Tampa er stór hafnarborg, sem
þjónar stóru héraði, þar sem eru ræktaðir nautgripir, sítrusávextir,
grænmeti og framleitt fosfat. Hún
er einnig miðstöð viðskipta, fjármála og þjónustu og er meðal
stærstu iðnaðarborga Flórída (matvæli, elektrónískir hlutir,
prentun, samgöngutæki og byggingarefni).
Stór rækjuveiðifloti á heimahöfn í Tampa.
Loftslagið er jaðartrópískt og laðar til sín fjölda
vetrargesta og margir eftirlaunaþegar hafa setzt þar að.
Í og við borgina er fjöldi baðstranda og skemmtigarða.
Skammt utan borgarinnar er alþjóðaflugvöllur og hún er setur
Tampaháskóla (1931), menntaskóla (1890) og Suður-Flórídaháskóla
(1956). Meðal áhugaverðra
staða er Ybor City (1885), fallegt, latneskt hverfi, þar sem var
vindlaiðnaður. Tampa státar af nokkrum leikhúsum og söfnum.
Gestir hafa gaman að heimsókn í Busch Gardens og þarna er líka
Tampa Bay-leikvangurinn, aðsetur Tampa Bay Buccaneers (ruðningsboltalið).
Spænski hermaðurinn Pánfilo
de Narváez kannaði Tampaflóa 1528.
Landnám þar hófst ekki fyrr en árið 1823, þegar komið var
á fót plantekru. Brooke-virkið
var byggt árið eftir. Uppgötvun
fosfats árið 1883, lagning járnbrautar 1885 og stofnun vindlaiðnaðarins
1886 efldi vöxt og viðgang byggðarinnar.
Í Spænsk-ameríska stríðinu var borgin þjálfunarmiðstöð
fyrir herinn og þaðan héldu hermenn til Kúbu (Theodore Roosevelt’s
Rough Riders). Árið 1953
jók borgin við land sitt með sameiningu úthverfanna, sem voru áður
utan borgarmarkanna. Nafn
borgarinnar er líklega fengið úr tungu Caloosa og þýðir eldstautar.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var 280 þúsund. |