Massachusetts sagan Bandaríkin,


SAGAN
MASSACHUSETTS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Áður en Englendingar hófu landnám byggðu sex hópar innfæddra Massachusetts-svæðið (massachuset-fólkið, wampanoag sunnan Boston, nauset við Þorshöfða, pennacook og nipmuc í norðurhlutanum og pocumtuc í Connecticut-dalnum).

Giovanni da Verrazano, þjónn Frakka, kannaði strandline Massachusetts árið 1524 án þess að til landnáms kæmi.  Snemma á 17. öldinni voru tveir enskir alvörulandkönnuðir á ferðinni.  Bartholomew Gosnold lenti við Provincetown á Þorskhöfða 1602 og John Smith, skipstjóri, sigldi með ströndinni 1614.  Smith gaf Nýja-Englandi nafnið og skrifaði síðar ferðaskýrslu, sem gerði frekari landkönnun auðveldari.

Nýlendutíminn hófst, þegar pílagrímarnir (trúarhópur, sem sleit böndin við Ensku biskupakirkjuna) stigu á land við Plymouth 21. desember 1620.  Þeir reistu fyrstu varanlegu, evrópsku byggðina í Massachusetts.  Það var einnig sögulegur atburður, að þeir höfðu samið lagabálk, sem var kenndur við skip þeirra, Mayflower, áður en þeir stofnuðu nýlenduna Plymouth.

Áður en áratugur var liðinn fóru landnemar að streyma til Massachusetts.  Nýjar byggðir spruttu upp í kringum Plymouth.  Skömmu fyrir 1630 hófst landnám á Bostonsvæðinu.  Þar voru púrítanar á ferðinni.  Árið 1630 flutti stór skipafloti þúsundir púrítana undir stjórn John Winthorp og þar með hófust þjóðflutningarnir miklu.  Þessir landnemar stofnuðu borgirnar Boston, Charlestwon, Dorchester, Lynn, Medford, Roxbury og Watertown, sem urðu aðalmiðstöðvar Massachusetts Bay nýlendunnar.

Þegar strandbyggðirnar uxu, fór að saxast á langlundargeð indíánanna, sem höfðu verið vinveittir hvítu landnemunum.  Árið 1637 sameinuðust landnemar í Massachusetts og Connecticut í stríði gegn Pequot-indíánum og drápu þá næstum alla.  Í stríði Filips konungs (1675-76) gjörsigruðu Englendingar wampanoag-indíánana og bandamenn þeirra, narragansett frá Rhode Island.

Karl II konungur endurnýjaði stofnskrá Massachusetts 1684 en átta árum síðar var svæðið sameinað Plymouth-nýlendunni með nýrri stofnskrá, sem Vilhjálmur konungur og María drottning gáfu út.  Nýlendubúarnir tóku virkan þátt í stríðinu gegn Frökkum og indíánum og áttu afgerandi þátt í sigrinum við Louisbourg 1745.

Byltingar- og þjóðernistíminn.  Íbúar Massachusetts tóku forystu í viðnámi gegn skattlagningu Breta á árunum fyrir sjálfstæðisstríðið.  Fjöldamorðin í Boston 5. marz 1770, þegar brezkar hersveitir drápu fimm nýlendubúa, sem voru að ögra þeim, voru sem olía á eld.  Þremur arum síðar dulbjuggust nokkrir borgarbúar sem indíánar og fóru undir stjórn Samuels Adams um borð í brezkt skip og fleygðu tefarmi þess fyrir borð í Bostonhöfn.  Þessi aðgerð kynti enn frekar undir uppreisninni.

Sjálfstæðisstríð BNA brauzt út í Lexington Green í apríl 1775, þegar hópur landvarnarliða frá Massachusetts varnaði brezkum hermönnum leit að skotfærum.  Næsta orrusta var háð við North Bridge í Concord, þar sem skotinu, sem heyrðist um allan heiminn, var hleypt af.  Lexington og Concord urðu táknmyndir andspyrnunnar fyrir alla Ameríkana, þegar stríðið hófst af fullum krafti.

Einhver dramatískasti atburður stríðsins var orrustan við Bunker Hill (júní 1775) í Boston, þar sem nýlenduher undir stjórn George Washington sigraði Breta.  Eftir að Bretar hurfu frá Boston í marz 1776 voru engar orrustur háðar í Massachusetts.

Snemma á þjóðernistímanum varð geysiöflug efnahagsbylting í Massachusetts.  Lausir undan oki Breta sigldu skip landsins vítt og breitt um heiminn, opnuðu nýjar verzlunarleiðir og fluttu farma landa á milli.  Útgerðarmenn mótmæltu stríðinu árið 1812 vegna þess, hve slæm áhrif það hafði á viðskipti.  Sambandsflokkurinn var talpípa þeirra og í þessum hópi var jafnvel talað um aðskilnað frá Bandaríkjunum.  Massachusettsbúar hefðu ekki ljáð stríðinu lið nema Bretar hefði ráðist á fylkið að fyrra bragði.

19. öldin.  Eftir stríðið héldu utanríkisviðskiptin áfram.  Massachusetts iðnvæddist af kappi og framleiddi vefnaðarvöru og skó.  Fylkið var öðruvísi en önnur fylki BNA vegna þess, hve margt afburðafólk á ýmsum sviðum kom fram á sviðið og vann sér orðstír meðal BNA fyrir listir, bókmenntir og félagslegar umbætur.  Í þessum hópi voru rithöfundarnir Ralph Waldo Emerson, John Greenleaf Whittier, Henry David Thoreau, Henry Wadsworth Lonfellow, Nathaniel Hawthorne, Emily Dickinson og Herman Melville.  Andstæðingar þrælahalds, William Lloyd Garrison og Wendell Phillips.  Arkitektinn Henry Hobson Richardson.  Lögmaðurinn Oliver Wendell Holmes.  Sagnfræðingarnir Francis Parkman, Henry Adams og William Hickling Prescott.  Myndhöggvarinn Horation Greenough.  Málarinn John Singer Sargent.  Umbótamennirnir Horace Mann, Dorothea Dix og Lucy Stone.  Þetta var ótrúlega stór hópur hæfileikafólks í tiltölulega litlu fylki.  Leiða má líkur að því, að menntakerfi fylkisins hafi haft afgerandi áhrif, því það var og er eitthvert hið bezta í BNA.

20. öldin.  Massachusetts nútímans er fjölþætt sambandsfylki, sem tekur sífelldum breytingum.  Efnahagslífið verður æ fjölbreyttara.  Hnignun hins velmegandi vefnaðar- og leðuriðnaðar eftir heimskreppuna fram yfir síðari heimsstyrjöldina dró máttinn úr þjóðfélaginu um hríð.  Síðan hófst hátækniskeiðið innreið sína og olli straumhvörfum í efnahagsmálunum.  Stór-Boston svæðið er miðstöð vísinda- og tæknifyrirtækja, sem starfa á sviði kjarneðlisfræði, tölvumála og fleiri hátæknisviðum.  Mörg hinna gömlu og grónu fyrirtækja hafa sameinast alþjóðlegum stórfyrirtækjum en sum standa enn þá keik og sífellt bætast fleiri við.

Hagvextinum fylgja svipaðir ókostir og í öðrum hátæknisamfélögum.  Þeir eru helzt efnahags- og félagslegir.  Mengun hefur aukizt, orkuþörf er sívaxandi, samgöngutæki anna tæpast þörfum íbúanna, eitraður úrgangur safnast upp og skóla- og húsnæðisskortur er vaxandi.  Haldi þróunin áfram á svipaðri braut, verður erfitt að leysa þessi vandamál.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM