Samkvæmt manntalinu 1990 voru íbúar 4.219.973
og hafði fjölgað um 0,3% næstliðinn áratug. Meðalfjöldi
íbúa á hvern ferkílómetra var 31 en mestu þéttbýlissvæðin
eru norður- og suðurhlutarnir. Hvítir 67,3%, svartir 30,8%
auk 18.361 indíána, 17.598 Víetnama, 5.430 kínverja, 5.083
asísk/indversks, 3.731 Filipseyinga og 93.000 fólks af
spænsku bergi. Fólk af öðrum kynþáttum en hinum hvíta er
mest áberandi í suðurhlutanum. Þar eru einnig flestir
kreólanna, afkomenda franskra og spænskra landnema og
cajunfólksins. Það rekur uppruna sinn til fransk-kanadískra
akadíumanna, sem voru reknir brott frá Austur-Kanada um
miðja 18. öldina.
Menntun og menning. Fyrsti skólinn var stofnaður skömmu
eftir 1720. Elzti núverandi skólinn (1727) er kvennaskóli í
New Orleans undir stjórn Úrsúlínusystra. Fyrstu
ríkisskólarnir tóku til starfa 1771 og fylkisskólakerfi var
tekið upp um miðja 19. öld.
Árið 1990 voru 1.536 grunnskólar í fylkinu með 783.000
nemendur og 123.000 voru í einkaskólum. Samtímis voru 34
æðri menntastofnanir starfandi með 180.000 stúdenta. Þeirra
á meðal eru Ríkisháskólinn í Baton Rouge (1860) og víðar,
Suðurháskólinn og Landbúnaðar- og tækniháskólinn í Baton
Rouge (1880), Suðvesturháskólinn (1898) í Lafayette og
Tulane-háskólinn í New Orleans.
New Orleans, vagga jazzins og menningarmiðstöð Louisiana, er
prýdd kreólahúsum og alls staðar ilmar borgin af sérstakri
matargerð kreóla. Borgin státar af fjölda safna, s.s.
Þjóðminjasafninu, Listasafninu og Mardi Gras-safninu. Mörg
önnur söfn eru í Baton Rouge, Lafayette og Shreveport.
Áhugaverðir staðir: Sögulegar minjar og sögustaðir eru vítt
og breitt um fylkið, sem var undir stjórn Frakka og
Spánverja áður en það varð hluti BNA árið 1803. Vieux Carré
sögusvæðið (Franska hverfið) í New Orleans státar af 18. og
19. aldar húsum, þ.á.m. St Louis-dómkirkjunni (1794), Jean
Laffite sögugarðinum og í Preserve er m.a. svæðið, þar sem
orrustan um New Orleans var háð 1815.
Íþróttir og afþreying. Dýraveiðar, stangveiði og
vatnaíþróttir eru vinsæl afþreying. Mardi Gras-hátíðin, sem
er haldin á hverju vori í New Orleans, laðar að ferðamenn
frá öllum heimshornum. Hátíðin einkennist af litríkum
skrúðgöngum, götudansi og grímudansleikjum. Veðreiðar með
úrvalshestum eru einnig mjög vinsælar. |