Boise er höfuðborg Idaho-fylkis.
Efnahagur hennar byggist á opinberri stjórnsýslu,
bankastarfsemi, heilbrigðisþjónustu og viðskiptum.
Talsvert er framleitt af timburvöru, matvælum og elektrónískum
tækjum. Meðal skoðunarverðra
staða er þinghúsið (1906-12), guðshús gyðinga (Congregation Beth
Israel; 1895), elzta sýnagóga vestan Mississippifljótsins og hana sækja
enn þá afkomendur upprunalegs safnaðar og Baskasafnið og menningarmiðstöðin,
sem varðveitir minjar um menningaráhrif innflytjenda frá NV-Spáni rétt
fyrir aldamótin 1900. Boise
ríkisháskólinn var stofnaður 1932.
Hinn mikli fjöldi Shoshone-ættkvísla,
sem bjó á þessu svæði snemma á 19. öldinni, gerði tilraunir
fransk-kanadískra loðdýraveiðimanna til búsetu að engu og hvítum
mönnum tókst ekki að koma sér þarna fyrir fyrr en árið 1863, þegar
gull fannst á svæðinu. Þá
byggði Bandaríkjaher virkið Boise og borginni var valinn staður.
Hún var á krossgötum Oregon-leiðarinnar og leiðanna til
gullnámanna og óx hratt. Kínverskir
innflytjendur komu til að leita að gulli og þeir voru orðnir fleiri
en hvítu gullgrafararnir árið 1870.
Síðar tóku kínverjarnir upp búskap, viðskipti og rekstur
veitingahúsa. Árið 1864
varð Coise höfuðborg Idaho-héraðs og árið 1890, þegar héraðið
varð að fylki, var Boise áfram setur stjórnar þess. Gerð stíflu og orkuvers samkvæmt lögum frá 1902 og lega
borgarinnar á járnbrautaleiðinni til Kyrrahafsstrandar (1925) jók
enn á vöxt og viðgang borgarinnar.
Nafnið Boise er úr frönsku, boisé, sem þýðir skógi vaxinn.
Loðdýraveiðimennirnir, sem gátu ekki setzt að snemma á 19.
öldinni notuðu það vegna skóganna meðfram Boise-ánni.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var tæplega 126 þúsund. |