Heildarflatarmál Massachusetts er 27.337
ferkílómetrar (44. í stærðarröð fylkja BNA).
Sambandsstjórnin í Washington á 1,6% landsins. Fylkið er
nokkurn vegin ferhyrnt í lögun og u.þ.b. 305 km frá austri
til vesturs og 180 km frá norðri til suðurs. Hæð yfir sjó
nær frá sjávarmáli í 1.064 m á tindi Greylockfjalls í
norðvesturhlutanum. Meðalhæð landsins er 152 m.
Strandlengjan er 309 km löng (2.445 km, ef allar eyjar eru
taldar með).
Massachusetts er skipt í sex landfræðilegar einingar:
Atlantshafsströndin, strandláglendið, hálendi Nýja-Englands,
láglendi Connecticut-dals, hálendi Vestur-Nýja-Englands og
Berdshiredal.
Atlantshafsströndin nær yfir Þorskhöfða og eyjarnar
Nantucket og Martha’s Vineyard austantil. Þarna er jökulset
ofan á sendnum setlögum. Brimið og golfstraumurinn hafa
borið firn af sandi og myndað sandstrendur og gefið
Þorskhöfðanum lögunina, sem hann hefur. Jarðvegur á þessum
slóðum er mjög sendinn og lítt hæfur til ræktunar.
Strandláglendið liggur að hæðóttara landslagi innlandsins.
Víðast er myndbreyttur bergrunnurinn hulinn jökulruðningi.
Þar sem hann er mishæðóttur og jökulruðningurinn þunnur,
kemur það skýrt fram í landslaginu. Milli hæðanna er
ruðningurinn þykkari og sums staðar, þá einkum í kringum
Wareham, eru mýrlendar lægðirnar mikilvægir ræktunarstaðir
trönuberja. Á Bostonsvæðinu eru fallegir, langir
hæðahryggir (jökulgarðar). Þekktasti jökulgarðurinn er
Bunker Hill.
Strandláglendið hækkar sígandi inn á hálendi Nýja-Englands,
sem Connecticut-dalurinn skiptir í tvö svæði.
Hálendisbergið er hart og veðrast hægt. Hæðótt landslagið
er hulið þunnu og ófrjósömu jökulseti. Austur- og
suðurhlutar hálendisins hefur víðast mýkri línur en í vestri
og norðri. Wachusett-fjall (611m) er áberandi, þar sem það
rís yfir hæðirnar í fylkinu miðju. Það er jarðfræðilegt
fyrirbrigði, sem er kallað monadnock.
Fjórða landsvæðið, Connecticut-dalurinn, er þakið rauðum
sandsteini og hellugrjóti, sem hefur veðrazt í flata sléttu
á miljónum ára. Árset Connecticut-fljóts og leir úr fornu
jökullóni gera jarðveginn frjósaman. Nokkrir jökulgarðar
eru í dalnum og samhliða hryggir (Mt Tom; 366m; í grennd við
Holyoke) eru leifar fornra hrauna, sem hafa risið upp á rönd
og veðrazt.
Svæði Vestur-Massachusetts eru flókin. Hálendi
Vestur-Nýja-Englands verður gróflendara og hallar upp að
Grænufjöllum, sem eru mun meira áberandi í norðurhlutanum.
Þar er svæðið dýpra skorið, líkt og í Suður-Vermont.
Berkshire er djúpur og mjór dalur Hoosic- og Housatonic-ánna
skilur á milli Grænufjalla og Taconic-fjalla. Nokkur
nautgripabú (mjólkurframleiðsla) eru í breiðasta hluta hans
syðst en víðast annars staðar eru ekki aðstæður til
landbúnaðar. Taconic-fjöllin í Massachusetts eru lægri en
framhald þeirra í Vermont en þar er engu að síður hæsti
staður fylkisins, Greylock-fjall.
Karlsá er lengsta áin innan marka fylkisins en Housatonic-
og Connecticut-árnar eru mikilvægari. Báðar hafa flætt yfir
bakka sína og valdið miklu tjóni, þannig að byggðir meðfram
þeim komu sér upp varnargörðum eftir flóðin í Connecticut-ánni
árið 1936. Merrimack-áin er mikilvæg fyrir
norðausturhlutann.
Quabbin-uppistöðulónið í Swift-ánni í miðhlutanum er stærsta
vatn fylkisins. Wachusett-lónið í grennd við Worcester er
annað stórt manngert vatn. Bæði eru þau vatnsforðabúr
Boston.
Loftslagið. Rakt meginlandsloftslag
ríkir í fylkinu. Sumrin eru hlý og vetur mildari en þegar
norðar dregur. Vesturhlutinn er svalari en austurhlutinn.
Á Þorshöfða og eyjunum eru sumrin svalari en annars staðar í
fylkinu vegna áhrifa Atlantshafsins, sem draga líka úr
kuldanum á veturna. Meðalárshiti í Pittsfield í
vesturhlutanum er 7,2°C, Boston í austurhlutanum 10,8°C og
Nantucet 9,7°C. Lægsta skráð hitastig er -37,2°C (1981) í
Chester í vesturhlutanum og hið hæsta 41,7°C (1975) í New
Bedford í suðausturhlutanum.
Á strandlengjunni geisa oft norðaustanstórviðri og stundum
fellibyljir. Einn slíkur olli miklu tjóni í Worcester 1953.
Flóra og fána. Skóglendi þekur u.þ.b. 55% landsins (birki,
beyki, hlynur, eik, lerki, fura og óðjurt). Meðal annarra
plantna eru alparós, blóðrót, villt kólumbína, fjóla, asalía
og fjallalárviður.
Meðal villtra dýra eru dádýr, þefdýr, þvottabirnir, bifrar,
hreysikettir, pokarottur, íkornar, moldvörpur, refir og
kanínur. Meðal ferskvatnsfiska eru urriði, bassi, áll og
karfi. Fyrir ströndinni eru m.a. humar, kræklingur,
bláfiskur, þorskur, síld og lúða.
Auðlindir, framleiðsla og iðnaður. Takmarkaðar birgðir
jarðefna ná til kola og byggingarefnis (granít, marmari,
blágrýti, sandur og möl, leir, mór og kalksteinn).
Verðmætustu landbúnaðarafurðirnar eru ræktaðar í gróðurhúsum,
trönuber, hey, epli, tóbak, kartöflur og annað grænmeti.
Mjólkurframleiðsla er talsverð auk eggja, nautakjöts,
svínakjöts, kalkúna og lambakjöts.
Fiskveiðar eru mikilvæg atvinnugrein. Í kringum 1990 var
heildaraflinn metinn á 273 miljónir bandaríkjadala. Aðeins
Alaskabúar færðu meira að landi. Sjávaraflinn byggist
aðallega á þorski, lúðu, ýsu, kolmúli, ufsi, sverðfiskur,
túnfiskur, hörpudiskur, kræklingur, rækja og humar.
Massachusetts er meðal leiðandi fylkja BNA í iðnaði. Helztu
framleiðsluvörurnar eru vélbúnaður til iðnaðar,
skrifstofutæki, elektrónísk tæki, og nákvæmistæki. Einnig
má nefna vefnaðarvöru, fatnað, málma, pappír og pappírsvöru,
unnin matvæli, skó og prentun. |