Heildarflatarmál Maryland er 32.135
ferkílómetrar (42. í stærðarröð fylkja BNA)I.
Sambandsstjórnin á 3,1% landsins. Lögun þess er óregluleg
og lengst er það 320 km frá austri til vesturs og u.þ.b. 200
km frá norðri til suðurs. Hæð yfir sjó nær frá sjávarmáli
upp í 1.024 m á tindi Backbone-fjalls í norðvesturhlutanum.
Meðalhæð yfir sjó er 107 m. Strandlengjan við Atlantshafið
er 50 km löng en séu allir skagar og eyjar meðtaldar, er hún
5.134 km. Fyrir ströndinni er langt og mjótt rif, sem
myndast að hluta úti fyrir fjörðunum Chincoteague, Assawoman
og Isle of Wight.
Maryland er gjarnan skipt í 5 landfræðileg svæði, sem
teygjast öll inn í nágrannafylkin: Atlantshafsströndin,
Piedmont-sléttan, Bláfjallasvæðið, Dala- og hryggjasvæðið og
Allegheny-fjöll. Næstum helmingur fylkisins er á
Atlantshafssléttunni, sem Chesapeake-flói skiptir í tvennt.
Austurströndin (hluti Delaware-skaga) er flöt og hvergi
hærri en 30 m. Jarðvegur strandsléttunnar er mjög sendinn
og blandaður leir og seti, þannig að hann er tiltölulega
ófrjósamur. Piedmont-sléttan nær yfir u.þ.b. fjórðung
landsins. Austustu tveir þriðjungar þessa svæðis eru
hæðóttir (365m) hvíla á gömlum hraunum og myndbreyttu bergi.
Jarðvegurinn er frjósamari en á strandsléttunni.
Vesturþriðjungur Piedmont-sléttunnar hvílir á kalk- og
sandsteini og er mun flatlendari.
Bláfjallasvæðið (Blue Ridge) hvílir á kvartzi og myndbreyttu
gosbergi. Víðast er það ofar 305 m hæð yfir sjó.
Catoctin-fjall er áberandi hluti þess. Dala- og
Hryggjasvæðið er setfellingasvæði með dölum og mjóum og
hvössum hryggjum (610m). Grunnberg þessa svæðis er kalk- og
helluberg.
Allegheny-fjöll í norðvesturhlutanum eru líka
setfellingasvæði. Hæð þess yfir sjó er á bilinu 610-1.024
m. Þar eru hryggirnir milli dalanna breiðari og ávalari en
á Dala- og Hryggjasvæðinu. Bæði svæðin eru þakin þunnu lagi
af jarðvegi, sem er tiltölulega frjósamur nema þar, sem hann
hefur myndast á kalksteini.
Tvær stórar ár renna um fylkið: Potomac og Susquehanna.
Aðrar helztu árnar eru Chester, Choptank, Nanticoke og
Pocomoke á austurstrandlengjunni og Gunpowder, Patapsco og
Patuxent á vesturstrandlengjunni. Hvergi er að finna stór
stöðuvötn og manngerð lón eru fremur smá. Hið stærsta er
Djúpagljúfursvatn í norðvesturhlutanum.
Loftslagið er jaðartrópískt nema uppi í Allegheny-fjöllum.
Meðalhiti vetrarmánaða er oftast ofan frostmarks og snjór
tollir ekki lengi á jörðu. Lágmarkshiti fer niður fyrir
frostmark í rúmlega 80 daga á ári. Sumarhitastigið er að
meðaltali 24°C en fer upp í 32°C í 20-40 daga á ári.
Meðalhiti janúar í Baltimore er 0,8°C og í júlí 24,7°C.
Í Allegheny-fjöllum er rakt, temprað loftslag og meðalhiti á
veturna er neðan frostmarks. Meðalúrkoman er 1.520 mm og
snjór þekur svæðið lengi. Meðalhiti á sumrin er oftast
minni en 20°C.
Flóra og fána. Skógar þekja 43% landsins. Á
strandsléttunni eru eik og fura mest áberandi en á
Allegheny-svæðinu vex beyki, túlipanatré, hlynur og linditré.
Annars staðar ber mest á eik og túlipanatrjám. Fjöldi
fallegra blómategunda prýða fylkið.
Villifánan byggist á rauðref, gráref, dádýrum, þvottabjörnum,
þefdýrum, pokarottum, kanínum, moldvörpum, íkornum og
moskrottum. Við Chesapeake-flóa eru stór vetrardvalarsvæði
margra fuglategunda. Fyrir ströndinni eru randabassi,
ostrur, blákrabbi, kræklingur, síld, bláfiskur, karfi o.fl.
tegundir.
Auðlindir, framleiðsla og iðnaður. Helztu auðlindir í jörðu
eru byggingarefni og kol. Kalksteinn, granít, gneiss,
kvartz, sandsteinn, hellugrjót, leir, mór, maríugler og
náttúrugas er unnið úr jörðu
Helztu landbúnaðarafurðir eru kjúklingar, mjólkurvörur, maís,
sojabaunir, hey, tóbak, hveiti, bygg, kartöflur og annað
grænmeti.
Nytjaskógar eru u.þ.b. 90% alls skóglendis fylkisins. Mest
er nýtt af eik, ösp og furu.
Sjávarútvegur er ekki stór í sniðum en engu að síður
mikilvægur (krabbi, ostrur og kræklingur). Helztu
iðnaðarafurðir eru raf- og elektrónísk tæki, unnin matvæli,
frummálmar og efnavara. |