeirra er
Minnisotaháskóli (1851) með útstöðvar í Minneapolis og St
Paul, Crookston, Duluth og Morris. Mayo Graduate School of
Medicine (1971) í Rochester starfar með Minnesotaháskóla.
Aðrir áberandi háskólar eru Ríkisháskólakerfi Minnesota í
Memidji, Mankato, Marshall, Minneapolis, Moorhead, St Cloud,
St Paul og Winona.
Minneapolis og St Paul, Tvíburaborgirnar, eru
menningarmiðstöðvar fylkisins. Meðal safna í þeim eru
Listastofnun Minneapolis og Walker listamiðstöðin, Miðstöð
sögufélags Minnesota og Vísindasafna Minnesota í St Paul.
Stóri Minnesota dýragarðurinn er í Epladal (Apple Valley) og
Rúnasteinasafnið í Alexandria sýnir gripi, sem eiga að sanna,
að víkingar hafi lagt leið sína til Minnesota.
Bókasafn Minnestoaháskóla hýsir a.m.k. 4 miljónir titla.
Það er eitt stærstu háskólabókasafna BNA.
Áhugaverðir staðir. Skógar og stöðuvötn í norðurhluta
fylkisins eru ofarlega á lista útivistarfólks. Voyageurs
þjóðgarðurinn er hinn stærsti í Minnesota. Itasca
ríkisgarðurinn geymir uppsprettu Mississippi-fljótsins.
Víða eru minnismerki um indíánana, sem bjuggu á þessu svæði
fyrir landnám hvíta mannsins. Þeirra á meðal eru Pipestone
þjóðarminnismerkið með grjótnámum, þar sem innfæddir náðu
sér í steintegundina, sem þeir notuðu til að tálga úr
friðarpípur. Grand Portage þjóðarminnismerkið við Superior-vatn
er gamall skinnaverzlunarstaður. Fort Snelling, endurbyggt
virki frá 1820, er í grennd við Tvíburaborgirnar.
Íþróttir og afþreying. Stöðuvötnin og árnar gefa óteljandi
tækifæri til vatnaíþrótta. Fagurt skóglendið er vinsælt til
göngu- og tjaldferða og veiðimenn koma ekki heim þaðan með
öngulinn í rassinum. Dýraveiðar eru vinsælar. Á veturna er
stundað ísdorg, skauta- og skíðaíþróttir og snjósleðakeppnir
eru haldnar. |