Maine land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
MAINE

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 91.653 ferkílómetrar (39. ís stærðarröð fylkja BNA).  Maine er stærsta fylkið á hinu svonefnda Nýja-Englandssvæði.  Sambandsstjórnin á 0,8% landsins.  Mesta vegalengd frá norðri til suðurs er u.þ.b. 510 km og frá austri til vesturs 330 km.  Hæð yfir sjó er frá sjávarmáli til 1606 m á tindi Katahdin-fjalls í miðhluta fylkisins.  Meðahæð yfir sjó er nálægt 183 m.  Strandlengjan er 267 km löng.  Séu allar eyjar fylkisins fyrir ströndinni taldar með fer þessi tala upp í 5.597 km.

Maine er skipt í þrjú landfræðileg svæði:  Strandarláglendið, hálendi Nýja-Englands og Hvítufjöll.  Strandláglendið er öldótt með fjölda fjarða og árósa.  Sæbrattir og skörðóttir skagar bera þess skýr merki, að þeir hafa risið úr sjó eftir ísöld og eyjarnar eru efstu hlutar neðansjávarhæða.  Athyglisverðus slíkra myndana er granítfjallið Cadillac á Mount Desert-eyju, sem er stærst eyja fylkisins.

Hálendi Nýja-Englands nær yfir mestan hluta Maine.  Landslag þess er víða grófhæðótt og sums staðar, einkum umhverfis Bangor og í Aroostook-sýslu, með myndbreyttan berggrunn.

Hæsti tindur Maine er í Hvítufjöllum, sem teygjast inn í New-Hampshire og Vermont.  Í þessu fjallendi er granítfjallabálkur, þ.m.t. Katahdin-fjall.  Longfellow-fjöll eru stærsti fjallabálkurinn.

Stór hluti fylkisins er hulinn þykku jökulseti, sem er ófrjósamt og lekt.  Jarðvegurinn hentar bezt til ræktunar furu og kartaflna, sem ríkið er þekkt fyrir, en óhentugur fyrir aðra nýtingu.  Hlykkjóttir jökulgarðar eru víða á hálendi Nýja-Englands og á strandarláglendinu (eskers).  Fyrrum voru þeir árfarvegir undir jökli.

Rúmlega 5.100 vatnsföll hlykkjast um fylkið, flest straumhörð.  Þau falla til Atlantshafs og hin helztu eru St John, St Croix, Penobscot, Kennebec, Androscoggin og Saco.  Fjöldi stöðuvatna, stórra og smárra, er rúmlega 2.200.

Loftslagið.  Landinu er skipt í þrjú meginloftslagssvæði:  Strandsvæðið, norðanvert innlandið og sunnanvert innlandið.  Á strandsvæðinu, sem nær u.þ.b. 32 km inn í land, ríkir úthafsloftslag (mildari vetur en innar í fylkinu og sumur eru svalari).

Á Norðurinnlandinu, sem nær yfir 60% fylkisins, ríkir meginlandsloftslag.  Þar er ræktunartíminn aðeins 100 dagar og vetur eru mjög kaldir.
Suðurinnlandið er hlýjasti hluti Maine.  Hæsti skráður hiti mældist 40,6°C í North Bridgton árið 1911.

Fellibyljir eru fátíðir í Maine eins og reyndar á öllu Nýja-Englandssvæðinu en fyrir kemur, að þeir leggi lykkju á leið sína á leiðinni með ströndum Atlandshafsins.  Svonefnd norðausturfárviðri eru algengari með miklum vindstyrk og úrkomu (regni eða snjókomu) á strandsvæðinu.

Flóra og fána.  Skóglendi þekur 80% lands.  Þriðjungur þess er vaxinn mjúkviði (furu, óðjurt, greni o.fl.).  Harðviðartegundir eru m.a. svart kirsuberjatré (húsgögn) og hvítaskur (borðviður).  Aðrar algengar tegundir eru rauð- og hvíteik, sætuhlynur og hvít- og gulbirki.  Bláberjarunnar þrífast vel í sendnum jarðvegi suðursýslnanna Washington og Hancock.  Gæsablóm, ýmsar sóleyjategundir, fjallalárviður og alparósir eru algeng blóm.

Dádýr eru algeng og elgir og svartbirnir eru einnig á ferli.  Meðal minni spendýra eru bifur, moskrotta, gaupa, otur, ýmsar íkornategundir, þefdýr, þvottabjörn, minkur og kanína.  Fuglategundir eru margar, s.s. spörfuglar, músarindlar, endur, lómar, mávar, svölur og skarfar.  Í stöðuvötnum er urmull af urriða, laxi, bassa og geddu.  Fylkið er þekkt fyrir góða sjávarrétti (humar, krabbi, rækjur, hörpudisk, krækling, bláfisk, þorsk og lúðu.  Talsvert er um sel.

Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Málmgrýti hefur aldrei verið mikilvægt fyrir efnahag Maine, sem býr yfir takmörkuðum birgðum af járngrýti, mangan, kopar, blýi, sínki, sandi og möl, mó, granite, kalki, kvarts, míka, feldspar, graffiti og eðalsteinum.

Helztu landbúnaðarafurðir eru kartöflur, mjólkurvörur, egg, hey, nautakjöt, svínakjöt, epli, hveiti, hafrar, baunir, sykurrófur og blábber.

Rúmlega 95% skóglendisins eru í einkaeigu og trjámauksframleiðsla til pappírsgerðar er talsverð.  Mjúkviðartegundir eru aðallega nýttar til slíkrar framleiðslu (65%).  Sjávarútvegur er mikilvæg atvinnugrein (sandmiga, hörpudiskur, rækja, þorskur, síld og menhaden-síld).

Iðnaðarframleiðslan byggist aðallega á pappír og trjávöru, skóm og annarri leðurvöru, elektrónískum tækjum, matvælum, fatnaði og vefnaðarvöru.  Skipasmíði er einnig nokkur.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM