Indianapolis er höfuðborg Indiana-fylkis og stærsta
borg þess. Hún er miðstöð
viðskipta, iðnaðar, samgangna, flutinga, menningar og menntunar í miðju
frjósams landbúnaðarsvæðis, sem er kallað „kornbeltið”.
Þarna eru framleidd elektrónísk tæki, lyf, vélar, samgöngutæki,
málmvörur, matvæli, pappírsvörur, prentað efni, gúmmí- og plastvörur.
Opinber, fjármála- og tryggingastarfsemi, byggingariðnaður og
ferðaþjónusta eru mikilvægar atvinnugreinar í borginni.
Þarna er Butler-háskólinn (1855), Marian-háskólinn (1851) og
Indianapolis-háskólinn (1902). Meðal
áhugaverðra staða eru heimili ljóðskáldsins James Whitcomb Riley,
þinghúsið (1888), aðalbrautarstöðin (Union Station) og gotneska dómkirkjan
(1929).
Listasafn borgarinnar, Eiteljorege-safnið (vestræn-
og indíánalist), Barnasafnið og James Irving Holcomb-stjörnusafnið
og athugunarstöðin eru heimsókna virði.
Borgin styður ýmsar listgreinar, s.s. dansflokka, leikhús, óperu,
symfóníuhljómsveit o.fl. Heimskunn keppni í kappakstri, Indianapolis
500, er haldin árlega og þar er einnig Kappaksturssafn. Í borginni eru tveir stórir íþróttaleikvangar, á Markaðstorginu
og Hoosier-hvelfingin (ruðningsbolti; 61.000 áhorfendur; heimavöllur
Indianapolis Colts).
Byggð hófst á þessu svæði
árið 1820 eftir að það var valið fyrir höfuðborg fylkisins.
Árið 1821 fékk hún núverandi nafn og bandaríski verkfræðingurinn,
Alexander Ralston, sem léði franska arkitektinum Pierre L’Enfant lið
við skipulag Washington, D.C., var ráðinn til að skipuleggja
Indianapolis. Corydon
missti höfuðborgarhlutverk sitt árið 1825 og fimm árum síðar náði
aðalþjóðvegur fylkisins til borgarinnar.
Alla tíð síðan hefur hún verið miðstöð samgangna á
landi og í lofti. Áætlaður
íbúafjöldi árið 1990 var rúmlega 731 þúsund. |