Miami skoðunarvert Flórída Bandaríkin,
Flag of United States


MIAMI
SKOÐUNARVERÐIR STAÐIR
FLÓRÍDA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Biscayne Boulevard.  Suðurhluti þessarar pálmum skrýddu breiðgötu er aðalumferðaræð Miami.  Að austanverðu takmarkast hún af Bayfront Park og að sunnverðu af Miamiánni.  Vestan við götuna eru stór háhýsi, t.d. Biscayne Tower (139 m hár; 1972) og á bak við hann er First Federal Building, sem er 155 m há.

Central Bank, S.E.Financial Center, sem byggð voru 1987, eru orðin að táknum borgarinnar.  Á kvöldin eru skýjakljúfar Central Bank (52 hæðir) og S.E.Financial Center (55 hæðir) flóðlýstir.

Byfront Park
er austan Biscayne Boulevard.  Nýr miðpunktur hans er Peppergosbrunnurinn, sem er tölvustýrður.

*Bayside markaðstorgið er norðan Bayfront Park umhverfis Miamarina snekkju- og skútuhöfnina (var eitt sinn bryggja nr. 5) með 208 bólfestar.  Þaðan hefjast skoðunarferðir með bátum og sjóstangaveiði.  Sjónvarpsþættirnir Miami Vice fóru oft fram á þessum slóðum og Sonny Crockett átti þar húsbát.  Við höfnina eru fallegar verzlanir, góð veitingahús og Pier 5 - markaðurinn, þar sem seldir eru minjagripir og listmunir við tónlist götulistamanna (karabísk og miðamerísk tónlist).  Frá markaðnum liggja tvær brýr að útileikhúsinu Bayfront Part Amphitheater, sem var vígður 1988.

H.M.S. Bounty, sem liggur við landfestar í snekkjuhöfninni, er hefur mikið aðdráttarafl.  Skipið er opið gestum frá mánudegi til fimmtudags kl. 10:00 til 18:00 og föstudaga, laugardaga frá kl 10:00 til 22:00 og sunnudaga frá kl. 12:00 til 20:00.  Þetta þrímastraða skip er eftirmynd af hinu fræga Bounty, sem uppreisnin var gerð á  og notað var í kvikmyndinni með Marlon Brando í aðalhlutverki.

Flagler Street liggur frá Biscayne Boulevard í vestur að Guzman Cultural Center (1926; var áður Olympialeikhúsið; endurnýjað 1972 og er nú menningarmiðstöð) og síðan að Dade County dómshúsinu (1926) og stjórnarráðinu (Government Center).  Þar næst er komið að nýtízku húsi í Miðjarðarhafsstíl, Metro Dade Cultural Center (fagurlist; skiptisýningar), aðalbókasafninu og sögusafni Suður-Flórída (um ættflokka indíána, sjóræningja, frumherja o.fl.; sýndar þrívíddarmyndir um Miami; opið mánud.- ld. 10:00-17:00, fimmtud. til 21:00, sunnud. 12:00- 17:00; aðgangseyrir).

Miami Arena (1988) er sjö húsaröðum norðar.  Þessi leikvangur rúmar 15.500 manns í sæti og þar fara fram alls konar íþrótta- og útihátíðir.

Lummus Park er vestar.  Við ósa Miamiár er Dallasvirkið, sem reist var 1836, endurreist eftir bruna.   Fyrsta mannvirkið, sem þar stóð, voru þrælabúðir fyrstu plantekrunnar.  Wagnerhúsið er dæmigert landnemahús (byggt um miðja nítjandu öld).

Civic Center (ráðhúsið) er 1,5 km norðvestar og aðeins norðar er velþekkt heilsugæzlustöð, Metropolitan Medical Center.

Miami Stadium er hornaboltaleikvangur nokkuð norðaustar.

Litla-Havana er hverfið handan Miamiárinnar.  Nafngiftina fékk það vegna hinna mörgu Kúbverja, sem þar búa.  Hluti götu, sem heitir Tamiami Trail og liggur á milli SW 12th Ave. og SW 27th Ave, er kallaður Calle Ocho.  Þar er fjölskrúðugt verzlunarhverfi, litlir markaðir, kaffi- og veitingahús og afslappað andrúmsloft.  Spænska er aðaltungan, sem töluð er í Litlu-Havana.

Domino Park við 15th Ave. er fallegur garður, sem útlægir, eldri Kúbverjar sækja til að spila dómínó.

Orange Bowl (Appelsínuskálin).  Þar er leikinn ruðningur og haldnar frægar tónlistarhátíðir.

Dade County Auditorium er í vesturhluta borgarinnar (2901 W. Flagler st.; 2.500 sæti).  Þar eru haldnir tónleikar og listsýningar (höggmyndir og málverkasýningar).

*Miamihöfn.  Maður kemst niður að höfn um Biscayne Boulevard sunnanverðan og Avenue of the Americas.  Dodgeeyja er uppfylling, sem 11 stór skemmtiferðaskip geta lagzt að í einu.  Hún er stærsta farþegahöfn í heimi og árlega fara þar um a.m.k. 3 milljónir manna á leið í eða úr siglingu til Bahamaeyja og/eða um Karíbahafið.

New World Center/Bicentennial Park er norðan Bayfront Park.  Þar hefur borgin staðið að endurbyggingu gamalla hafnarmannvirkja.

MacArthur Causeway liggur til norðurs um Miami Beach út á eyju, þar sem hinn fallegi Watson Park er.  Þar er japönsk pagóda, tehús, foss o.fl. og skemmtigarður með alls konar tívolítækjum.  Þaðan er líka hægt að fara í útsýnisflug með þyrlum.

Miami Herald, dagblaðsbyggingin, er við norðanverða Biscaynebreiðgötuna (skoðun eftir pöntunum).

Omni International (90 m)gnæfir yfir brúarsporð Feneyjastrætis (Venetian Causeway).  Þetta er 556 herbergja, yfirbragðslitlið hótel með stórri verzlunarmiðstöð á mörgum hæðum, 8 veitingasölum, 6 kvikmyndasölum, gamalli hringekju o.fl.

Bacardi listasafnið er norðar.  Þar er sýnd verk amerískra og alþjóðlegra listamanna.

Brickell Avenue.  Beygi maður til hægri við suðurenda Biscaynebreiðgötu yfir Miamiá, er komið inn á Brickell Avenue, sem áður var íbúðargata ríka fólksins, afkomenda landnemanna, og kölluð Milljónamæringagata.  Nú standa við hana nýtízku stjórnsýslubyggingar og stór fjölbýlishús.  Gatan er núna kölluð Wall Street of Miami.  Brickellhúsið (nr. 501) og Brickell Park eru athyglisverð.

Vísindasafnið og stjörnufræðistöðin (Museum of Science & Planatarium) eru lengra til suðvesturs (3280 Miami Ave.).  Þar er fjallað um náttúruvísindi og geimferðir auk stjörnuathugunar.

*Villa Vizcaya (Listasafn Dade County) er skáhallt á móti vísindasafninu (3251 Miami Ave.).  Þar er opið daglega 09:30 - 16:30.  Umhverfis húsið er fallegur, klassískur garður. James Deering, sem framleiddi uppskeruvélar, lét reisa húsið í ítölskum endurreisnarstíl á árunum 1912-1915 og notaði það sem vetrardvalarstað.  Í glæsisölum þess eru nú verk franskra, ítalskra og spænskra listamanna og húsgögn, teppi, höggmyndir og safn gamalla Baedekerbóka.

Rickenbacker Causeway (brúartollur) liggur frá miðborginni sunnanverðri um Biscayne Bay að Marineleikvangsinum (6.538 sæti) og til Virginia Key-eyjar.

Planet Ocean.  Við suðurströnd manngerða lónsins er sædýra- og sjóferðasafn. Með aðstoð nýjustu tækni er gestum gefinn kostur á að upplifa fellibyl í safninu.

Sædýrasafnið (Seaquarium) er opið daglega frá 09:00 til 18:30 og síðast hleypt inn kl. 17:00.  Það er stærsta safn sinnar tegundar og er sunnan við Planet Ocean.  U.þ.b. 10.000 sjávardýr eru þar til sýnis.  Sérstaka athygli vekja stóra laugin (Golden Aquadome) með háhyrningnum Lolita, og höfrungnum Flipper og stór ker með ýmsum tegundum hákarla.

Key Biscayne.  Þegar ekið er suður yfir tollbrúna 'Bear Cut Bridge' er komið inn á útivistarsvæði á litlu eyjunni Key Biscayne.  Þar er Crandon Park og lítill dýragarður.  Syðst á eyjunni er Bill Baggs Cape Florida State Park með fallegri sandströnd.  Í litla veitingahúsinu í vitanum, sem byggður var árið 1825, er sýning helguð seminólastríðunum.

Coconut Grove er listamannahverfi Miami.  Það er á milli Biscayne Bay, Lejeune Road og South Dixie Highway.  Við Biscayneflóann eru ráðhús borgarinnar, Komples Dinner Key með áheyrendasölum og smábátahöfn (370 bólfæri; stærsta bátasýning í heimi í oktober ár hvert).  Aðalgata hverfisins er  Main Highway.  Við hana er fjöldi veitingahúsa, sérverzlana og fínar verzlanir, einkum í grennd við Grand Avenue, sem liggur inn í hið eiginlega listamannahverfi Black Grove.

*Mayfair verzlunarmiðstöðin við Mary Street hefur um árabil verið sérstökust og dýrust sinnar tegundar í Vesturheimi.

