Iowa land og náttúra Bandaríkin,


LAND og NÁTTÚRA
IOWA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál fylkisins er 145.754 ferkílómetrar (26. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 0,4% landsins.  Landið er nokkurn veginn ferhyrnt í laginu, 338 km frá norðri til suðurs og 515 km frá austri til vesturs.  Hæð yfir sjó nær frá 146 m við Mississippifljótið upp í 509 m á Ocheyedan-hæð í norðvesturhlutanum við landamærin að Minnesota.  Meðalhæð yfir sjó er nálægt 335 m.

Allt núverandi Iowa-svæðið var hulið jökli einhver kuldaskeið ísaldarinnar og því er landslagið yfirleitt flatt eða öldótt með mjúkum línum.  Driftless-svæðið í norðausturhlutanum er djúpt skorið gljúfrum og hæðirnar þar rísa 100-120 m yfir Mississippifljótið og þverár þess.  Mesta flatlendið er Vestur-Mikluvatnaláglendið í norður- og miðhlutum landsins.  Það er einnig kallað Des Moines Lobe, því suðurhluti þess nær til Des Moines, þar sem suðurjaðar síðasta stóra ísaldarjökulsins var fyrir u.þ.b. 25.000 árum.  Aðrir landshlutar tilheyra Skornu aursléttunni, sem er líka öldótt.  Þar safnaðist fyrir jökulaur á ísöld og náttúruöflin hafa síðan mótað landslagið, sem er mjög skorið árfarvegum og þakið hnöttóttum hæðum.  Jarðvegurinn er víðast mjög frjósamur.

Næstum allar árnar renna til Mississippifljótsins eða Missouri-árinnar.  Helztu þverár Mississippi eru Des Moines, Raccoon, Iowa, Cedar, Skunk og Wapsipinicon og aðalþverár Missouri-árinnar eru Big Sioux, Little Sioux og Nishnabotna, sem renna allar til suðuvesturs.  Stærstu náttúrulegu stöðuvötnin eru Spirit-vatn, Clear-vatn, Storm-vatn og Austur- og Vestur- Okoboji-vötn.  Stærstu uppistöðulónin eru Rathbun, Saylorville, Coralville og Red Rock.

Loftslag.  Meginlandsloftslag ríkir í landinu.  Sumur eru heit og rök og vetur kaldir og þurrviðrasamir.  Meðalárshiti er 7,8°C í norðurhlutanum og 10,6°C í suðurhlutanum.  Lægsta skráða hitastigið er -43,9°C (1912) og hið hæsta 47,8°C (1934).  Þótt mestur hluti úrkomunnar falli á sumrin, geisa stundum stórhríðir á veturna.  Þrumuveður eru algeng á sumrin.  Miklir þurrkar hafa valdið uppskerubresti á u.þ.b. 20 ára fresti.

Flóra og fána.  Skóglendi þekur aðeins 5% landsins.  Hlynur og linditré vaxa á Driftless-svæðinu auk nokkurra furulunda.  Sunnar vex eik og hikkorí auk valhnetu, alms og sedrusviðar.  Vísundar og sléttuúlfar reikuðu fyrrum um slétturnar og dádýr og fjallaljón í skógunum.  Nú eru aðeins dádýr eftir auk þvottabjarna, refa, íkorna, moskrottu og kanínu.  Hænsnfuglarog fasanar eru aðalveiðifuglarnir.  Endur og gæsir eru fargestir.  Í ám og vötnum eru bassi, gedda, sólfiskur, urriði og karfi.

Auðlindir, framleiðsla, iðnaður.  Mikilvægustu jarðefnin eru kalksteinn, sandur, möl, gips og kol.  Leir og hellugrjót eru nýtt til múrsteins- og flísagerðar.

Búskapur er stundaður á u.þ.b. 90% landsins.  Uppskeran nemur u.þ.b. helmingi tekja búgarðanna.  Oftast er fylkið í fyrsta sæti sem maísframleiðandi í BNA.  Auk maís er mikið framleitt af sojabaunum, fóðri, höfrum, alfalfa, hörfræi, sykurrófum, hveiti, eplum, ferskjum og vínberjum.

Skóganýting og fiskveiðar eru óverulegar.  Lítið eitt er nýtt af eik, valhnetu og hikkorí og einu fiskveiðarnar eru stundaðar á Mississippifljóti og Missouriánni.

Helztu framleiðsluvörurnar eru matvæli, fóðurvörur, vélbúnaður til iðnaðar og rafeindatæki.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM