Louisiana land og nátttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
LOUISIANA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál Louisiana er 134.275 ferkílómetrar (31 í stærðarröð fylkja BNA).  Sambandsstjórnin á 4,2% landsins.  Fylkið er líkt L í laginu, 430 km frá norðri til suðurs og 460 km frá austri til vesturs.  Hæð yfir sjó er frá 2,4 m neðan sjávarmáls í New Orleans til 163 m á Driskill Mountain í norðurhlutanum.  Meðalhæð yfir sjó er 30m.  Strandlengjan við Mexíkóflóa er 639 km löng.

Landinu er skipt í þrjú láglendissvæði:  Vesturflóastrandsléttuna, óshólma Mississippi og Austurflóastrandsléttuna.  Fyrstnefnda svæðið nær yfir næstum allan vesturhluta fylkisins.  Sléttunni hallar aflíðandi suður að Mexíkóflóa og landslagið einkennist af sandhryggjum (barrier beaches).  Innar er mýrlent belti með fjölda salthæða.  Aðrir landshlutar eru sléttur með ávölum hæðum og öldum, sem hvíla á leir- og sandblönduðum moldarsetlögum.

Keðja lágra hæðahryggja liggur meðfram Mississippifljótinu á óshólmasvæðinu.  Þeim hallar aflíðandi frá fljótinu og slík svæði eru nefnd bakland.  Óshólmasvæðið er gríðarstórt, 38.350 ferkílómetrar.  Það myndaðist og er enn að myndast af árframburði og er þakið frjósömum jarðvegi.

Austurflóasléttan nær yfir tiltölulega lítið svæði norðan Pontchartrain-vatns og mýrlendisins.  Norðar taka við öldóttar sléttur.
Mississippifljótið og þverár þess, Red, Ouachita og Atchafalaya, hafa borið fram hvílíkt magn jarðefna, að farvegir þeirra eru nú hærri en aðliggjandi svæði.  Varnargarðarnir meðfram þessum ám eru u.þ.b. 3.220 km langir og stöðugt verður að hækka þá, því árnar hlaða æ meir undir sig.  Víða eru flóðagáttir, þar sem hægt er að hleypa vatni öruggar leiðir til að draga úr hættu neðar með ánum.  Árnar Black, Pearl og Sabine eru einnig hluti af vatnasviði fylkisins.

Pontchartrain-vatn er ísalt og telst vera stærsta stöðuvatn fylkisins.  Íbjúg stöðuvötn eru víða í gömlum árfarvegum.

Loftslagið er rakt og heittemprað með heitum sumrum og mildum vetrum.  Meðalárshitinn er á bilinu 18,3°C í norðurhlutanum til 20,6°C syðst.  Miklum sumarhita og raka fylgir tíð úrkoma.  Lægsta skráð hitasti er -26,71C (1899) og hið hæsta 45,6°C (1936).  Fellibyljir eru tíðir síðsumars og á haustin.
Flóra og fána.  Fylkið er auðugt af plöntu- og dýrategundum.  Skóglendið, sem þekur u.þ.b. helming landsins, er nýtt að hluta (eik, fura, kýpressa).  Víða eru skrautleg villiblóm (azalea, magnólía, kamella, liljur og brönugrös).

Í skógunum þrífast minkar, þvottabirnir, pokarottur og þefdýr og í fenjaskógum eru villikettir.  Amerískir krókódílar synda um fenin og árósana.  Fuglalífið er mjög fjölbreytt.  Ýmsar anda- og gæsategundir dvelja vetrarlangt í suðurhluta landsins, þar sem brúni pelikaninn hefst líka við.  Mikið er af fiski, bassi, sólfiskur og karfi í ferskvatni.

Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Fylkið er auðugt af jarðefnum.  Olía og náttúrugas eru veitamest fyrir efnahaginn.  Mikið er framleitt af salti og brennisteini.  Talsverðar birgðir eru af kalksteini, sandi, grjóti, möl og leir.
Helztu landbúnaðarafurðir eru baðmull, sojabaunir, hrísgrjón, sykurreyr, hey, sætar kartöflur, maís, sorghum og grænmeti.

Timburvinnsla og skógrækt eru mikilvæg atvinnugrein.  Helztu nytjategundir trjáa eru eik, askur, kýpressur, gúmmítré, baðmullarösp og víðir.  Louisiana er meðal fremstu fylkja í framleiðslu borðviðar.

Veiði í vötnum með ströndinni og inni í landi er mikil.  Fiskveiðar ná samt ekki að standa undir heilu prósenti af vergri þjóðarframleiðslu.  Ársaflinn er engu að síður hinn mesti meðal fylkja BNA, nema Alaska.  Rúmlega þriðjungur aflans er síldartegund.  Rækja er verðmætasti aflinn auk ostra og blákrabba.

Helztu framleiðsluvörur fylkisins eru efnavörur, flutningatæki, eldsneyti, kol, pappír, matvæli og málmar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM