Louisville, höfuðborg
Kentucky-fylkis, er miðstöð efnahagsmála stórborgarsvæðis, sem nær
yfir Ohio-ána og inn í Indiana-fylki, með geysifjölbreyttum iðnaði
(búsáhöld, landbúnaðartæki, vörubílar, bílahlutir, matvæli, tóbaksvörur,
málning, gúmmí og amerískt viskí (bourbon), sem er einkenndandi
fyrir fylkið. Þarna eru líka
framleiddar „Louisville Slugger”-hafnarboltakylfur.
Þarna fara fram Kentucky-veðreiðarnar í maí ár hvert (síðan
1875) á Churchill Downs-skeiðvellinum.
Kentucky-kaupstefnan er annar árlegur viðburður.
Meðal skoðunarverðra staða eru J.B. Speed-listasafnið og Sögu-
og vísindasafnið. Farmington er fallegt Suðurríkjaheimili (1808-10) í grenndinni
og Fort Knox er líka nærri. Meðal
æðri menntastofnana borgarinnar eru Louisville-háskólinn (1798),
Spalding-háskólinn (1814), Guðfræðiskóli öldungakirkjunnar (1853)
og Guðfræðiskóli baptista (1858).
Borgin stendur á svæði, þar sem Shawnee-indíánar bjuggu áður.
Byggðin var stofnuð árið 1778 (George Rogers Clark) og er meðal
elztu byggða vestan Appalachia-fjalla.
Fyrsta byggðin var á Corn-eyju í Ohio-fljóti en hún var
flutt á núverandi stað árið 1779 og næsta ár var hún nefnd eftir
Lúðvík 14. Frakkakonungi í þakklætisskyni vegna aðstoðar Frakka
í frelsisstríðinu gegn Bretum. Á
19. öldinni var bærinn í fararbroddi í viðskiptalífinu og þróunar
í Suð- og Miðvesturríkjunum eftir að grafinn var skipaskurður fram
hjá fossunum í ánni. Á
sjötta áratugi 19. aldar tengdist borgin járnbrautunum.
Iðnvæðingin jókst og mikil uppbygging átti sér stað eftir
síðari heimsstyrjöldina, einkum á sjöunda og áttunda áratugnum.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var tæplega 270 þúsund. |