Kansas sagan Bandaríkin,


SAGAN
KANSAS

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Fyrir u.þ.b. 10.000 árum voru nokkur forsöguleg menningarsamfélög á Kansassvæðinu.  Þau voru forverar sögulegra þjóðflokka, s.s. wichita, pawnee, kansa, osage og sléttuapache.  Hirðingjaþjóðflokkarnir cheyenne, arapaho, comanche og kiowa komu einnig til skjalanna, stunduðu veiðar og stunduðu búskap á sléttunum í kringum aldamótin 1800.  Stundum snéru þessir þjóðflokkar bökum saman en kritur milli þeirra héldu áfram fram á 19. öldina.

Könnun og landnám.  Árið 1541 kom spænskur leiðangur undir stjórn Francisco Coronado í leit að Quivira, hinu þjóðsagnakennda gulllandi.  Fleiri Spánverjar komu í kjölfarið til ársins 1601 og Frakkar keyptu skinn af indíánum á árabilinu 1682-1739.  Fyrstu amerísku landkönnuðarnir fóru um Kansassvæðið árið 1804.  Þar voru Meriwether Lewis og William Clark á ferðinni.  Santa Fe-leiðin opnaðist árið 1821 og var verzlunarleið í hálfa öld.  Oregon-Kaliforníuleiðin í fylkinu norðaustanverðu var mikilvæg fyrir landnemana, sem flykktust vestur á bóginn.  Eftir 1830 voru þúsundir indíána í austurhluta BNA (shawnee, potawatomi o.fl.) fluttir til Kansas.  Kaupmenn, trúboðar og hersveitir í virkjunum Leavenworth, Scott og Riley voru einu hvítu íbúar Kansas áður en það varð hérað í BNA og opnað fyrir landnámi.

Það gerðist 30. maí 1854.  Vesturlandamæri þess voru Klettafjöllin.  Deilur hófust strax um það, hvort Kansas yrði frjálst eða þrælafylki í BNA, og þeim linnti ekki fyrr en 1858.  Héraðið var oft kallað Blóðuga Kansas vegna skæðra átaka milli fylgjenda og andstæðinga þrælahalds.  Það hafði tvær stjórnir um nokkurra ára skeið, aðra ólöglega og kosningasvik voru algeng.  Stjórnarskrá, sem sambandsþingið gat samþykkt, var ekki tilbúin fyrr en 1859 og Kansas varð aðili að BNA sem frjálst fylki árið 1861.

Fylkisréttindi.  Kansas sendi flesta fullorðna karla í sambandsherinn og herdeildir fylkisins tóku mjög virkan þátt í borgara/þrælastríðinu í Suður- og Vesturríkjunum.  Eina stórorrustan, sem var háð í Kansas var háð við Mine Creek (1864).  Hrikalegasti atburður stríðsins í Kansas var árás Suðurríkjaskæruliða undir stórn William Quantrill á Lawrence 1863.

Fyrsta áratuginn eftir stríðið jókst aðstreymi landnema til miðhluta Kansas og járnbraut var lögð um fylkið.  Kyrrahafs- og Santa Fe-járnbrautirnar lágu um fylkið árið 1872 og aukasporum var bætt við næstu tvo áratugina.  Indíánar tóku þessari auknu útþenslu hvíta mannsins óstinnt upp og skáru upp herör á sléttunum.  Stríðinu við þá linnti ekki fyrr en 1878.  Járnbrautirnar fluttu nýja landnema til Kansas, marga frá Evrópu, og nautgripi frá Texas til markaðanna í Kansas.  Á áttunda áratugnum gerbylti notkun vetrarhveitis aðstöðu landbúnaðarins í fylkinu.  Þegar leið að aldamótum var fylkið að full numið og næstum hver skiki var seldur.  Áfengisbann var tekið upp árið 1890 og ekki afnumið fyrr en 1948.

Vél- og viðskiptavæðingin gerði landbúnaðinn að stórrekstri á 20. öldinni.  Jarðefnanýting og iðnaður, einkum á sviði flugmála, skutu nýjum stoðum undir efnahag fylkisins.  Kansas var fremst í flokki framfarahreyfingarinnar snemma á 20. öldinni og lögleiddi síðar ýmsar félagslegar umbætur.  Æðri menntun og listalíf hefur blómstrað, þótt mikillar íhaldsemi hafi gætt í fjárstuðningi við slíka þróun, því þéttbýli jókst og eykst stöðugt á kostnað dreifbýlisins.  Íhaldsemin gisnaði svolítið, þegar löglleitt var leyfi til að veðja á hunda og hesta í hlaupa- og veðreiðum, vínveitingaleyfi voru gefin út og rekstur fylkislotterís var hafinn.  Landbúnaðurinn varð fyrir miklum hremmingum, þegar Missourifljótið og fleiri ár í Miðvesturríkjunum flæddu yfir bakka sína árið 1993.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM