Helztu þjóðflokkar indíána á Georgíusvæðinu, þegar
Evrópumenn hófu landnám, voru creek og cherokee, sem áttu
sína menningu. Spænska trúboðsstöðin í Santa Catalina var
líklega fyrsta evrópska byggðin (1566 á Katríanareyju).
Bretar nutu aðstoðar indíána við að jafna hana við jörðu
árið 1680.
Nýlendutíminn og byltingar. Árið 1732 sömdu mannvinurinn
James Oglethorpe og John Percival um stofnun nýlendu í
Georgíu, sem yrði undir stjórn trúnaðarmanna. Oglethorpe
kom með fyrsta hópinn og stofnaði Savannah árið 1733. Breta
vantaði stuðpúða milli Suður-Karólínu og Spánverja í Flórída
og Frakka í Louisiana. Georgía þjónaði því hlutverki vel,
en hagsæld fór ekki að vaxa þar fyrr en samningurinn við
Breta varð laus 1753.
Þrátt fyrir hollustu Georgíubúa við brezku krúnuna, tóku
þeir þátt í sjálfstæðisstríðinu og sendu fulltrúa á annað
meginlandþingið. Bretar náðu Savannah undir sig árið 1778
en skæruliðar hindruðu frekari framsókn og þeir yfirgáfu
fylkið 1782.
Borgara/þrælastríðið. Tvö öfl réðu stjórnmálunum í fylkinu
snemma á 19. öldinni. Annað kom fram fyrir strandhéruðin og
þrælaeigendur og hitt innhéruðin og þá, sem áttu ekki þræla.
Síðarnefndi hópurinn studdi hinn fyrrnefnda ekki í
baráttunni gegn Norðurríkjamönnum vegna þrælahaldsins. Engu
að síður sýndu fylkisbúar einingu árið 1861, þegar samþykkt
var að slíta sambandinu við Norðurríkin. Sambandsherinn tók
strax fyrir öll viðskipti við fylkið, lokaði leiðum þangað
og lagði margar eyjar fyrir ströndum þess undir sig.
Georgía lagði fjölmennar hersveitir til herliðs
Suðurríkjanna en Joseph E. Brown, fylkisstjóri, hafnaði
yfirumsjón sambandsstjórnar Suðurríkjanna í Montgomery á
grundvelli sjálfstæðis fylkjanna. Árið 1864 réðist
Norðurríkjaherinn inn í Georgíu undir stjórn William
Tecumseh Shermans hershöfðingja, tók Atlanta 1. september og
hélt áfram í hina frægu herför til sjávar þar til hann lagði
Savannah undir sig í desember.
Árin eftir stríðið. Georgía lögleiddi nýja stjórnarskrá og
samþykkti 13. greinina um afnám þrælahalds árið 1865.
Fylkið var engu að síður sett undir herstjórn í samræmi við
endurreisnarskilmálana 1867. Embættismenn fylkisins héldu
uppi stöðugri andstöðu við skilyrði sambandsstjórnarinnar og
tókst að fá sambandsstjórnina til að samþykkja stöðu Georgíu
sem sjálfstæðs fylkis í BNA í júlí 1870.
Að endurreisninni lokinni höfðu demókratar tögl og hagldir í
fylkinu. Búrbónar (íhaldssamir demókratar) réðu ríkjum frá
1872 til 1890. Þeir voru hygldu fyrirtækjum með lágum
sköttum og takmörkuðu opinbera þjónustu.
Hvít yfirráð. Í kosningunum 1908 gerðu nýjar
skráningarreglur til kosninga þeldökkum næstum ómögulegt að
nýta kosningarétt sinn, þannig að undantekningalítið var
hvítum mönnum einum mögulegt að fá leyfi til að kjósa.
Eugene Talmadge, sem var kosinn fylkisstjóri 1933, hafnaði
öllum tillögum um umbætur og vildi alls ekki ljá máls á
jafnrétti hvítra og svartra. Í kjölfar kosningar Ellis
Arnall í fylkisstjóraembættið 1942 urðu verulegar umbætur,
sem náðu m.a. til afnáms kosningskatts og lögleiðingar
nýrrar stjórnarskrár 1945. Talmadge var endurkjörinn
fylkisstjóri 1946 en lézt áður en hann tók við embætti.
Þingið lýsti son hans, Herman E. Talmadge, fylkisstjóra en
hæstiréttur fylkisins ógilti þessa ákvörðun. Engu að síður
náði Talmadge kjöri árið 1948.
Georgíufylki barðist gegn jafnréttishreyfinum með hnúum og
hnefum. Þegar hæstiréttur úrskurðaði, að allir kynstofnar
hefðu rétt til menntunar í ríkisskólum, voru samþykkt lög,
sem leyfðu stofnun einkaskóla. Árið 1955 samþykkti þingið
lög, sem leyfðu einkaskólum að hafna þeldökkum inngöngu.
Eftir 1955 var farið að loka skólum til að koma í veg fyrir
aðgang þeldökkra.
Málamiðlun í kynþáttamálum og efnahagsbati. Árið 1961
opnuðu Georgíuháskóli og skólar í Atlanta öllum inngöngu.
Leiðtogar hvítra og svartra í Atlanta reyndu að koma til
móts við kröfur þeldökkra og koma í veg fyrir átök. Um það
leyti komu samtök svartra undir forystu Martin Luther King
Jr. sér upp höfuðstöðvum í Atlanta.
Íbúum fylkisins fjölgaði hratt á sjöunda og áttunda
áratugnum. Höfuðborgin, Atlanta, varð aðalmiðstöð fjármála
og samgangna í suðausturhluta fylkisins. Mikil umferð var
og er um flugvöll borgarinnar og í kringum 1990 voru íbúar
borgarinnar orðnir 2,8 miljónir. Efnahagur fylkisins
byggist aðallega á léttum iðnaði, ferðaþjónustu, herstöðvum
og starfsemi hers BNA, þannig að landbúnaðurinn vegur ekki
lengur þungt á vogarskálunum. |