Cable Estate er lúxushverfi með stórum einbýlishúsum og fögrum görðum við lónið sunnan listamannahverfisins.  Þar eru einnig legur fyrir lúxussnekkjur íbúanna.

Miamiháskóli er 3 km sunnan listamannahverfisins.  Hann var stofnaður 1926 og þar stunda u.þ.b. 20.000 stúdentar nám.  Skoðunarverðir staðir hans eru Ring Theater, Lowelistasafnið (listaverk frá Ameríku, Evrópu og Austurlöndum fjær) og Kress safnið með gömlu meisturunum.

Coral Gables er úthverfi suðvestan miðborgarinnar (47.000 íb.).  George Merrick hóf uppbyggingu þess eftir teikningum föðurs síns árið 1926.  Það er í Miðjarðarhafsstíl.  Þar eru stórir garðar og íþróttavellir en hverfið er ekki eins virðulegt og það var í upphafi.  Ráðhús þessa bæjarhluta er við norðurenda lejeune Road.  Það er í spænskum endurreisnarstíl.  Við ráðhúsið byrjar kraftaverkamílan (Miracle Mile), hin kunna aðalverzlunargata hverfisins.  Bygging Florida National bankans nr. 2701 við Soto Blvd. er athyglisverð.

Venetian Pool er falleg sundlaug í gamalli kóralnámu suðvestan ráðhússins.  Henni veitti samt ekki af viðhaldi og lagfæringum.

Coral Way.  Svæðið umhverfis þessa götu er dæmigert íbúðahverfi.  Coral Gables húsið (nr. 907) var bústaður foreldra George Merrick.  Það var byggt á árunum 1898 - 1907.  Biltmore hótelið, sem Merrick lét reisa fyrir mörgum áratugum, er falleg bygging eftir vandaða endurnýjun utanhúss.

Hialeah (indíánamál = Fagrafljót) er útborg vestan miðborgarinnar.  Uppbygging hennar hófst 1921 og nú búa þar u.þ.b. 140.000 manns.  Hialeah-garðurinn er fallegur með skeiðvelli, vatni, flæmingjum og fjölda annarra fáséðra fuglategunda, sædýrasafni og stóru hestvagnasafni.

Opa Locka er fyrirmyndarhverfi, sem byggðist á þriðja áratugnum norðan Hialeah.  Arkitektinn tók márískan stíl til fyrirmyndar.  Göturnar eru sigðlaga og skírðar eftir ævintýrunum í 1001 nótt.  Ráðhúsið og Heartbyggingin/Opa Lockahótelið með næputurnum og minarettum eru athyglisverð hús.  Árlega er haldin hátíð, sem kennd er við Arabískar nætur, á hótelsvæðinu.

Parrot Jungle (Páfagaukaskógur) er þétt frumskógarsvæði í suðurborginni, þar sem páfagaukum, storkum, kakadúum og flæmingjum líður mætavel.  Daglega fara fram sýningar í svokallaðri Parrot Bowl.  Þar er líka Flæmingjavatnið og páfagaukasirkus (opið daglega 09:30-17:00).  Lítið eitt sunnar er hið einkennilega Sausage Tree (bjúgnatréð) með sperðillöguðum ávöxtum.

Fairchild Tropical Gardens eru u.þ.b. 2 km norðan við Parrot Jungle (nr. 10901 við Cutler Road).  Þar eru margar tegundir hitabeltisplantna, þ.á.m. margar sjaldgæfar pálmategundir.

*Metrozoo.  Þessi dýragarður, einn hinn stærsti í Bandaríkjunum, sem var byggður eftir ströngustu kröfum og opnaður 1982, er í suðurborginni.  Hann er opinn daglega frá kl. 10:00 til 17:30 en engumm er hleypt inn eftir kl 16:00.  Í honum eru rúmlega 100 tegundir dýra í eins náttúrulegu og eðlilegu umhverfi og hægt var að skapa.  Aðalathyglina fá bengaltígarnir, kóalabirnirnir og risavaxinn fuglagarður með rúmlega 300 tegundum fugla.

Norður-Miamihverfið er nærri 14 km norðan miðborgarinnar.  Þar er vaxmyndasafn borgarinnar (13899 N. Biscayne Blvd.) með 40 útstillingum um sögu Flórída allt frá steinöld til geimaldar.

Norður-Miami Beach er nokkrum km norðar.  Þar er athyglisvert gamalt spænskt klaustur (Cloisters of the Monastery of St. Bernhard), sem byggt var árið 1141 í Segovia á Spáni.  Blaðakóngurinn William Randolph Hearst (1863-1951) keypti það og lét flytja til Bandaríkjanna.

Alþjóðaháskóli Flórída er í útborginni Sweetwater.  Þar er lögð mikil áherzla á vandamál Karíbasvæðisins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM