Detroit Michigan Bandaríkin,


DETROIT
MICHIGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Detroit í Michigan-fylki er sjöunda stærsta borg BNA og kjarni stórborgarsvæðis.  Íbúafjöldi úthverfanna er hér um bil 4 sinnum meiri en í borginni sjálfri.  Á þessu svæði er heimsins mesta framleiðsla bifreiða, þannig að borgin hefur verið kölluð Mótorborg, og auk þess er Detroit meðal mestur iðnaðarborga BNA á öðrum sviðum.  Efnahagslegan vöxt borgarinnar má þakka mörgum þáttum, s.s. legunni við Detroit-ána, sem býður greiða leið um Vötnin miklu og greiðu samgönguneti, sem tengir borgina við aðra landshluta.

Ýmiss konar sérhæfður iðnaður er tengdur bílaframleiðslunni, þannig að á uppgangstímum í þjóðfélaginu nýtur borgin góðs efnahags en er viðkvæm fyrir samdrætti og bágum kjörum landsmanna.  Auk bifreiða og hluta til framleiðslunnar skila verksmiðjur borgarinnar stáli, málmvöru, vélbúnaði, efnavöru, skrifstofutækjum og lyfjum á markaðinn.  Á stórborgarsvæðinu eru höfuðstöðvar margra risafyrirtækja eins og Ford Motor Company og Chrysler Corporation.  Þessum stórfyrirtækjum fylgja sérhæfð þjónustufyrirtæki, sem annast m.a. rannsóknir, hönnun, auglýsingar, almannatengsl, endurskoðun og fjármálastarfsemi.

Kjarni stórborgarsvæðisins er niðri við Detroit-ána, þar sem fyrstu hvítu landnemarnir stigu á land árið 1701.  Þaðan liggur fjöldi gatna og stræta í allar áttir, sumar fylgja jafnvel gömlu leiðunum, sem Indíánarnir á svæðinu höfðu troðið um aldir.  Niðri við ána eru m.a. stór verzlanaklasi, Borgarskrifstofurnar, Henry og Edsel Ford-tónlistarhöllin, Cobo-höllin (einhver stærsta sýningahöll BNA), Joe Louis-íþróttaleikvangurinn, heimavöllur Red Wings (Þrastanna; íshokkí) og Hart Plaza.  Vestan þessa svæðis  er Tiger-leikvangurinn, heimavöllur Tígranna, meistaraliðs í hafnarbolta og til norðurs er eitt stærsta sjúkrahús BNA með lækna-, skurð- og rannsóknarstofum og heilsugæzlu auk þess að vera háskólasjúkrahús.  General Motors og Fisher-byggingarnar eru líka norðan miðborgarinnar (arkitekt Albert Kahn; þ.).  Enn einn skoðunarverður staður er Pewabic-leirmunagerðin (1907) austan borgarmiðjunnar, sem var byggð fyrir Mary Chase Perry Stratton.  Glansflísar hennar skipuðu veigamikinn sess í byggingum á þriðja áratugi 20. aldar.  Vestan miðborgarinnar er Hersafnið Fort Wayne (beztvarðveitta virkið, sem byggt var fyrir frelsisstríðið í Miðvesturríkjunum).   Það hýsir Indíánasafn Vatnanna miklu og Tuskegee-flugmannasafnið, til minningar um fyrstu flugdeildina, sem var skipuð þeldökkum.

Helzta, æðri menntastofnun Detroit er Wayne ríkisháskólinn (1868).  Við hliðhans er Menningarmiðstöð borgarinnar.  Þar er aðalbókasafnið, Sögusafnið, Horace H. Rackham menningarminnisvarðinn, Miðstöð skapandi náms og Listastofnunin, sem hýsir m.a. stórt veggverk, sem lýsir iðnaðinum íborginni (myndin er í 27 hlutum eftir Mexíkóann Diego Rivera).

Antoine de La Mothe frá Cadillac lét reisa virki og verzlunarstað við Detroit-ána árið 1701 til að veita framrás Breta við Vötnin miklu viðnám.  Nafnið Detroit er úr frönsku (détroit = við sundið).  Bretar náðu virkinu undir sig árið 1760 í Franska-indíánastríðinu.  Höfðingi Ottawa-indíánanna, Pontiac, sameinaði ættkvíslar indíána við Vötnin miklu og í Ohio-dalnum til að hrekja Breta brott og endurvekja sjálfstæði þeirra árið 1763.  Tilraun þeirra til að leggja virkið undir sig mistókst eftir fimm mánaða umsátur.  Árið 1805 var Detroit gerð að höfuðstað Michigan-héraði og skömmu síðar eyðilagðist borgin í eldsvoða.  Árið 1810, eftir 109 ára tilveru, var Detroit lítið annað en verzlunarstaður og virki með u.þ.b. 1650 íbúum.  Fyrsta blómaskeiðið kom í kjölfar landvinninga frá indíánum og tilkomu gufuskipanna á Vötnunum miklu 1818.  Opnun Erie-skurðarins árið 1825 jók enn á efnahagsframfarirnar vegna 90% skemmri siglingartíma milli Detroit og New York.  Borgin varð síðan hliðið að landnámi norðurhluta Miðvesturríkjanna og miðstöð skipasmíða og skyldra atvinnugreina.  Michigan varð fylki í BNA árið 1837 og Detroit höfuðstaður þess næstu 10 árin.

Þegar járnbrautirnar voru lagðar eftir 1840, einkum eftir að Chicago tengdist þeim árið 1852, varð Detroit aðalmiðstöð iðnaðar og flutninga (timburs, korns o.fl.) frá innhéruðunum.  Þessi þróun ýtti undir frekari iðnvæðingu og í lok 19. aldar var Detroit orðin að iðnaðarborg með 226.000 íbúa.  Framleiðslan var fjölbreytt, járn, stál, ofnar, hjól og öxlar, leður, efnavörur, mótorar og skip.  Iðnfyrirtækin og uppsöfnun fjármagns og vinnuafls voru grundvöllur framsóknar í nýjum iðnaði, bílaframleiðslunni, sem átti eftir að tryggja hag borgarinnar á 20. öldinni. 

Fyrstu bílaverksmiðjurnar voru stofnaðar 1899 og 1903 (Ransom Eli Olds og Henry Ford).  Fjöldaframleiðslan, sem gerði miðstéttarfólki fjárhagslega kleift að kaupa bíla, hófst á öðrum og þriðja áratugnum.  Íbúum borgarinnar fjölgaði hratt eftir 1840.  Bílaiðnaðurinn varð fyrir miklu áfalli í heimskreppunni á fjórða áratugi 20. aldar.  Árin 1936 og 1937 skipulögðu verkamenn í bílaiðnaðnum verkföll, sem leiddu til viðurkenningar aðalframleiðendanna á tilverurétti Sameiðaða verkalýðsfélagi starfsmanna í bílaiðnaði í BNA.  Þessar aðgerðir verkalýðsins, sem voru með hinum mikilvægustu á öldinni, höfðu áhrif á afkomu þúsunda verkamanna í Detroit og öðrum borgum.  Í síðari heimsstyrjöldinni voru bílaverksmiðjurnar nýttar til framleiðslu hergagna, s.s. skriðdreka, flugvéla og kafbáta.  Þá fékk borgin nafnið Vopnabúr lýðræðisins.

Í stríðinu og fyrstu árunum eftir það styrktist efnahagur borgarinnar og innflytjendum fjölgaði gífurlega (1.850.000 árið 1957).  Næstu árin þar á eftir ríkti mikil félagsleg spenna í Detroit og öðrum borgum.  Sumar urðu gjaldþrota og fátækrahverfi spruttu upp í útjöðrum þeirra, þar sem íbúunum fjölgaði stöðugt.  Sumarið 1967 urðu kynþáttaóeirðir í Detroit en svolítið dró úr spennunni á áttunda áratugnum og árið 1973 var Coleman Young kosinn fyrsti svarti borgarstjórinn.  Hann starfaði sem slíkur í fimm kjörtímabil til 1994.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var rúmlega 1 miljón.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM