Yosemite Kalifornía Bandaríkin,


YOSEMITE ÞJÓÐGARÐURINN
KALIFORNÍA


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Yosemite þjóðgarðurinn er í miðausturhluta Kaliforníu.  Hann var stofnaður 1890 og nær yfir 3.080 km² lands í Snjófjöllum (Sierra Nevada).  Þekktastur er hann fyrir geysifagurt landslag og sérstakar bergmyndanir.  Þar ber hæst Yosemite-dalinn, sem er mjór, 1,6 km breiður og 11 km langur.  Um hann rennur Merced-áin.  Dalurinn er jökulgrafinn og þverhnípt granítfjöllin umhverfis hann eru allt að 1220 m hærri en dalbotninn.  Nokkrir fossar steypast niður snarbrött fjöllin, s.s. Efri-Yosemite-foss (436m), miðhlutinn (206m) og Neðri Yosemite-foss (98m).  Aðrir frægir fossar eru Ribbon-foss (491m), Brúðarslæðufoss (189m) og Vernal-foss (97m) og regnbogi hans.

Innan þjóðgarðsins eru margir háir tindar Snjófjalla, Mount Lyell (3997m).  Hið mikla gljúfur Tuolumne-árinnar er þekkt fyrir fjölda fossa, s.s. Vatnshjólsfossa.  Þarna vex fjöldi risafurutrjáa (sequoia), einkum í Mariposa, Tuolumne og Merced dölunum.

Flóra þjóðgarðsins er geysifjölbreytt og sömu sögu má segja um dýralífið.  Þarna eru miklir furuskógar og sedrusskógar upp að skógarmörkum, þar sem graslendi tekur við.  Þarna hafa verið taldar a.m.k. 1300 tegundir blómplantna og 31 tegund trjáa.  Í þjóðgarðinum þrífast í kringum 60 tegundir villtra spendýra.  Algengust þeirra eru birnir og dádýr.  Alls hafa verið taldar 220 tegundir fugla í garðinum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM