Karl I, Englandskonungur, veitti George
Calvert, 1. baróni Baltimore, yfirráðin yfir landsvæði, þar
sem nú er Delaware og Maryland. Hann nefndi svæðið eftir
Henriettu Maríu, drottningu Karls en lézt áður en hin
konunglega tilskipun var gerð opinber. Árið 1632 varð sonur
Lord Baltimore, Cecilius Calvert, 2. baron Baltimore,
aðnjótandi sömu réttinda úr hendi konungs. Hann var kaþóli
og hafði í hyggju að stofna nýlendu fyrir trúarbræður og
systur, þar sem þau yrðu ekki ofsótt fyrir trú sína.
Cecilius skipulagði leiðangur, sem sigldi frá Gravesend í
nóvember 1633 undir stjórn Leonard Calvert, bróður hans.
Líklega var helmingur hinna 200 landnema um borð mótmælendur.
Þetta fólk steig á land í marz 1634. Byggðin St Mary’s
spratt upp á skaganum síðar sama ár. Hinn 26. janúar 1635
var fyrsti fundur frjálsra manna í byggðinni. Fyrstu lög
nýlendunnar voru sett 1638.
Fyrstu landnámin. Samskiptin við indíánana voru vinsamleg
en William Claiborne, kaupmaður frá Virginíu, sem stofnaði
til verzlunar á Kenteyju á Chesapeake-flóa, komst fljótlega
upp á kant við landnemana. Hann neitaði að viðurkenna
yfirráð Barrimore lávarðar og eignir hans voru gerðar
upptækar 1638. Árið 1643 var hópur púrítana rekinn frá
Virginíu fyrir að vera utan þjóðkirkjunnar. Þetta fólk kom
sér fyrir þar sem Annapolis er nú og kallaði staðin
Providence. Í kjölfar enska stríðsins, sem hófst 1642, komu
æ fleiri púrítanar til nýlendunnar. Þingið lét hernema St
Mary’s 1645 og Claiborne fékk aftur eignir sínar á Kenteyju.
Calvert landstjóra, sem hafði leitað skjóls í Virginíu,
tókst ekki að ná völdum á ný fyrr en tveimur árum síðar.
Baltimore lávarður reyndi að ná sáttum við púrítanana með
því að stofna sýslu (Anne Arundel County) um byggðir þeirra.
Trúbræður þeirra og systur héldu áfram að nema land og innan
skamms tíma höfðu þeir tögl og hagldir í nýlenduþinginu.
Árið 1652 tóku fulltrúar Englands og leiðtogi
púrítanasýslunnar valdataumana. Kenteyju var formlega
afhent Claiborne og hegningarlögum var beitt gegn kaþólum.
Borgarastríðið í kjölfarið náði hápunkti með misheppnaðri
árás stuðningsmanna Baltimores á Providence í marz 1655.
Oliver Cromwell, verndari Englands, viðurkenndi stöðu
Baltimores lávarðar í nýlendunni árið 1657 og næsta ár fékk
hann völdin aftur í hendur.
Charles Calvert, 3. baron Baltimore, sonur Cecilius, tók við
af föður sínum 1675. Hann olli talsverðri ólgu í Maryland
vegna ólýðræðislegrar stefnu og fyrir að hygla kaþólum.
Lengst af valdatíma hans stóð hann í landamæradeilum við
William Penn, stofnanda Pennsylvaníu. Deilan snérist um
landsvæðið, sem er nú Delaware, og niðurstöðurnar urðu Penn
í hag árið 1685. Eftir borgarastríðið 1688 og afsögn James
II, konungs, tóku mótmælendur völdin í nafni Vilhjálms III
og Maríu II, nýju einvaldanna í Englandi. Nýlenduþingið
sendi lista kvartana gegn stjórn Baltimore lávarði til nýju
ríkisstjórnarinnar í London, sem svipti lávarðinn réttindum
sínum í ágúst 1691. Eftir tímabil konungsstjórnar árið 1715
voru völdin í nýlendunni falin Karli Calvert, 5. baróni
Baltimore, sem var mótmælandi. Hin nýja stjórn hans sýndi
öllum trúarhópum nema kaþólum umburðarlyndi. Þeir fengu
ekki kosningarétt og var bannað að stunda trú sína
opinberlega. Brezku landmælingamennirnir Charles Mason og
Jeremiah Dixon leystu langvarandi deilu við Pennsylvaníu um
norðurlandamærin (1763-67), sem voru síðan kölluð
Mason-Dixon línan. Þeir settu mörkin við 39°43’N.
Marylandbúar urðu aðalhvatamenn andstöðu getn stefnu Breta
áður en sjálfstæðisstríðið brauzt út í BNA. Árið 1774,
eftir að teskatturinn var lagður á, brenndu þjóðernissinnar
í Maryland teskip. Sama ár var haldin almenn ráðstefna til
að leggja byltingarhreyfingunni línurnar. Í nóvember 1776
samþykkti ráðstefnan stjórnarskrá, sem afnam völd
eignarréttarstjórnarinnar.
19. og 20. öldin. Í stríðinu 1812 brenndu Bretar Havre de
Grace, Frenchtown og aðrar byggðir (1813). Breskur her var
hrakinn frá Baltimore og í september 1814 stóðst McHenry-virkið
fjölda árása brezka flotans. Í þessum bardögum samdi
Francis Scott Key þjóðsönginn (Star-Spangled Banner).
Maryland var þrælafylki og í átökunum, sem leiddu til
borgara/þrælastríðsins, voru margir íbúanna hlynntir
aðskilnaði. Fylkið tók engu að síður stöðu með
sameiningarsinnum en margir íbúanna gengu til liðs við
Suðurríkjaherinn, sem réðist tvisvar inní Maryland. Í
september 1862 var háð afgerandi orrusta í Maryland, hin
eina sinnar tegundar þar, í grennd við Sharpsburg. Ný
stjórnarskrá, sem var lögleidd 1864 kvað á um refsingu
einstaklinga, sem höfðu stutt Suðurríkin en almenn andstaða
varð til þess, að ný stjórnarskrá var samin og lögleidd
1867.
Hagvöxtur var nokkuð stöðugur til aldamótanna 1900.
Iðnaðurinn tók fjörkippi í og eftir báðar heimsstyrjaldirnar.
Í kjölfar mikillar íbúafjölgunar fylgdu miklar umbætur í
samgöngu-, félags- og menntamálum. Á áttunda áratugnum var
fylkið orðið að miðstöð geimrannsókna og þróunar þeirra og
opinberum embættismönnum og starfsfólki fjölgaði stöðugt.
Siðustu tvo áratugi 20. aldar teygðust úthverfi Baltimore
and Washington nær hverju öðru og borgarstjórn Baltimore
lagði á ráðin um að draga úr spennu milli kynþátta og
varðveizlu langslagsfegurðar borgarinnar. |