San Diego Kalifornía Bandaríkin,


SAN DIEGO
KALIFORNÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

San Diego er miðstöð iðnaðar, sölu landbúnaðarafurða og flutninga fyrir mestan hluta Suður-Karliforníu, hluta af Arizona og Nýju-Mexíkó auk norðvesturhluta Mexíkós.  Borgin stendur við San Diego-flóa og þar með Kyrrahafið.  Hún er líka mikilvæg fiski- og fiskvinnsluborg með stóran fiskveiðiflota og skipasmíðastöðvar.  Ýmsar stofnanir annast verkefni í tengslum við geimferðaáætlun BNA og þróun hátæknibúnaðar.  Einnig er framleitt talsvert af vélbúnaði, málmhlutum, matvælum, húsgögnum, fatnaði og efnavöru.  Þarna er stór skipasmíðastöð hersins og herstöð sjóhersins.  Loftslagið á þessum slóðum er mjög þægilegt og gott að njóta þess á stórum baðströndum. 

Menningarlega sinnaðir gestir borgarinnar hafa líka úr mörgu að moða.  San Diego er vinsæll ferðamanna- og ráðstefnustaður allt árið.

Meðal aðalmenntastofnana borgarinnar eru San Diego-ríkisháskólinn (1897), Kaliforníuháskóli (1912; Scripps haffræðistofnunin) og San Diego-háskólinn (1949).  Menningarleg miðja borgarinnar er Balboa-garðurinn með San Diego-dýragarðinum, Borgarlistasafninu, Geimsögumiðstöðinni og Hetjuhöllinni (íþróttasafn).  Einnig er áhugavert að fara í Sea World (haffræðisafnið) og Borgarleikhúsið, þar sem symfóníuhljómsveit borgarinnar, óperan og balletthópar koma fram.  Jack Murphy-leikvangurinn er nýttur til stórleikja í hafnar- og ruðningsbolta.  Það er líka gaman að kíkja á gamla bæinn og gaslampahverfið.  Í báðum þessum hverfum eru söfn og sýnishorn af 19. aldar húsum.  Palomar-stjörnuathugunarstöðin er í Cleveland-þjóðarskóginum.

Árið 1542 varð portúgalski landkönnuðurinn Juan Rodríguez Cabrillo fyrstur til að sigla inn í höfnina í San Diego.  Sextíu árum síðar birtist spænskur sæfari, Sebastián Vizcaíno, og skírði flóann eftir annaðhvort San Diego de Alcalá (hl. Didakus) eða flaggskipi sínu, San Diego.  Árið 1769 komu Spánverjar undir forystu séra Junípero Serra og stofnaði fyrstu trúboðsstöðina í Kaliforníu (endurbyggð 1931).  Byggðin þróaðist hægt og snemma á 19. öld var þar lítill verzlunarstaður með skinnavörur.  Viðskiptin við höfnina jukust árið 1827, þegar hafinn var útflutningur nautshúða til Nýja-Englands.  Árið 1846 náðu BNA stjórn á þessu svæði frá Mexíkó og á árunum 1850-70 var þar mikilvæg miðstöð hvalveiða.  Þegar járnbrautin náði alla leið til San Diego árið 1884, óx vegur hennar og viðgangur, sem hélt áfram fram á 20. öldina, einkum eftir 1940, þegar þar voru byggðar herstöðvar og ýmiss konar iðnaður tengdur varnarmálum.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var rúmlega 1,1 miljón.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM