Georgia land og náttúra Bandaríkin,


GEORGIA
LAND og NÁTTÚRA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál Georgíu er 153.953 ferkílómetrar (24. í stærðarröð BNA).  Sambandsstjórnin á 4% af landinu.  Fylkið er nokkurn veginn rétthyrnt í lögun, 515 km frá norðri til suðurs og 410 km frá austri til vesturs.  Hæð nær frá sjávarmáli við Atlantahafið upp í 1458 m á Brasstown Bald-tindi í grennd við norðurlandamærin.  Meðahæð yfir sjó er 183 m.  Atlantshafsstrandlengjan er 161 km löng.

Georgía nær yfir sex landfræðileg svæði:  Strandsléttuna við Atlantshafið í austri og austanverða Flóaströndina í suðri, Piedmont-sléttuna og Appalachian-fjöll í norðri, Dal- og Hryggsvæðið og Cumberland-sléttuna í vestry og norðvestri.  Útkoman er mjög fjölbreytt og mismunandi landslag.  Yfirborð Flóastrandarinnar er þakið sandi og óhörðnuðum leir en berggrunnurinn er hinn sami og við Atlantshafsströndina, kalksteinn, sem vatn hefur holað við Mexíkóflóann og myndað sig- eða hrunlægðir á yfirborðinu. Strandslétta Atlantshafsmegin er þakin mun frjósamari jarðvegi og þar er fjöldi víkna og mýrlendra svæða.  Úti fyrir ströndinni er eyjakeðja, sem teygist suður með Suður-Karólínu og Flórída.  Við suðurmörk beggja strandsvæðanna er Okefenokee-fenjasvæðið, sem er að hluta í Flórída.

Piedmont-sléttan nær yfir mestan hluta norðurhelming fylkisins.  Þar er öldótt landslag með stórkristölluðum berggrunni (granít o.fl. tegundir bergs).  Landslagið lækkar við suðurmörk sléttunnar og vatnsföllin af henni mynda fossa og flúðir á þeim slóðum.  Sléttunni hallar upp á við frá suðri til norðurs frá u.þ.b. 150 m í 365 m yfir sjó.

Þrír hlutar Appalacian-fjalla mynda landslagið í norðurhluta fylkisins.  Blue Ridge í norðausturhlutanum ber hæst.  Þar eru fjöllin kollótt, skógi vaxin og skorin þröngum dölum.  Berggrunnurinn er hart gneiss.  Vestan Blue Ridge er Dalurinn og Hryggsvæðið með flötum, breiðum og frjósömum dölum með norðaustur-suðvesturstefnu.  Milli þeirra eru mjóir og brattir hryggir.  Norðvesturhorn fylkisins er hluti Cumberland-sléttunnar.  Þar eru fremur mjóir og ófrjósamir dalir með hryggjum á báðar hliðar.

Helztu vatnsföllin eru Savannah, Altamaha, ocmulgee, Oconee, Chattahoochee og Flint.

Fylkið státar ekki af stórum, náttúrulegum stöðuvötnum en mörg stór lón hafa myndazt ofan við stíflur í ánum.  Þeirra á meðal eru Lake Seminole, Walter F. George-vatn og Sidney Lanier-vatn í Savannah-ánni og Allatoona-vatn í Etowah-ánni.  Hluti nokkurra vatna teygist inn í nágrannafylkin.

Loftslagið.  Á báðum strandsvæðunum og á Piedmont-sléttunni ríkir rakt og jaðartrópískt loftslag.  Sunnar, þar sem er láglendara og áhrifa hlýsjávar Atlantshafsins og Mexíkóflóa gætir, eru sumrin löng og heit, vetur stuttir og mildir og úrkomu gætir allt árið.  Á svæðum Blue Ridge, Dala og Hryggja og á Cumberland-sléttunni ríkir rakt meginlandsloftslag.  Sumur eru svalari á þessum svæðum en í Suður-Georgíu og vetur eru kaldari án þess að vera harðir.  Lægsti skráður hiti í fylkinu er -27,2°C (1940, Rome í norðvesturhlutanum) og hinn hæsti 44,4°C (1952 í Louisville í austurhlutanum).

Flóra og fána.  Skógar þekja u.þ.b. 60% af fylkinu (eik, fenjatré, kýpressur, hikkorí og hlynur).  Víða, einkum í norðurhlutanum, eru fögur, blómstrandi tré og runnar.

Meðal villtra dýra eru dádýr, þvottabirnir, pokarottur, refir og íkornar auk fjölda svartbjarna í fjallendinu og í skógum suðausturhlutans.  Fjöldi margra fuglategunda er víða mikill (endur, gæsir, akur- og lynghænur og söngfuglar).  Í ám og vötnum er gnótt bassa, silungs, karfa o.fl. tegunda.  Krabbi, ostrur, rækjur og síld eru á strandgrunninu.

Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Jarðefnabirgðir eru talsverðar í fylkinu (kaolinleir, marmari, granít, kol, sandur og möl, feldspat, míka, sápusteinn, barít, mangan og bentónít).
Efnahagur fylkisins byggist m.a. á miklum landbúnaði.  Fylkið er meðal þriggja mestu framleiðenda kjúklinga (Arkansas og Alabama) og er leiðandi í ræktun jarðhnetna og pekanhnetna.  Meðal annarra landbúnaðarafurða eru egg, maís, sojabaunir, nautakjöt, mjólk, mjólkurvörur, tóbak, baðmull, hey, baunir og perur.

Talsvert er um skógarhögg og skógrækt.  Næstum þriðjungur trjáviðar er nýttur til framleiðslu pappírs.  Fiskveiðar og vinnsla vega ekki þungt.  Aflinn byggist aðallega á skelfiski (rækja, krabbi, ostrur og öðuskel).

Iðnaðurinn byggist aðallega á framleiðslu vefnaðarvöru, flutningatækja, pappírs og matvæla.  Víða eru pappírsmyllur og sellófan er framleitt úr sellulósa furutrjáa.  Talsvert er framleitt af gólfefni úr harðri furu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM