Upprunalegir íbúar Flórída, indíánaþjóðflokkarnir timucua,
apalachee og calusa urðu að víkja fyrir seminólum, sem
fluttust suður á bóginn frá Georgíu og voru orðnir
allsráðandi á 18. öldinni.
Spánverjinn Ponce de León sigldi fyrstur inn í
Biscayneflóann árið 1513. Þar sem Miami er nú, var stofnuð
jesúítatrúboðsstöðin Tequesta árið 1567, sem jafnframt var
síðasti áfangastaður spænska silfurflotans í Vesturheimi
áður en hann hélt yfir Atlantshafið til Evrópu.
Eftir að Spánverjar fóru brott árið 1821 braut fyrsti
bandaríski landnámsmaðurinn þar land undir
baðmullarplantekru og ávaxtaræktun á þessu raka og heita
svæði, þar sem moskítóflugur voru mikil plága. Á tímum
seminólastyrjaldanna var Dallasvirkið byggt (1836). William
Brickell stofnaði verzlunar- og póststöð við Miamiána (Mayami
á indíánamáli = Stóravatn) árið 1871. Fimm árum síðar lagði
Norðurríkjakonan Júlía Tuttle undir sig langa landræmu
norðan Miamiár. Framtak hennar varð til þess, að Henry M.
Flagler lét leggja Austurstrandarjárnbrautina alla leið
þangað og stofnaði Royal Palm hótelið við enda hennar árin
1895/1896. Þá bjuggu tæplega 5.000 manns í Miami.
Spænsk-ameríska stríðið árið 1898 varð mikill ávinningur
fyrir
Miami.
Árið 1912 var byggð geysistór trébrú út í eyjuna
Miami Beach.
Íbúum fjölgaði stöðugt og árið 1925 var íbúafjöldinn orðinn
85.000. Fellibylur, sem geisaði árið 1926, olli miklu tjóni
og afturkipp í öllu athafnalífi næstu árin á eftir.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru tugir þúsunda
hermanna sendir til Miami til afslöppunar og heilsubótar.
Margir þeirra settust að í borginni. Eftir styrjöldina
hófst gífurleg uppbygging, sem sér ekki fyrir endann á enn
þá.
Uppreisn Kastrós á Kúbu olli miklum flóttamannastraumi frá
eyjunni. Hann beindist helzt að Miami, þar sem þetta fólk
kom sér fyrir og hafði mikil áhrif á ýmsa þróun á svæðinu,
s.s. stjórnmál. |