Louisiana sagan Bandaríkin,


SAGAN
LOUISIANA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Saga Louisiana hófst árið 1682, þegar Robert Cavelier, sieur de La Salle og félagar hans sigldu niður Mississippifljótið og eignuðu sér allan árdalinn, sem þeir nefndu eftir Lúðvík 14., konungi Frakkland.  Hann lézt áður en varð af tilraun hans til að stofna nýlendu í Louisiana árið 1687.  Næsta ár kom leiðangur undir stjórn Pierre Le Moyne, sieur d’Iberville, sem lét reisa virki í Biloxi og við Mississippifljótið, 65 km norðan óshólmanna.  Vöxtur nýlendunnar var hægur á dögum d’Iberville vegna hitans, hitasóttar og skorts á matvælum.  Árið 1711 varð Louisiana frjáls nýlenda og næsta ár veitti Lúðvík 14. Parísarkaupmanninum Antoine Crozat 15 ára leyfi til námuvinnslu á svæðinu.  Hann eyddi miklum tíma og fé til þróunar nýlendunnar en gafst upp árið 1717 og hið svokallaða Vesturfélag tók við undir stjórn fjármálamannsins John Law, sem hleypti vonslausum Mississippiáætlunum sínum af stokkunum.  Landnámið hélt áfram hægt og bítandi.  New Orleans, sem var stofnuð 1718, varð höfuðborg 1722.  Einokunartilburðir Vesturfélagsins og sífelldar innbyrðis erjur embættismanna þess voru þrándur í götu viðskipta.  Natchez-indíánar drápu alla frönsku landnemana í Fort Rosalie 1729 og hernaður hófst gegn þeim, þar til þeir urðu einskis megnugir.  Frökkum tókst ekki eins vel að kveða chickasaw-indíanana í kútinn.

Brezk yfirráð.  Árin 1733-63 var Louisiana undir beinum yfirráðum frönsku hirðarinnar,  Eftir stríð í Evrópu létu Frakkar Bretum landsvæði Louisiana austan Mississippifljóts eftir, að undanskilinni Orleanseyju).  Skömmu áður höfðu Frakkar látið Spánverjum landið vestan fljótsins eftir.

Íbúa Kentucky og Tennesse-svæðanna skorti samgönguleiðir til að koma framleiðslu sinni á framfæri, þannig að frjálsar siglingar á Mississippifljótinu urðu mikið hagamunamál fyrir BNA í heild sinni eftir að þau höfðu sigrað í sjálfstæðisbaráttunni 1783.  Þegar Spánverjar neituðu að leyfa frjálsar siglingar til Mexíkóflóa, kom upp staða, sem hefði getað leitt til stríðs.  Þess í stað keyptu Bandaríkin af Frökkum árið 1803.  Svæðið sunnan 33°N var gert að Orleanshéraði,  norðurhlutinn að Louisianahéraði árið 1805 og Missourihérað var stofnað 1812.

Fylkisréttindi.  Louisiana varð að sjálfstæðu fylki í BNA 30. apríl 1812.  Hinn 8. janúar 1815 unnu Bandaríkin afgerandi sigur í orrustunni við New Orleans 1812.  Eftir stríðið jukust flutningar mjög um fljótið vegna tilkomu gufuskipa og New Orleans þróaðist í mikilvæga hafnarborg.  Þegar árið 1840 var hún orðin næststærsta hafnarborg BNA á eftir New York.  Efnahagsþróun fylkisins var hröð.  Stjórnarskrá þess var breytt í anda sameiginlegrar stjórnarskrár BNA.  Árið 1845 var íbúunum veittur réttur til að kjósa fylkisstjóra í almennum kosningum og árið 1852 var víða farið að kjósa dómara.  Baton Rouge varð höfuðborg árið 1849.

Borgara/þrælastríðið og enduruppbyggingin.  Hinn 26. janúar 1861 ákváðu þátttakendur í sérstakri ráðstefnu aðskilnað frá BNA án þess að almenningur fengi að ráða nokkru í kosningum.  Í upphafi borgara/þrælastríðsins tók næstum algerlega fyrir viðskipti í New Orleans.  Í maí 1862 tók norðurherinn borgina á sitt vald, setti henni herstjórn og endurskipulagði dómskerfið.  Tveimur arum síðar efndu Norðurríkin til ráðstefnu um nýja stjórnarskrá fyrir fylkið, sem kvað á um tafar- og skilyrðislausa lausn allra þræla.  Árið 1866 afnam fylkisstjórnin þessar breytingar.  Sambandssinnar reyndu að efna til annarrar ráðstefnu til að breyta kosningalögunum.  Þessi tilraun leiddi til mikilla óeirða í New Orleans, sem ollu dauða næstum 200 negra.  Lýðveldissinnar og þeldökkir íbúar alls fylkisins lifðu við ógn og skelfingu á þessum tíma.

Eftir stríðið, hinn 2. marz 1867, varð Louisiana stjórnsvæði fimmta hersins undir stjórn Philip Henry Sheridans hershöfðingja.  Árið 1868 var lögleidd stjórnarskrá, sem veitti negrum kosningarétt, 14. stjórnarskrárbreyting BNA var samþykkt og hernámi fylkisins lauk í júli.  Meirihluti hvítra íbúa fylkisins sætti sig illa við hinar nýju aðstæður og bitur átök urðu á stjórnmálasviðinu.

20. öldin.  Árið 1928 var Huey Pierce Long kosinn fylkisstjóri.  Útgjaldaáætlunum hans var svo illa tekið meðal pólitískra andstæðinga, að þeir hófu málarekstur gegn honum fyrir landráð 1929.  Þessi málarekstur mistókst og styrkti stöðu fylkisstjórans svo mjög, að hann tók sér einræðisvald.  Árið 1935, þegar Long var orðinn þingmaður í öldungadeild sambandsþingsins, beitti hann áfram völdum sínum í fylkinu og var myrtur fyrir vikið.  Það dugði ekki til, því fylgjendur hans héldu áfram á sömu braut.

Aukin skipasmíði og vaxandi olíuiðnaður í síðari heimsstyrjöldinni gerðu hafnarborgina New Orleans æ mikilvægari.  Flutningar margfölduðust við opnun 122 km langs skipaskurðar, sem stytti og greiddi leiðina til Mexíkóflóa árið 1963.  Þá voru byggðar verksmiðjur í borginni til framleiðslu eldflauga.

Árið 1959 var hafizt handa við opnun skóla fyrir alla kynþætti og þessari þróun var hraðað með áætlun, sem var gerð 1963.  Það tók langan tíma að koma jafnréttismálum á réttan kjöl í fylkinu en smám saman fjölgaði þeldökkum kjósendum.  Árið 1967 varð Ernest N. Morial fyrsti negrinn til að hljóta kosningu á þing.  Tíu árum síðar sigraði hann í borgarstjórakosningum í New Orleans.

Landbúnaðurinn skipar veigamikinn sess í efnahagslífi fylkisins og iðnþróunin, sem hófst í síðari heimsstyrjöldinni hefur haldið áfram.  Allan níunda áratuginn og fram á hinn tíunda var framleiðsla olíu og náttúrugass ómissandi þáttur í efnahagslífinu.  Vaxandi ferðaþjónusta kom sér vel fyrir fjárhaginn, þegar verð olíu og eldsneytis fór lækkandi um tíma.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM