Atlanta Georgia Bandaríkin,


ATLANTA
GEORGIA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Atlanta er höfuðborg Georgia-fylkis á svokallaðri Piedmont-sléttu við rætur Bláfjalla í u.þ.b. 305 m hæð yfir sjó.  Borgin er miðstöð verzlunar og viðskipta og þjónustu í suðaustanverðum BNA.  Stór hluti vinnaflsins er bundinn í verzlun og viðskiptum.  Fjármálastarfsemi er mikil og mörg stórfyrirtæki eiga aðalstöðvar sínar í borginni (CNN).  Umsvif hins opinbera eru líka mikil og fjöldi fólks starfar fyrir alríkisstjórnina, fylkisstjórnina og borgina.  Meðal helztu framleiðsluvara borgarinnar eru flugvélar, vélknúin ökutæki, timbur og pappír, fatnaður og efnavörur.  Aðalmiðstöð sóttvarna í BNA er í grennd við borgina.

Meðal æðri menntastofnana, sem eru einkareknar, eru Emory-háskólinn (1836) og Atlantaháskóli (1867).  Opinberir skólar eru m.a. Tækniskóli Georgíu (1885) og Fylkisháskólinn (1913).  Listasafnið (1983) hannaði bandaríski arkitektinn Richard Meier.  Það og synfóníuhljómsveitin eru meðal helztu menningarstofnana borgarinnar.  Borgin styrkir þrjú íþróttafélög, Haukana (körfubolti), The Braves (hafnarbolti) og Fálkana (ruðningsbolti).  Borgin annast Carter forsetamiðstöðina (1986), sem er bókasafn helgað forsetatíð Jimmi Carters.  Martin Luther King Jr. sögusvæðið nær m.a. yfir fæðingarstað þessa alþýðuleiðtoga, Ebenezer-baptistakirkjuna, þar sem hann predikaði og King-miðstöðina með grafhvelfingu hans.

Creek-indíánar létu borgarstæði Atlanta af hendi árið 1821.  Byggðin, sem hét þá Terminus, var skipulögð 1837 við suðurenda fyrirhugaðrar járnbrautar til Chattanooga í Tennessee.  Hún var síðan innlimuð í Marthasville 1843 og tveim árum síðar fékk hún núverandi nafn, kvenkynsmynd af nafni Atlantshafsins.  Í borgarastríðinu var borgin mikilvæg miðstöð járnbrautasamgangna með u.þ.b. 15.000 íbúa.  Borgin var mikilvæg birgðastöð fyrir her Suðurríkjamanna og William Tecumseh Sherman, hershöfðingi Norðurríkjamanna stjórnaði árásum á hana frá Chattanooga.  Hinn 15. nóvember 1864 brenndi Sherman næstum alla borgina til grunna áður en her hans hélt niður á ströndina.  Borgin náði sér fljótt á strik á ný eftir stríðið og varð höfuðborg fylkisins til bráðabirgða 1868 en þetta hlutverk hennar var staðfest til frambúðar í almennum kosningum 1877.

Atlanta lék stórt hlutverk í baráttu svartra íbúa BNA fyrir jafnrétti.  Á sýningu baðmullarfylkjanna og alþjóðlegri sýningu 1895, hélt Booker T. Washington málamiðlunarræðu sína, þar sem hann féllst á félagslegt og pólitískt ójafnræði svartra gegn efnahagslegu öryggi þeirra.  Árið 1957 stofnaði Martin Luther King Jr. til ráðstefnu kristilegra leiðtoga í Suðurríkjunum og annarra leiðtoga í jafnréttismálum til að styrkja og efla baráttuna fyrir jafnrétti kynþáttanna.  Árið 1973 urðu íbúar Atlanta fyrstir Suðurríkjamanna til að kjósa svartan borgarstjóra, Maynard Jackson.  Hann var endurkjörinn 1985 og 1989.  Árið 1996 voru Ólympíuleikarnir haldnir í borginni og umhverfis hana.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var tæplega 400 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM