Annapolis, höfuðborg
Maryland, er á suðurbakka Severn-árinnar, nærri ósunum við
Cheaapeake-flóa. Hún er
hafnarborg, viðskipta- og dreifingarmiðstöð fyrir landbúnaðarhéruðin
umhverfis. Efnahagur
borgarinnar byggist þó að mestu á opinberri starfsemi, framleiðslu
radartækja, ýmissa tækja til rannsókna neðansjávar og rannsóknum
og þróun fjarskiptabúnaðar. Í borginni er Herskóli sjóhersins (1845) og Háskóli hl.
Jóhannesar (1784). Gamla
landstjórahúsið (1772-80) og elzta þinghús BNA, sem hefur verið í
stöðugri notkun, eru skoðunarverðir staðir.
Þing BNA kom saman í gamla þinghúsinu.
George Washington, hershöfðingi, lét af störfum í Bandaríkjaher
1783 í þinghúsinu, friðarsamningar í París, sem bundu enda á
frelsisstríðið, voru undirritaðir 1784 og Annapolis-ráðstefnan fór
þar fram 1786.
Púritanar frá Virginíu
settust fyrstir þarna að árið 1649 og skírðu staðinn Providence,
sem var síðar nefndur Town of Proctor’s, Town at the Severn og Anne
Arundel Town. Árið 1694
varð bærinn bráðabirgðahöfuðstaður Maryland og nefndur Annapolis
eftir Önnu prinsessu, sem síðar varð drottning.
Frá 26. nóvember 1783 til 3. júní 1784 var Annapolis höfuðborg
BNA. Áætlaður íbúafjöldi
árið 1990 var rúmlega 33 þúsund. |