Michigan er stjórnað í anda
stjórnarskrárinnar frá 1964 með síðari breytingum. Fyrsta
stjórnarskrá fylkisins var lögleidd 1835, önnur 1850 og hin
þriðja 1908. Æðsti embættismaðurinn er fylkisstjóri, sem er
kosinn í almennum kosningum til 4 ára í senn og má bjóða sig
fram án takmarkana. Aðrir kjörnir embættismenn er
vararíkisstjórinn, innanríkisráðherrann og ríkissaksóknari.
Þingið starfar í öldungadeild (38) og fulltrúadeild (110).
Þingmenn öldungadeildar eru kosnir til 4 ára en til 2 ára í
fulltrúadeild. Fylkið á tvö sæti í öldungadeild
sambandsþingsins í Washington DC og það ræður 18 kjörmönnum
í forsetakosningum.
Lýðveldissinnar réðu lögum og lofum í fylkinu fram á fjórða
áratug 20. aldar en eftir það hefur verið mjög jafnt með
flokkunum. Lýðveldissinnar eru styrkari í dreifbýlinu og
demókratar eru styrkastir í Detroit og öðrum borgum. Gerald
R. Ford, lýðveldissinni, var þingmaður í fulltrúadeild
sambandsþingsins (1949-73) áður en hann varð varaforseti BNA
við hlið Richard M. Nixon (1973-74) og tók við
forsetaembættinu, þegar Nixon sagði af sér vegna
hneykslismáls. |