Flórída land og náttúra Bandaríkin,
Flag of United States


FLÓRÍDA
LAND og NÁTTÚRA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Heildarflatarmál Flórída er 170.313 ferkílómetrar (22. í stærðarröð fylkja BNA).  Sambandsstjórnin á 9,4% landsins.  Fylkið er að mestu stór skagi, sem teygist 645 km til suðurs milli Atlantshafs og Mexíkóflóa.  Nyrzti hluti þess er mjó ræma milli Georgíu og Alabama að norðanverðu og Mexíkóflóa að sunnanverðu.  Landið hækkar frá sjávarmáli upp í 105 m, þannig að meðalhæðin yfir sjó er aðeins 30 m.  Strandlengjan er 2.173 km löng.  Vegalengdin milli nyrzta og syðsta hluta er 725 km og austasta og vestasta 580 km.

Jarðfræði.  Grunnberg Flórídaskagans er kalksteinn, sem er vel sýnilegur í norðvesturhlutanum en víðast annars staðar er hann hulinn sandi og/eða leir.  Úrkoman, sem sígur niður í jarðlögin, hefur víða leyst kalksteininn upp og myndað hella og holrúm, sem yfirborðslögin hrynja síðan niður í og mynda þúsundir hringlaga lægða eða óreglulega holur í landslaginu.  Margar lægðir og holur eru nú vatnsfylltar og mynda mikinn fjölda misstórra stöðuvatna, sem prýða landslagið.

Landafræði.  Lágur hæðahryggur teygist suður að Okeechobee-vatni en að öðru leyti er skaginn flatur.  Mýrar og fen eru víða, s.s. Big Cypress Swamp og Everglades, sem þekja suðurhlutann að mestu.  Eyjar, kórarrif og sandeyrar liggja meðfram mestum hluta Atlantshafsstrandarinnar og innan þeirra eru mjó lón, sem bera víða nöfn stöðuvatna eða vatnsfalla. Syðsti hluti fylkisins er eyjaklasi, sem er kallaður Florida Keys (Key largo, Key West, Marquesas Keys, Dry Tortugas).  Milli þeirra eru brýr, þannig að þær eru í vegasambani við meginlandið.

Landræman í norðri er lítill hluti strandlengjunni við austanverðan Mexíkóflóa, sem liggur til vesturs um sunnanverð fylkin Georgíu, Alabama og Texas.  Þarna liggur landið lágt og er mýrlent en hækkar inn til landsins, þar sem eru rauðar leirhæðir að austanverðu og sandöldur að vestanverðu.

Um fylkið falla fjórar meginár, allar í norðurhlutanum:  Apalachicola (stærst), Suwannee, St Johns (lengst) og Escambia.  Indian River rennur heila 210 km meðfram austurströndinni er í rauninni ekki vatnsfall, heldur langt, ísalt lón milli eyja og rifja annars vegar og strandarinnar hins vegar.

Stöðuvatnið Okeechobee á suðurhluta skagans er hið þriðja stærsta, sem er að öllu leyti innan BNA.  Það er mjög grunnt.

Loftslagið er víðast mjög rakt og jaðartrópískt.  Í syðsta hlutanum, einkum á eyjunum er bæði þurrt og rakt hitabeltisloftslag, líkt og í Mið-Ameríku.  Að öðru leyti eru sumur löng, heit og úrkomusöm og vetur oftast mildir og sólríkir.  Í norðvesturhluta fylkisins eru vetur úrkomusamir.  Meðalárshiti í Tallahassee (NV) er 20°C og í Fort Lauderdale (SA) 25°C.  Hitasveiflur hafa mælzt milli -18,9°C (Tallahassee 1899) og 41,8°C (Monticello 1931).  Flórídaskaginn, þó einkum suðurhlutinn, er innan farvega fellibylja, sem valda oft gífurlegu tjóni á sumrin og haustin.

Flóra og fána.  Skógar þekja u.þ.b. 35% af fylkinu með fjölda trjátegunda og fjöldi tegunda blómstrandi plantna prýðir umhverfið.

Mörgum spendýrategundum Flórída fer fækkandi vegna útþenslu byggðar.  Meðal þeirra eru svartbirnir, sumar dádýrategundir, villikettir, grárefir og pardusdýr.  Minni spendýr, s.s. kanínur, pokarottur, íkornar og þvottabirnir, virðast ekki vera eins viðkvæm.  Vegna verndarráðstafana er stofn flórídakrókodíla (alligator) ekki í hættu.  Snákar, skjaldbökur, froskar, eðlur, köngullær og sporðdrekar eru líka algeng sjón.  Meðal áberandi fuglategunda eru egret, flamingóar, hegrar og pelikanar.

Talið er, að u.þ.b. 700 fiskategundir finnist í stöðuvötnum, ám og fyrir ströndum fylkisins.  Mikið er um skelfisk og ferskvatnshvalirnir manatee eru í ánum og nærri ströndinni.
Auðlindir, framleiðsla og iðnaður.  Helztu jarðefnin eru kalksteinn, fosföt, olía og ál (fuller’s earth).  Þar að auki finnst náttúrugas, sandur, möl, brennisteinn, mór, leir (kaolin), sirkon, titan, ilmenít, og rútíl.

Landbúnaður er mikilvægur og fylkið er í 9. sæti BNA á sviði landbúnaðarframleiðslu.  Helztu afurðirnar eru sítrusávextir (aðallega appelsínur), nautakjöt og mjólkurafurðir.  Aðeins Kalifornía framleiðir meira af melónum og grænmeti en Flórída.  Þá er einnig mikið ræktað af baunum, paprika, gúrkum, kartöflum og vatnsmelónum auk tómata, sojabauna, maís, tóbaks, hnetna og sólblóma.

Skógarhögg, ræktun og trjáviðarvinnsla er mikilvægur atvinnuvegur í norðurhluta fylkisins.  Helztu trjátegundirnar, sem eru unnar, eru fura, eik og hikkorí.  Fiskveiðar og vinnsla eru mikilvæg (rækjur, humar, krabbi, skelfiskur, ostrur, sverðfiskur, makríll).

Helztu iðnaðarvörur eru rafeindatæki, flutingatæki, nákvæmnistæki, prentun og unnin matvæli (appelsínusafi, niðursuða ávaxta og grænmetis, frysting grænmetis og vinnsla og pökkun sjávarafurða).  Einnig er mikið framleitt af tilbúnum áburði, plastvöru, lyfjum, tóbaki, fatnaði, vélbúnaði til iðnaðar og pappírsvörum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM